19.12.06

piparkökur og úlfakreppa

Piparkökur Framtíðarlandsins seljast grimmt, en þú hefur samt ennþá tíma til að sýna stuðning í verki og splæsa í nokkur stykki.
Kökum hefur verið dreift í nokkrar búðir í miðbænum (þ.á m. Kisuna, 3hæðir, Yggdrasil og Hljómalind) en þær fást sem fyrr á skrifstofu Framtíðarlandsins, Óðinsgötu 7, og í bakaríinu Brauðhúsið í Grímsbæ þar sem þær voru einmitt bakaðar. Opið er í Brauðhúsinu 10-18 virka daga og á skrifstofu Framtíðarlandsins 9-16 virka daga. Hver kaka kostar 500 krónur.

Annars er ég í mikilli úlfakreppu einmitt núna. Sko, klukkan er 09:03, börnin og kallinn farin út og búið að opna matvörubúðina og ég gæti skotist þangað og keypt hráefni í ís og skinkuhorn og bakað og hrært þar til ég þarf að hlaupa út um hádegisbilið, en ég á stefnumót við góða og sjaldséða vinkonu í hádeginu. Fallafel-grænmetisbuffpíta á Rue des Rosiers í Mýrinni (4. hverfi) er langbesti skyndibitinn í París. Og þar í hverfinu ætla ég einmitt líka að kaupa afmælisgjöf mannsins míns. Hann á að fá litla gjöf og skinkuhorn í morgunmat á Þorláksmessu, en móðir hans var svo ósmekkleg að fæða hann á þeim degi. Við myndum sko fara í skötuveislu ef við værum á Íslandi, maðurinn minn fékk margar stjörnur í kladdann hjá pabba mínum fyrir að biðja um meira þegar hann gaf honum skötu í fyrsta skipti, en við látum okkur annað góðgæti duga í þetta sinn.
EN það er bara svo mikið um að vera hjá Eyju, getraunin er nú þríréttuð og skemmtilegar vísbendingar sem vekja vissulega hugrenningatengsl.
Hvað á ég að gera? Sleppa bakstri og stússi og hafa aðkeypt efni í veislunum? Sleppa getrauninni og dekra við manninn minn sem fær svo ódýrar gjafir að mig langaði að bæta það upp með heimabökuðu hornunum sem honum finnst svo góð?

Fylgist með.

Lifið í friði.