14.12.06

Margrét Frímannsdóttir

Ég get óhikað mælt með ævisögunni um Margréti Frímannsdóttur eftir Þórunni Hrefnu Sigurjónsdóttur, Tótu pönk.
Stelpan frá Stokkseyri fræddi mig heilmikið um pólitíska sögu sem ég hafði ekki fylgst nógu vel með úr mínum fjarska.
Kaflinn um krabbameinið er líka vel heppnaður, aldrei of væminn. Ég hafði ekki hugmynd um að Margrét hefði komið fram sköllótt, það taldist greinilega ekki fréttnæmt í minni fjölskyldu. Ég er mjög hissa en um leið alveg yfir mig ánægð með hana fyrir þetta.
Ég þarf endilega að finna út meira um húsið sem þau hjónin leigðu sér í Vosges-héraðinu, það hljómar spennandi kostur fyrir ferðalanga.
Í Lesbók síðasta laugardags (9. des) birtist svo grein eftir Jón Baldvin Hannibalsson um bókina. Hann hefur ekkert sérstakt út á bókina að setja fyrir utan það sem Margrét ásakar hann sjálfan um í einum kaflanna. Ég veit allt of lítið um það mál til að skipa mér í lið.
Hins vegar er það góður punktur hjá Jóni Baldvini að benda á ofbeldisþáttinn, eineltið sem Margrét lendir í fyrir kyn sitt og prófskírteinaskort. Vonandi vaknar almennileg umræða um það. Helst vona ég að gerendurnir biðjist afsökunar.
En Jón Baldvin fer út á tún þegar hann hnýtir í höfund fyrir að rukka Margréti ekki um framtíðina. Ég næ því alls ekki að manneskja sem segist vera á förum og ætli nú að fylgjast spennt með á hliðarlínunni eigi að skilja eftir sig einhvers konar fyrirmæli fyrir eftirmenn sína. Margrét er einfaldlega ekki nógu hrokafull til að ætlast til þess að hún hafi áfram einhver tögl og haldir þó hún sé að hætta. Og það er einmitt það sem gerir hana að stórmenni.
Ætli megi ekki segja að Jón Baldvin opinberi eigin hroka með þessari athugasemd?

Lifið í friði.