6.12.06

getraunirnar

Jæja, þá er aðventan byrjuð með leik og gríni og Málbein og Eyja komin af stað með getraunir. Þær eru svínslegar eins og getraunir eiga að vera fyrir fólk sem hefur aðgang að Google.
Ég held reyndar að Þórdís hafi þó aðgang að betri tólum en Google, ég er farin að hallast á það að hún sé njósnari á vegum CIA og geti rennt myndunum í gegnum svona recognition-forrit. En þetta er nú bara prívat og persónuleg skoðun mín og kemur því alls ekki við að ég sé á nokkurn hátt tapsár. Ó nei.
Ég vann eina svínslega getraun fyrir nokkru síðan og gæði mér á verðlaununum á kvöldin, en ég held að ég geti mælt með bókinni um Margréti Frímanns í pakka handa öllum afturhaldskommatittum sem þið gætuð þekkt og elskað nógu mikið til að splæsa bók á.
Viktor rithöfundur nennir greinilega ekki að vera með sína snarskemmtilegu getraun aftur í ár, og ég skil það svo sem óskaplega vel. Ég komst að því að hann bloggar á síðunni sinni og þarf að tengja hann inn fljótlega. Og fyrst ég er komin út í höfundana get ég líka upplýst ykkur um að Ævar Örn var ekki á Ölstofunni um miðjan nóvember. Það er því eins gott að ég fór ekki að heilsa þessum manni sem var þar staddur í hans gervi, hver veit nema þarna sé raðmorðingi á ferð? Kannski skiptir hann um höfunda, fer í nýtt gervi um hverja helgi og dregur artífartí stúlkur á tálar, svona rithöfundagrúppíur, er það ekki til annars? Svo myrðir hann þær hægt og rólega alla vikuna og byrjar aftur næstu helgi með nýjan höfund og nýtt fórnarlamb. Af hverju skrifa ég ekki sögu? Af því ég nenni því ekki. Sá sem nennir að prjóna út frá þessu má það, en þarf að þakka mér þegar hann tekur við óskarnum/nóbelnum/eddunni/glerlyklinum.
Ég klikkaði gersamlega á því að sækja mér bók til Ævars og bið hann hér form- og opinberlega afsökunar og tel mig eiga kaffibolla og bók inni síðar meir.

Lifið í friði.