5.12.06

Er Indriði mikið erlendis?

Jólaballið á sunnudag tókst príma vel. Enn og aftur fékk ég hrós fyrir túnfisksalatið mitt, ég geri nefninlega eitt af bestu túnfisksalötum í heiminum, held ég. Leyndarmálið er cumin (kúmmín minnir mig á íslensku) og nóg af því. Annars bara salt og pipar og sítrónusafi, nóg af honum líka. Ekki of mikinn lauk og alls alls ekki of mikið majónes en nóg af eggjum og túnfiski. Voilà. Stundum, þegar ég fíla mig villta set ég annað útí, t.d. setti ég cayenne-pipar núna, stundum smá sojasósu, ostrusósu, grænt krydd eða tómatsósuslettu. Ég man ekki eftir að hafa sett kók útí, en ég hef slett því út í hinar ýmsu sósur og fengið lof fyrir þær hinar sömu sósur. Sykurinn væna mín, líklega alveg hægt að nota síróp eða hunang í staðinn.
Ég var að enda við að lesa upp vikuskammt eða svo af Nönnu matargúrú og hef greinilega orðið fyrir áhrifum.
En jólaballið var sem sagt afskaplega skemmtilegt, og teknar voru tvær umferðir af dansi kringum jólatréð. Það er fullt af börnum hérna núna þrátt fyrir eilífu spurninguna á Íslandi um það hvort hægt sé að ala upp börn í París. Auðvitað er það hægt, en vitanlega sagði ég alltaf í denn við sjálfa mig að ég ætlaði að búa hérna þangað til ég eignaðist börn, en kannski var ég að meina inni í miðborginni og nú er ég flutt í úthverfi. Reyndar bara í blokk og vantar eitt til tvö herbergi en samt komin út úr aðalskarkalanum. Og almenningsgarðurinn okkar er alvöru stór með alvöru stórum trjám.
En stundum langar mig samt aftur inn til Parísar, í miðja hringiðuna, alveg eins og ég myndi helst ekki vilja búa annars staðar en í 101, 105 eða 107 í Reykjavík. Ég skil ekki alveg fólk sem leggur ekki í að eiga börn við Njálsgötuna, hitti Njálsgötubörn um daginn og sýnist þau hamingjusöm og dafna vel. Enda er það ekki staðsetningin sem skiptir börn meginmáli, þau myndu þrífast jafnvel í moldarkofa í eyðimörk eða í snjóhúsi á ísjökli svo lengi sem uppeldisaðilar væru í lagi.

Annars á ég alltaf eftir að endurskrifa pistilinn sem aldrei komst innn úr tölvunni á hjara veraldar. Hann var umsögn um myndina BÖRN. Ég var alveg eftir mig eftir þessa mynd, hafði hreinlega ekki búið mig undir að hún væri svona svört og erfið en ég sat stjörf í stólnum frá upphafi til enda. Stórkostlega góð mynd (afsakið lýsingarorðin, en þetta er bara hreina satt).
Aðalplúsinn er náttúrulega tökustaðurinn, Breiðholtið mitt, sem hefur verið laglega dissað af cappuccino sötrandi miðbæjarrottum (þjófstolin staðalmynd úr Fréttablaðinu) hingað til. Flott hverfi og myndrænt og bara frábært að sjá blokkirnar, verslunarmiðstöðina í niðurníðslu þar sem Kron blómstraði áður, vellina og mörkin, hólana sem manni fannst svo stórir og bara allt.
Aðalmínusinn er svarthvítan. Næ því ekki hvaða ástæður liggja að baki hennar og skrifa það því á snobb. Það er enginn sparnaður í því í dag og mér fannst þetta ekki nauðsynlegt. En það þýðir þá bara að einhver kvikmyndagerðarmaður/kona getur enn tekið sig til og notað Breiðholtið í almennilegri stórmynd í lit.
Ef þú ert ekki búin að drífa þig á Börn, gerðu það þá fljótlega. Ég sá alls ekki eftir peningunum og er enn að spá og spekúlera í hlutum úr myndinni.

En ég er samt bara smáborgari ennþá, myndin náði ekki að breyta því:
Nú er jólaskrautið komið upp úr geymslunni en áður en ég fer að hengja upp krossauminn úr barnaskólanum og troða litlum fígúrum hingað og þangað ætla ég að vinna smá. Bara smá.
Veit enginn um fólk á leið til Parísar í desember? Borgin er mjög falleg og veðrið er hreint dásamlegt. Mig langar í göngutúr með fólk. Mér leiðist ógurlega að hafa engin verkefni önnur en í tölvunni, það er nefninlega ótrúlega hressandi og gefandi að fara út og hitta ókunnuga og segja frá því sem fyrir augu ber eða því sem er löngu horfið.

Og svona að gamni í lokin get ég sagt ykkur að mín sterkasta minnig úr Kron í Fellunum er þegar mamma sendi mig þangað að kaupa vítissóda. Ég man hvað dollan var óhugnaleg, með hauskúpunni og þetta ógurlega nafn var svo framandi. Gott ef letrið var ekki gotneskt eða í eldingastíl.
Og konan á kassanum grandskoðaði miðann frá mömmu og spurði mig spjörunum úr, líklega var kallað á verslunarstjórann til að taka ákvörðun um að leyfa mér, smávöxnu krílinu, að fara út með þetta stórhættulega efni í poka.
Síðar sagði verkfræðingurinn frændi minn Torfi mér að helvítis vítissódinn hefði eyðilagt allar fínu pípulagnirnar um allt land, að íslenskar húsmæður væru engu líkar í hreingerningaræði sínu. Ég þorði ekki að segja honum að mamma mín hefði notað hann, og hef reyndar aldrei talið móður mína neitt sérlega brjálaða þegar kemur að hreingerningum, held hún sé bara nokkuð mátuleg.
Önnur mjög sterk minning um sendiferð fyrir mömmu var þegar hún átti pantaða Eldhúsmellur í bókabílnum. Ég var alveg miður mín að þurfa að biðja um bókina, enda einn dyggasti viðskiptavinur bókabílsins, hékk þar yfirleitt allan tímann sem hann stoppaði við Hólagarð (sem var líklega ekki til þegar ég var send niður í Kron). Þennan dag gat ég ekkert hangið, svo yfirkomin var ég af skömminni.

Lifið í friði.