12.12.06

prinsessur

Vúúú, eitraður og kaldhæðinn, prinsessupistilinn hjá Ármanni.
Þar sem ég geri ráð fyrir að tilheyra prinsessuhópnum hef ég eftirfarandi að segja:
Undanfarið ár eða svo hef ég átt við flösuvandamál að stríða. Það hefur tekið á sálina (viðkvæm), ég er mikið í svörtu (grennandi) og það er ekki gaman að líta í spegil (sem ég geri vitanlega í hvert skipti sem ég get) og sjá axlirnar alsettar hvítum flögum. Eiginlega alveg óþolandi. Ég hef prófað ýmis sjampó og meðferðir sem færustu sérfræðingar mæla með en þetta hefur verið upp og ofan. Greinilegt samband hefur mér þótt milli álagstíma og flösunnar, ef ég er mjög stressuð klæjar mig meira en þegar allt er í rólegheitum.
Á Íslandi hvarf flasan alveg núna, sem og kláði í hársverði. Ég var að vonum ánægð með það en nú er hún komin aftur með öllum aukaverkununum. Það að ég sé að skrifa jólakortin sjötíu neita ég að sé nógu stressandi til að koma af stað flösunni. Ekki er ég heldur í gjafainnkaupastressi, næstum búin með allt því ég skildi þær eftir á Íslandi og við maðurinn minn ætlum ekki að gefa hvoru öðru gjafir þetta árið. Börnin fá eitthvað smotterí og þá er það upptalið og hef ég litlar áhyggjur af því.
Fjárhagurinn er nokkuð bágur en þar sem ég veit að það lagast eins og alltaf nenni ég varla að stressa mig á því. Mér er alveg sama þó ég fái ekki foie gras þessi jólin og get alveg eins eldað kartöflurétt handa þessu hálfanoreksíska liði sem föðurfjölskydla barnanna er.

Á Íslandi fór ég í sund á hverjum degi, ætti ég kannski að þvo mér upp úr klór? Reyndar var mér sagt um daginn að konur ættu að ganga í ljósum fötum eftir fertugt, það dregur víst úr hrukkunum svo kannski er þetta ekkert vandamál, bara henda fatalagernum eins og hann leggur sig og kaupa nýjan?

Lifið í friði.