13.12.06

vírus í excel

Ég held að excel forritið í heilanum á mér sé með vírus. Mér líður mjög undarlega og næ ekki að gera neitt skipulega. Ekkert. Ég er ekki að tala um að fara fram í eldhús og gleyma hvað mig langaði í standandi gapandi við ísskápinn. Ég er ekki að meina þetta venjulega alzheimer light ástand okkar allra. Nei. Bara allt er í móðu, ég er þreytt og rugluð.

Það var brotist inn hjá vinafólki okkar í húsinu á móti í gær. Hún skrapp að ná í börnin í skólann og var í um 40 mínútur í burtu. Þau tóku tölvuna með öllum gögnum síðastliðins mánaðar, m.a. glósum fyrir risapróf sem hún er að fara í núna 15. janúar og auðvitað öllum myndum o.s.frv. Og allt í rúst náttúrulega. Ömurlegt. 2. skiptið á nokkrum mánuðum og alltaf á þessum sama tíma dagsins. Djöfulsins helvítis þjófapakk sem rænir af fólki sem er ekkert sérstaklega ríkt og vinnur hörðum höndum við að kenna litlum börnum og fær skítalaun fyrir. Djöfulsins skítaríkisstjórn sem ræður ekki neitt við neitt og rekur óhæfa skóla sem mega ekki lengur láta sitja eftir heldur gefa tveggja daga frí sem refsingu og helvítis foreldrar sem hafa gefist upp á uppeldi, alltaf of þreytt, æ, hann má núna. Oh, hann er svo óþekkur. Eh, ég bara meika þetta ekki. Djöfull er ég orðin leið á þessum plebbum út um allt og alls staðar.

Nú er spurning hvort maður eigi bara að láta slag standa og stofna kommúnu í Pyrenées-fjöllunum eins og rætt var lengi um í síma á dögunum. Þar eru kindur og birnir sem éta þær. Þar er gras og þar er snjór. Þar er Lourdes. Þar er stutt í ódýrt bús í Andorra. Þar verð ég kannski bráðum. Ertu með?

Lifið í friði.