zzzzzz
Aðfangadagskvöld var yndislegt, það er gaman að endurupplifa gamla alvöru kitlið og gleðina í gegnum börnin. Þau stóðu sig eins og hetjur, Sólrún endurtók "on est gâté" sem þýðir "við erum fordekruð" aftur og aftur sem er mun skárra að horfa upp á en græðgissvipur um leið og pakkarnir eru rifnir upp með látum og gjöfinni svo kastað út í horn.Tengdaforeldrarnir voru hérna ásamt yngri bróður mannsins míns. Hann sagði kærustunni sinni upp á föstudaginn var en var hress og kátur, sem betur fer. Amman át eins og hestur, hef aldrei séð það áður, en afinn fór varlegar í sakirnar, enda er hann ofurhræddur við spik og kólesteról.
Ég fékk fullt af fallegum gjöfum og eins og alltaf fékk ég sting í magann yfir öllu þessu fólki sem þykir vænt um mig og sem mér þykir vænt um og ég skil ekki hvers vegna sumir eiga ekki neitt og ekki neinn og hvers vegna öll þessi fátækt og stríð og... en svo vefur maður um sig nýja ullarsjalinu, setur á sig fínu hanskana og þykist vera búrgeisagella úr 7. hverfi með fínu töskuna úr fínu búðinni á Laugaveginum og alls ekki búa í úthverfi með hinu innflytjendapakkinu og hvað getur maður svo sem gert við fátækt heimsins? Ekki er ég að reka fyrirtæki sem níðist á minni máttar.
Á jóladagsmorgun furðaði ég mig á jólatré sem var komið út á gangstétt, veit ekki hverjum lá svona agalega á að losna við jólin úr stofunni en svo settist ég einbeitt niður og setti saman bílaverkstæði/bílastæði sem Kári fékk frá ömmu sinni. Það er úr tré, enda er amman ekta búrgeisapía úr 7. hverfi og kaupir bara tréleikföng og til að setja herlegheitin saman þurfti að skrúfa 19 skrúfur og ekki mjög stuttar. Ég var afskaplega þakklát fyrir skrúfvélina og fína hólfakassann sem geymir skrúfur í öllum stærðum því skrúfurnar sem fylgdu með leikfanginu voru nú ekki til stórræðanna. Mér varð hugsað til allra vesalings pabbanna í sjálfu 7. hverfi sem geta skrifað greinargerðir og rökstutt mál sitt í þrisvar sinnum þremur liðum án þess að blikna, en vita alls ekki muninn á stjörnuskrúfjárni eða hamri. Það er ansi hætt við að ef mikið seldist af þessu tiltekna verkstæði að nokkrir heimilisfeður hafi rokið út á næsta bar í gær.
Blessaður reiðskólinn sem Sólrún fékk frá þessari sömu ömmu verður að bíða þar til ég er búin að jafna mig andlega og líkamlega, enda nóg af öðru dóti að leika með, og ekki hægt að segja að börnin þjáist.
Svo fórum við í kaffi til tengdó um eftirmiðdaginn, þar var lax og skinka og kökur og rígur milli hjónanna um það hvort hefði þurft bæði salt og sætt og allt eins og vanalega. Fjölskyldulífið er nú alveg indælt, er það ekki?
Lifið í friði.
<< Home