31.12.06

gleðilegtár

gleðilegt ár
gleðileg tár
gleði leg tár
gleði legtár

Ég læt mér ekki detta í hug að gera upp þetta ár sem er að fara og kemur aldrei aftur, vonandi, en ef einhver nennir að lesa upp bloggárið mitt og gera huggulegan úrdrátt er þeim hinum sama það velkomið. Ef margir bregðast við þessari arfalélegu hugmynd getum við haft þetta ritgerðarsamkeppni.
En í huga mínum núna eru stærstu atburðirnir nýja óléttan í fjölskyldunni og hengingin ógurlega enda er ég með gullfiskaminni eins og aðrir landar mínir og meðbræður á jörðunni ef út í það er farið.

Við erum öll hálfslöpp fjölskyldan en ætlum nú samt að drífa okkur í matarboðið í kvöld. Verst þykir mér að karlinn skuli ekki hafa bílpróf (fyrst skrifaði ég bólpróf, Freud? Ertu að horfa?) því kampavín er svo gott og ég er viss um að í boðinu verður nóg af því.
Ég geymi kannski eina flösku í kælinum hér heima og get þá dreypt á henni ef norski sjóarinn í mér verður viðþolslaus í nótt.

Ég geri fastlega ráð fyrir því að sjá ekki flugeldasýninguna, ekkert útsýni þar sem við verðum og þess vegna líkur á því að við gleymum miðnætti eins og gerðist síðast þegar ég hélt upp á áramótin í París. Þá sátum við yfir eftirréttinum, sein að borða því við höfðum farið í Hammam um eftirmiðdaginn og vorum í hálfgerðri leiðslu að búa til matinn, og einhver hrópaði upp yfir sig að áramótin væru löngu liðin, en þau voru þá einmitt að ganga í garð á Íslandi svo við féllumst öll grátandi í faðma og allt fór vel að lokum. Gvuð var klár gella að finna upp á tímamismuninum.

Jú, nú dettur mér einn stórviðburður í hug, er ÁJ hættur að blogga?

Lifið í friði.