19.12.06

pour une fois

Fyrst Eyja spyr skyndilega spurningar sem ég GET svarað, er best að gera það í pistli svo allir lesi það, ekki bara þeir sem nenna að fylgjast með gömlum athugasemdahölum.
Hornin er langsniðugast að baka og frysta og kippa þeim svo út þegar á að borða þá, þ.e.a.s. ef þeir eiga að vera í morgunverð. Allt of mikið vesen að vera að klína eldhúsið út í bakstri og vera dauðuppgefinn að borða þau. Þau eru alveg eins og ný þegar þau fara frosin beint inn í ofn. Koma þaðan út rjúkandi heit og ilmandi.
En þessi horn er að finna í þeirri frábæru matreiðslubók "Áttu von á gestum?", sem er þýdd og staðfærð af Guðrúnu Hrönn Hilmarsdóttur. Ég keypti þessa bók án þess að hika (sem er afar sjaldgæf kaupaðferð hjá mér) á bókamarkaði fyrir nokkrum árum en þessi bók hefur verið notuð árum saman á mínu æskuheimili.
Þau eru úr gerdeigi en í morgun svindlaði ég ógurlega í fyrsta skipti. Ég hljóp út í búð (athugið að nauðsynlegt er að hlaupa út í búð ef nota á sama trix, virkar ekki ef farið er á bílnum) og keypti tilbúið smjördeig og líka tilbúið pædeig sem fást hérna rúlluð út í fulllkomna hringi. Þessa hringi lagði ég sem sagt á eldhúsborðið, skar í átta jafna hluta og síðan skellti ég í skál 150 gr. fínt hakkaðri skinku, 100 gr. rjómaosti og 2 vænum msk. af graslauk (sem ég á alltaf hakkaðan í frysti, hvar væri ég án frystitækninnar?). Þessari blöndu skipti ég svo jafnt á deighlutana, næstum alveg við feitari endann og rúlla þessu svo upp og móta í hálfmána. Inn í ofninn í ca 10 mín á 220 gráðu heitan.
Voilà. Heppnaðist mjög vel. Veit ekki hvort ég á nokkurn tímann eftir að gera þessi horn úr hjemmelavet gerdeigi aftur. En mig langar núna alveg ógurlega mikið að gera kanelsnúðana sem eru að mig minnir í "Nú bökum við" úr sama matreiðslubókaflokki og sú fyrrnefnda. Tívolíísinn sem ég bjó til í morgun er einmitt líka úr einhverri bókanna hennar Guðrúnar. Þær voru alls þrjár, a.m.k. á mínu heimili, en ég get ekki munað hvað sú síðasta heitir.
Ég mæli eindregið með Toscakökunni úr Áttu von á gestum? Alveg skotheld.

Lifið í friði.