11.12.06

boðið skrautið

Jæja, þá hefur boðið verið haldið. Þó að nokkra vantaði vegna veikinda eða þreytu eftir ferðalag var íbúðin vel full af fólki en börnin voru bara fimm. Þegar síðustu gestirnir fóru rúmlega sjö í gær leið okkur hjónum eins og undnum tuskum. Þá þurfti að setja börnin í bað og þvo þau með sérstöku lúsasjampói því tvö af börnunum sem komu hafa verið að berjast við lýsnar í allan vetur og voru með lús aftur í vikunni.
Þegar við ákváðum að láta foreldrana vita að þau væru eiginlega ekki velkomin varð uppi fótur og fit, það hrikti í styrkum stoðunum sem Pauline heitin hafði byggt, fólk var kallað dónar, eiginhagsmunaseggir o.fl. og á endanum varð það ofan á að leyfa þeim að koma, nokkrar lýs ættu ekki að duga til að eyðileggja ágætis samkomulag sem hefur ríkt hingað til hjá þessari fjölskyldu.
Kannski geri ég einhvern tímann portrett af þeim fyrir ykkur, það er óneitanlega kostur að eiga sitt álfamál og geta talað óheft um nána hér á blogginu án þess að þau geti skilið það.

Líður að jólum. Stóru vöruhúsin í París leggja alltaf mikið upp úr skreytingum, fengnir eru frægir hönnuðir og kapp lagt upp úr að láta glitra sem mest, konurnar eiga að dáleiðast og kaupa þannig meira. Hugmyndafræði gömul eins og vöruhúsin sjálf.
Í dag leyfi ég Sólrúnu að skrópa í skólanum og ætlum við, ásamt Lucie vinkonu og mömmu hennar að skreppa í stelpuferð í bæinn að skoða dýrðina. Ekki verða peningar í buddunni og kortin skilin eftir heima svo við getum bara dáleiðst eins og við viljum án þess að stefna fjárlögum fjölskyldunnar í hættu. Ég ætla hins vegar að vera með myndavélina á lofti og næsta ár verður París áreiðanlega markaðssett sem góð aðventuborg á parisardaman.com. Þið sem ekki viljið dáleiðast og koma í transi til Parísar fyrir jólin, getið þá skoðað síðuna með sólgleraugum, ég skal vara ykkur við.

Ég vona innilega að þið öll eigið sem bestan dag í dag, að veðrið leiki við ykkur, jólin hræði ykkur ekki, borðið nóg af konfekti og smákökum og verið róleg. Farið í sund og liggið í heita pottinum.

Lifið í friði.