27.12.06

að handan

Það er einhverra hluta vegna þannig að á jólunum leitar hugurinn oft til þeirra sem ekki eru lengur meðal vor. Nokkrum dögum fyrir jólin hóf ég að lesa Hannes Pétursson, Rauðamyrkur. Hana las ég á sínum tíma, fékk í jólagjöf frá ömmu minni heitinni, Kristínu Grímsdóttur, en ég hafði aldrei lesið þessa bók aftur síðan þá.
Nú las ég hana á nokkrum dögum, þó ekki sé hún löng þá er það nú þannig að tveggja ungra barna móðir les einfaldlega ekki margar blaðsíður á kvöldin, augnalokin bara leggjast yfir augun, bókin sígur niður á brjóst og einhverjum mínútum síðar hrekkur húsmóðirin þreytta upp, lokar bókinni og slekkur ljósið og svífur yfir í draumaheima.
Rauðamyrkur er ágætis lesning en þegar bókinni var alveg að ljúka datt umslag út úr henni, merkt með skrift ömmu minnar til mín og ég beðin um að opna að lestri loknum. Sem ég og gerði. Þar var lítil klausa sem tengir persónurnar í bókinni við forfeður ömmu minnar (og líka mína, því þó að mamma hafi verið ættleidd var þessi amma mín samt skyld mér, langafasystir ef ég man rétt). Klausan var vélrituð á gömlu ritvél ömmu og afa og svo handundirrituð af ömmu. Þetta var mjög skrýtin tilfinning. Ég mundi alls ekki eftir þessu frá upphaflegum lestri bókarinnar og mér leið dálítið á jóladag eins og ég hefði fengið bréf frá ömmu.

Og nú er ég byrjuð að lesa einu íslensku bókina sem ég fékk í jólagjöf. Hún kom frá sjálfri mér til mín og hefur legið í plasti á náttborðinu síðan ég kom frá Íslandi í byrjun desember. Sumarljós og svo kemur nóttin stenst allar væntingar enn sem komið er. Ég veit ekki hvernig hann Jón fer að þessu, en ég leyfi mér að fullyrða að maðurinn býr yfir galdramætti.
Í gær hraðþýddi ég einn millikafla fyrir manninn minn yfir á frönsku. Honum finnst ég eigi að þýða þessa bók en ég er ekki viss um að ég treysti mér í þýðingu í þessa átt, hef nú ekki einu sinni treyst mér almennilega í bókmenntaþýðingar yfir á íslensku þó vitanlega hafi ég spáð mikið og oft í það og jafnvel sent útgefendum bréf en þeim bréfum hefur ekki verið svarað.
Ég er líka alvarlega að spekúlera í að taka einhverja íslenskukúrsa í fjarnámi, einmitt til að geta kannski betur búið mig undir að leggjast í bókmenntaþýðingar einhvern tímann í framtíðinni.
Það var furðulega auðvelt að hraðþýða þennan litla kafla um tímann sem líður og Jónas og Þorgrím og kynlífið í nútímanum og eftir þá tilraun hélt ég svo áfram að lesa og fékk allt í einu á tilfinninguna að kannski væri bókin upprunalega skrifuð á frönsku. Til dæmis er sögumaðurinn mjög oft ekki ÉG heldur VIÐ á frönsku, það er ópersónulegra og vísar kannski að einhverju leyti í þérun. Þetta er nokkuð algilt í ritgerðum, nemandinn er ekki ÉG heldur VIÐ.

Ég fékk aðra bók í jólagjöf, bók sem ég hef einmitt lesið í íslenskri þýðingu, eða a.m.k. að hluta til. Það er Pétur Gunnarsson sem hóf að þýða hið mikla verk Marcel Proust um leitina að glötuðum tíma en hefur líklega ekki tíma eða efni á að halda því áfram. Eða þá að Proust inspíreraði hann of mikið og hann finnur sig knúinn til að koma sínum eigin sögum á blað meðan honum endist tími og aldur til.
Ég hef lengi vitað að ég yrði að lesa Proust á frummálinu og maðurinn minn ákvað sem sagt að hvetja mig til þess með því að gefa mér fyrsta bindið í jólagjöf en hann hefur einmitt verið að endurlesa þetta verk undanfarið sjálfur.

Annars komst ég að því í morgun að ég er sauður, enda hefur mér ekkert gengið með getraun Eyju.

Lifið í friði.