aðventan
Þau sem þekkja mig vita að ég er mikið jólabarn í mér. Ég er búin að vera ómöguleg hérna heima hjá mér, gekk svo langt að vera næstum búin að blanda mér gin og tónikk þarna áðan, nema að ég á auðvitað ekkert tónikk, en allt jólaskrautið mitt, y compris aðventukransinn stóri (allt of stór fyrir íbúðina en mamma bjó hann til sjáiði til og hann er mjög flottur) er niðri í geymslu. Og ég þori ekki að fara ein í geymsluna mína.Þið megið gera grín að mér, bæði fyrir að vera jólabarn í eðli mínu og fyrir fáránlega myrkfælni mína í eina mínútu.
En áðan mundi ég skyndilega eftir kaupum sem ég hef stundum séð eftir þegar ég tek til í ákveðnum skáp á heimilinu. Þetta er forláta aðventukertasjaki sem ég fékk á slikk hjá fornsala í Óðinsvéum fyrir einhverju síðan. Mér fannst hann svo fallegur að ég bara varð að kaupa hann um leið og ég vissi að það er apalegt að eiga einn of stóran aðventukrans og kaupa samt annan sem ég hef aldrei sett upp því einn of stór og annar minni væri hreinlega of mikið, m.a.s. fyrir mig.
Nú er spurning hvort ég leyfi ekki kransi móður minnar að hvíla sig þessi jólin og noti þennan í ár. Pen aðventa, er það ekki voðalega trendí og smart?
En þó er allt eins líklegt að ég setji samt þennan stóra upp þegar ég byrja að draga jólaskrautið mitt úr kössunum, ég get nefninlega ekki sagt að staðfesta sé mín sterkasta hlið, alla vega ekki þegar kemur að jóladóti. Ég hef þó næstum því haldið loforðið sem ég gaf mér um að kaupa ekkert nýtt skraut í ár, féll bara aðeins pínulítið fyrir einni seríu, en hún er líka sérlega falleg og minnir á seríur sem ég keypti um árið og endaði með að gefa þær allar og hef alltaf séð eftir því og verið sjúklega afbrýðisöm út í þau sem fengu svoleiðis gjöf frá mér.
Áðan kveikti ég á fyrsta kertinu og setti jóladisk Karlakórs Kjalnesinga á fóninn. Það er yndisleg stemning hérna hjá mér, regnið er m.a.s. hætt að lemja rúðurnar. Ég skil ekki þau sem finna ekki jólabarnið í sér, ég á nokkra slíka vini en ég skil ekki þennan kafla hjá þeim.
Lifið í friði.
<< Home