10.12.06

mannleg hegðun

Í gær gekk ég niður Rue Saint Honoré með börnin í blíðskaparveðri, mátulega kalt og sól. Ekki að mig langaði að spranga um á þessari dýru verslunargötu í leit að jólagjöfum eða jólafötum heldur átti ég að vera mætt með börnin í Palais Royal í vinnuna hans afa Bruno (hann er ekki konungur og ekki butler þó hann vinni í höll) sem flaggar barnabörnunum á jólaballi vinnustaðarins og þetta var besta leiðin úr íslenska skólanum.
Á leiðinni blótaði ég mannfólki af ákveðinni tegund í sand og ösku. Sérstaklega finnst mér ofskreyttar og aðeins of ríkar tískudrósir þreytandi fyrir augað og þegar pelsklædd kona ruddi Kára um koll, leit niður og sá hann með andlitið ofan í götuna, klofaði hálfvegis yfir hann og hélt leið sinni áfram eins og ekkert hefði í skorist varð ég svo reið og pirruð út í þetta skítapakk að ég er eiginlega ekki enn búin að ná mér.
Ekki það, mér fannst þeir ekkert tilkomumeiri gallabuxnaklæddu strákarnir sem stóðu fyrir utan ZöruHMEdamoghvað þær nú heita ódýrari búðirnar á Rivoli, með aðeins of marga poka í höndum og óhugnalega tóman svip á andlitinu. Það var eiginlega samt dálítið fyndið, allir þessir karlmenn, yfirleitt ungir, líklega eru þeir gömlu búnir að læra að setja mörkin og fara ekki með konunum í búðir, standandi í röð upp við grindverkið sem aðskilur gangstétt frá götu, þekkjast ekki og gátu því ekki rabbað, bíðandi þarna með pokana meðan sú heittelskaða straujaði kortið. Líklega smá snertur af brjóstsviða því unga menn langar heldur að leggja peningana á banka og safna fyrir t.d. húsnæði, er það ekki?
Verslunaræðið er ekki skemmtilegur hluti af jólunum. Á St. Honoré voru mörg svört tré í fínu búðunum, heimsku tískuhálfvitar. Í BHV eru trén hvít með kúlum í öllum litum og svo regnbogar inn á milli enda er BHV að breytast meira og meira í hommabúð, líklega vegna nálægðarinnar við hommahverfið í Mýrinni. Þetta tel ég kost, finnst BHV ennþá langbesta vöruhúsið í bænum enda fann ég fljótt og vel töfraefni til að gera við leka sem hófst hér í síðustu viku á baðherberginu og gat þar að auki keypt litlar gjafir handa tveimur mikilvægum manneskjum. Það kalla ég vel af sér staðið því mannmergðin þarna inni og stöðugt áreiti frá fólki sem tilkynnti tilboð í hátalarakerfinu var á góðri leið að gera út af við mig, það kom áreiðanlega stór sprunga í glerhjúpinn minn fína.

Nú ætla ég að fara að telja og pússa kampavínsglös, raða servíettum fallega, taka fram fínu diskana, baka sætar kartöflur, skera hangikjötið, baka tómatbökur, útbúa ostabakka... föðurfjölskylda barnanna er að koma í kaffi.

Lifið í friði.

p.s. einhver ráð til að koma þriggja ára þrjóskupúka í mjúka og góða skyrtu sem var keypt á hann en hann þvertekur fyrir að fara í?