16.12.06

halelúja

Morgninum hef ég eytt í að flakka um veraldarvefinn í heimi leikfanganna. Ég neyðist víst til að fara í dótabúð og kaupa dót fyrir börnin í jólapakkann, það er engin undankomuleið, pakkarnir eru jú áreiðanlega stór ástæða fyrir því að jólabarnið lifir í mér, það væri hræsni að reyna að trúa sjálfri sér um annað.
Og ég verð að rækta upp þetta jólabarn í börnunum því ekki tekur maðurinn minn þátt í þessu standi og fussar helst og sveiar, steinhjartað bærist ekki við fallegar skreytingar eða ilminn af jólatrénu. "Er ekki hægt að slökkva á þessu?" spurði hann, ekki önuglyndur því það er hann sjaldan, þegar við settumst niður að horfa á 24 sama kvöldið og tréð hafði verið sett upp og fagurlega skreytt af mæðgunum, og ég held ég fari ekki með fleipur, það er eina athugasemdin sem tréð fagra hefur fengið frá honum. Ég verð sem sagt að rækta jólabarnið í afkvæmunum því annars verð ég ein á heimilinu gegn þremur púkum og þá verður erfitt að halda helgisvipnum á fésinu, ljósinu í hjartanu logandi og skipuleggja veislur og útbúa góðan mat með skapið í lagi. Nei, það líst mér ekki á.
Ég er því búin að skoða heilan helling af viðbjóði og nokkuð af vel heppnuðu dóti og held ég hafi fundið það sem ég vil gefa þeim. En eftir samtal við tengdamömmu sem vildi fá hugmyndir frá mér líka, enda er hún hálfhrædd við mig og þorir ekki lengur að gefa gjafir sem fara í taugarnar á mér, er ég komin með hjartslátt, hvað er allt er búið?
Hvað ef allt þetta fólk um allan bæ, fólk sem virðist nú bara hafa það ágætt, miðað við pokamagnið og þrátt fyrir hryllingssögur af kreppunni, er búið að kaupa allt dótið? Verður þá kannski ekkert eftir handa okkur? Verð ég eins og persóna í bíómynd sem lifir einhvern hryllingsdag í leit að ákveðnu dóti?
Ég veit að þessa helgi verður dótið rifið úr búðunum. Það er ekki séns að ég fari með börnin með mér í búðir, enda er ég að fara að kaupa fyrir þau svo það er ekki einu sinni hægt. Kannski á morgun. Sunnudagur í búðum finnst mér ein sú mesta viðurstyggð sem núkapítalisminn hefur fundið upp en líklega verð ég að lúffa. Enda verð ég áreiðanlega með smá verk í hárinu svo það verður kannski bara ágæt leið til að eyða annars hvort eð er ónýtum degi. Eða ég tek séns á að eitt dót hafi dottið úr hillu í látunum og rúllað undir og liggi þar í ryki þar til ég skríð um gólfin og finn það á mánudag. Fylgist með.

Lifið í friði.