7.12.06

jólabónus og jólatré

Af því að ég er svo góð á aðventunni ætla ég að plögga meira. Reyndar er síðan mín lítið lesin miðað við dívur eins og Þórdísi og Tótu pönk sem segir að um daginn hafi verið 800 flettingar á einum degi. Það hlýtur að jafnast á við lestur á dagblaði. Reyndar hafði hún notað orðið frekjutussa stuttu áður og miðað við reynslu Eyju og fleiri eru dónaleg orð vinsæl á gúgglinu. En ég á nú samt einhverja lesendur sem lesa engin önnur blogg svo ég skelli þessu hér inn:
Í kvöld er Hugleikur með jólaskemmtun. Miðað við hvað síðasta skemmtikvöld var skemmtilegt þori ég óhikað að mæla með þessu og mæli einnig með að fólk mæti tímanlega því ég er handviss um að það verði troðfullt hús.
Svona hljómar auglýsingin hjá Gvendarbrunni með smá breytingu af því fyrra kvöldið er liðið í aldanna skaut og aldrei það kemur til baka:
Jólabónus, jólaskemmtun Hugleiks, verður í Þjóðleikhúskjallaranum, fimmtudagskvöld kl. 21.00. Umfjöllunarefni sýningarinnar eru m.a.: Kaupæði nútímajóla, hættur og aðgát við laufabrauðsskurð, jólasveinar sem kynverur og mannát á jólum. Auk þess verður flutt létt tónlist og jólaföndur verður í hávegum haft. Be there or be ferkantaður.

Svo minni ég á að jólatré flugbjörgunarsveitarinnar eru langlanggrænust og sölustúlkan þeirra er með fegurri jólatréssölustúlkum sem um getur. Flugbjörgunarsveitin er svona klúbbur fólks sem hefur gaman að því að láta sér verða mjög kalt og prílar kletta og klífur skriður sér til gamans um hverja helgi. Þetta lið er svo hægt að nýta, ég leyfi mér að segja þjóðnýta, þegar plebbar úr Grafarvoginum fara að rífast á tjaldstæðinu í Skaftafelli, kallinn rýkur í burtu á lakkskónum og kellingin fær móral eftir nokkra klukkutíma og þarf aðstoð við að leita að honum hríðskjálfandi og köldum. Þetta er náttúrulega lélegt dæmi í hugum margra því ég veit að sumum þykir landhreinsun í fækkun grafarvogsbúa á lakkskóm en hugsið um börnin sem hefðu misst föður sinn og munið að þó Íslendingar almennt viti ekki hvað sjálfboðaliðsstarf er, vita flubbarnir það sko sannarlega.
Jólatréssalan er þarna á víða og illa nýtta svæðinu vestur af Öskjuhlíðinni, eða var þar a.m.k. í fyrra, einhver bílaleiga og gott ef keilusalurinn er ekki þarna ennþá. Ég hef ekki hugmynd um það hvort hún er byrjuð en það er alla vega fljótlega og ekki kaupa gervijólatré og ekki kaupa tré án þess að styrkja gott málefni (og þetta leyfi ég mér að segja þó ég viti að sumum þyki það mjög gott að þeir ríku verði sífellt ríkari).

p.s. strákar, ef þið viljið vita meira um sölustúlkuna forrkunnarfögru veit ég ýmislegt, tölvupósturinn minn er gefinn upp á þessari síðu sem og á parisardaman.com.

Lifið í friði.