31.5.06

paris


paris
Originally uploaded by parisardaman.

er í þessa átt. Myndin er af póstkorti frá Le Baobab, ljósmyndari er P. Maisoncelles.

30.5.06

spegill spegill

Einhvern tímann fyrr í vor keypti ég mér loksins SPEGILINN. Í Frakklandi er mjög algengt að hafa stóran spegil í veglegum ramma inni í stofu eða borðstofu. Mig hefur alltaf dreymt um að eignast góðan veglegan spegil en hef aldrei rekist á þennan eina sanna fyrr en sem sagt á flóamarkaði í 19. hverfi í vor. Ég hef oft séð flotta spegla, litið á verðið og þá hefur það verið afgreitt. Þarna gat ég ekki litið á verðið heldur þurfti að spyrja karlinn sem átti básinn. Hann gaf mér upp verð og ég vissi áður en hann sagði það að ég yrði að eignast þennan spegil. Hann bara stóð þarna á jörðinni, hallaði sér makindalega upp að gömlum skáp og ég var máttlaus í hnjánum fyrir framan hann.
Samt gekk ég í burtu og við héldum áfram út allan markaðinn. Ég gat ekki á heilli mér tekið og var allan tímann sannfærð um að núna, einmitt núna, væri einhver annar að kaupa spegilinn MINN.
Þegar ég kom til baka stóð hann þarna og beið mín. Ég prúttaði hann niður í 70 evrur og maðurinn minn þurfti að fara með hann heim í metró aleinn þar sem enginn lifandi leið var að koma honum inn í bílinn ásamt okkur og börnunum.
Spegillinn er ekki með gylltum ramma, heldur mjög fallegum og frekar stílhreinum viðarramma. Hann er margmálaður og var málningin byrjuð að flagna af á ýmsum stöðum. Ég var búin að lofa mér að hengja hann upp í þessu ásigkomulagi og huga síðar að því hvort ég vildi skafa af honum einhver lög og mála hann.
Spegillinn er ekki enn kominn upp á vegg því við hjónin getum ekki hengt hann upp bara við tvö, það væri of mikil áhætta. Ef spegillinn brotnar og ég get á nokkurn hátt kennt manninum mínum um það, verð ég áreiðanlega að skilja við hann. Það vil ég síður. Þess vegna á spegillinn ekki að brotna.
En í gær dróst ég skyndilega að speglinum, algerlega óforvarendis ennþá á náttfötunum og byrjaði að skafa efsta lag málningarinnar sem er einhvers konar gulbleikbeisælulitur. Og nú er ég búin að skafa og skafa og mest af þessum ókennilega lit farinn en ég er alveg búin á því, hef varla kraft til að vélrita. Af hverju get ég ekki einu sinni farið eftir eigin ráðum? Af hverju þarf ég alltaf að fara að gera eitthvað fáránlegt þegar ég ætti í raun að vera að gera eitthvað allt annað sem liggur meira á? Pourquoi?
En spegillinn er helvíti flottur og ég hafði það af að mála innan í skúffur og skáp á skrifborði sem ég hef trassað í lengri tíma. Bara því ég þurfti að hvíla mig stundum á sköfuninni. Jamm. Aftur finnst mér ég bara vera að væla út í loftið. Hef ég einhvern tímann verið að skrifa eitthvað af viti á þetta blogg?

Lifið í friði.

skömm

Ég skammast mín fyrir það hvernig komið er fyrir okkur, fyrir þessu þjóðfélagi "siðmenntaðra velferðarríkja". Ég skammast mín fyrir einstaklingshyggjuna, gróðahyggjuna og frumskógarlögmálið.
Auðvitað er til fólk sem hugsar og sér að það er eitthvað að og að einhverju þarf að breyta. Vandamálið er kannski að það er svo margt sem má betur fara að það er alltaf hægt að nota rökin að eitthvað annað þurfi að laga FYRST þegar reynt er að berjast fyrir einhverju ákveðnu. Þannig geta t.d. iðnvæðingarsinnar Íslands bent á slæmt ástand í heilbrigðismálum og öldrunarmálum og sagt við umhverfisverndarsinna að einhvern veginn verði að búa til peninga og atvinnu og allt þetta sem þessar blessaðar reykspúandi verksmiðjur eiga að framleiða handa okkur.
Ég finn fyrir miklum aulahrolli þegar ég lendi inn á síðum eins og þessari í gær sem er einhvers konar spjallvefur rekinn af símanum þar sem rætt var um mótmæli og mótmælendur á hvílíkum nótum að mér er nærri lagi að segja að við séum komin til baka til miðalda, en það get ég ekki sagt þar sem ég er að berjast í gegnum bók sem biður fólk um að hætta að tala illa um miðaldir. Verð víst að finna eitthvað annað "grýlulegt" til að nota. Sovét? Já, það gæti virkað. Mætti halda að við værum komin aftur til baka til Sovét. Nei, virkar eiginlega ekki. Eða hvað? En þið skiljið mig, er það ekki?
Ég veit ekki hvernig ég rakst inn á þennan spjallvef, en ég hef aldrei getað lesið neitt af þessum vefjum, umræðan er á plani sem fyllir mig örvæntingu og vantrú á manninum og ég hrökklast alltaf skjálfandi út eftir örfáar mínútur. Ég veit ekki, en í gær fékk ég á tilfinninguna að þessi vefur væri FALSAÐUR, að þetta væri ekki alvöru fólk að skrifa, heldur áróðursmaskínur, fólk á launum við að rugla og þrugla umræður svo þær gætu aldrei leitt til neins. Ha? Paranoja? Ég er nýbúin að lesa Love Star og finnst ég sjá merki um að hún sé að rætast alls staðar. Til dæmis gerðist undarlegur hlutur í Giverny um helgina. Hópurinn var á veitingahúsi og skyndilega byrjar þjónninn að söngla auglýsingu fyrir eitt af 118 númerunum! Hýsill eða hvað? Og það er reyndar löngu búið að upplýsa hér í Frakklandi að unglingar geta fengið fríðindi fyrir að mæla með ákveðnum vörum. Og það er deginum ljósara að fjölmiðlum er ekki hægt að treysta. Fjölmiðlar, fréttamiðlar, gefa okkur þá sýn á þjóðfélagið sem hentar þeim sem eiga þá.
Gott dæmi var sýnt svart á hvítu í "Arrét sur images" á dögunum: Da Vinci lykillinn frumsýndur í Cannes. Allar stöðvarnar sáu sig tilneyddar til að fjalla um það.
Fyrst var smá upprifjun á því að kirkjan og sérstaklega Opus Dei eru vondu kallarnir og morðingjar í bókinni og nú í myndinni. Svo fer myndavél og veiðir fólk á leiðinni út af myndinni og tekur óundirbúin viðtöl við fólk "af handahófi". Mjög vísindaleg leið til að taka púlsinn á áhrifunum.
Fréttaskotin á TF1, France 2 og France 3 sýna að öllum finnst þetta léleg mynd, það var hlegið á alvarlegu stöðunum og myndin er bara slöpp og mislukkuð að öllu leyti. Á M6 kveður við annan tón. Það mætti halda að sá fréttamaður hafi ekki verið fyrir utan sömu mynd. Fín mynd, vel heppnuð, spennandi, góður leikur... Þarf ég að taka það fram að M6 framleiðir þessa mynd?
Sökin er ekki eingöngu þeirra, ALLAR stöðvarnar FALSA útkomuna, sleppa þeim sem segja það sem ekki hentar stefnu stöðvarinnar. Þetta er brot, lítið dæmi, sem snertir bara einhverjar milljónir í gróða fyrir einhverja kalla úti í heimi. Kemur okkur varla við. En við skulum samt staldra við og spyrja okkur hvernig hægt er að treysta fólki sem stundar svona vinnubrögð. Þetta eru stöðvarnar sem matreiða fréttir ofan í okkur alla daga. Og látum okkur ekki dreyma um að á Íslandi sé þessu öðruvísi farið. Síður en svo.
Fréttaskortur af mótmælunum á laugardag er greinileg sönnun þess. Við verðum að passa okkur á því að berjast gegn þessu. Það þýðir ekki að yppa öxlum og segja að svona sé þetta bara. Ríkissjónvarpið hlýtur að hafa ákveðnum skyldum að gegna gagnvart ÞEGNUM landsins. A.m.k. eigum við að krefjast þess að svo sé. Ef 3000 manns safnast saman í miðborginni er það stórfrétt. Það hlýtur hreinlega að vera BANNAÐ að þegja slíkt í hel.
Þess vegna þakka ég Guðnýju fyrir að hafa hringt og kvartað yfir fréttaleysinu og bið ykkur öll um að gera slíkt hið sama. Hringið, skrifið tölvupósta, biðjið um fréttir af því sem er að gerast í ALVÖRUNNI, ekki matreiddar fréttir af því sem hentar stjórnvöldum að okkur sé sagt. Annars getum við náttúrulega bara neitað að greiða afnotagjöldin, er það ekki?
Hér í Frakklandi er a.m.k. vel fylgst með ríkisstöðvunum og sterkari krafa gerð á hlutleysi þeirra og umfjöllun um málefni. Auðvitað er margt sem betur má fara, eins og umfjöllunin um bíómyndina sýnir auðveldlega, en það er a.m.k. stöðug og lifandi umræða í gangi um hlutverk ríkissjónvarps og skyldur þess gagnvart þjóðfélaginu.

Ég veit ekki, kannski er ekki hægt að halda uppi vitrænum umræðum um eitt eða neitt. Kannski er það rétt sem ég fékk á tilfinninguna í gær að ef slíkt byrjar að fæðast koma áróðursvélar og kæfa þær í fæðingu. Kannski verð ég bara að sitja hérna og skammast mín fyrir að vera manneskja. En kannski ekki.

Lifið í friði.

29.5.06

mio dio

Ég var að ljúka við Angels and Demons. Held að héðan í frá muni ég láta Dan Brown í friði. Á reyndar eftir að sjá Da Vinci lykilinn í bíó en svo verður okkar sambandi slitið.
Ég hef mjög gaman af góðum reyfurum, góðri spennu og skemmtilegum samsæriskenningum, en einhvern veginn náði ég aldrei að skemmta mér yfir þessari bók. Skemmti mér ágætlega yfir Da Vinci, en hún var mun fljótlesnari og auðvitað skiptir máli að París er í henni.
Róm á ég alveg eftir að uppgötva, því miður, eins og reyndar megnið af Ítalíu. Sikiley er mögnuð eyja og mig langar mikið aftur þangað, en mig langar líka í rómó menningarferð til Rómar, dansa í gosbrunninum, er það sá sami í bókinni og í La Dolce Vita Fellinis? Og ég veit að ég verð einn góðan veðurdag að sjá garðinn hennar Niki de Saint-Phalle sem mun vera í nágrenni Florence. Og svo langar mig í fjallaþorpin og svo verð ég líklega að endurnýja kynni mín við Feneyjar, en þau voru erfið síðast, í sömu Inter-Rail ferð og minnst var á hér í síðasta pistli. Fíluðum okkur engan veginn í túristafarganinu um miðjan ágúst og flýðum landið yfir til Frakklandsins okkar aftur eftir einn dag þar og enga nótt.
Jamm. Mér leiðist.
Er einhver þarna?
Lifið í friði.

28.5.06

ditten og datten

Nú verður spennandi að sjá hvort sjálfstæðismenn muni standa sig betur í að þrífa göturnar í Reykjavík. Gangi þeim vel.

Ég er úrvinda eftir síðustu daga. Skemmtilegir en ferlega erfiðir, hljóp milli hópa, stórra og smárra. Skemmtilegt fólk og alls konar uppgötvanir en í dag líður mér eins og ég hafi verið á fjögurra daga fylleríi. Ekki það að ég hafi mikla reynslu af því að þurfa jafna mig á fjögurra daga fylleríi en það er svona sem ég ímynda mér að mér myndi líða. Tóm, stíf og ofurþreytt.

Hlaupabólan er nú ekki skemmtilegur sjúkdómur að eiga við. Sólrún var heppin, vægt hjá henni, slatti af bólum sem hún virðist ekki finna fyrir, hefur ekkert verið að klóra sér, enginn hiti og er bara sama hressa og fallega barnið (fegurðin kemur sko innan frá).
Kári er hins vegar svo óhugnalegur að móðirin kúgast ef hann hlær framan í hana. Á mjög erfitt með að horfa á hann svipbrigðalaus, hann er undirlagður í viðbjóðslegum kýlum, bólurnar virðast koma í knippum og mynda risastórar blöðrur út um allan líkama. Hann er með blöðru á gómnum sem lafir niður á tennurnar. Hann er búinn að vera með 39 stiga hita í þrjá daga og er mjög aumur og vælinn. Við fórum nú samt með þau út í garð í morgun, ásamt annarri hlaupabólusýktri fjölskyldu og vorum eins og holdsveikisjúklingar, fólk tók sveig framhjá okkur og bannaði börnum sínum að gefa sig að okkur. En krökkunum líður langbest útivið, eru að klepera á inniveru og þar sem hitinn er yfir 20 stig er nú bara sjálfsagt mál að viðra þau. Og sama er mér þótt þau smiti önnur börn, þurfa hvort sem er að fá þetta einn góðan, er það ekki?

Ég er ferlega svekkt yfir því að þurfa að hafa þau heima á morgun, þarf svo innilega á almennilegri hvíld að halda og svo þarf ég að undirbúa næstu helgi en þá kemur mamma ásamt sjö systrum sínum og dætrum þeirra í heimsókn.
Fyrst verður kokkteill og hressing hér og svo fer ég með þeim á hótel og verð með þeim þar alla næstu helgi. Gisti í fyrsta sinn á hóteli í París síðan á Inter-rail ferðinni 18 ára gömul þar sem ég gisti á svo huggulegu hóteli að það voru blóðblettir í lökunum og sturtan var beint yfir vaskinum þannig að maður þurfti að beygja sig yfir hann til að fá bununa á höfuðið.
Við komum hingað græn og ung og bjartsýn og skunduðum á farfuglaheimilið þar sem okkur var sagt að það hefði átt að panta með nokkurra mánaða fyrirvara. Maðurinn í afgreiðslunni var svartur og fór allt í einu að snakka við okkur á sænsku. Hann benti okkur á þetta hótel en bannaði okkur að segja hver hefði bent á það. Þegar við mættum spurði konan í móttökunni einmitt stíf og ströng að því hvernig við hefðum fundið þau. Við glenntum upp bláar glyrnurnar og lugum sakleysislega að við hefðum bara séð það af götunni, dauðhrædd um að okkur yrði vísað á dyr. Hef aldrei fundið þetta hótel aftur. Leitt að geta ekki mælt með því á netsíðunni minni.
Það var gaman að pönkurunum í herberginu á móti sem bjuggu þarna og þvoðu gallabuxurnar sínar í höndunum og þurrkuðu út um gluggann ásamt naríum og sokkum. Hver segir að pönkarar séu subbur? Mér finnst pönkarar, svona alvöru pönkarar sem dressa sig upp og eru með hanakamba eða aðrar ögrandi hárgreiðslur alltaf mjög spennandi fólk. Sá einmitt hóp af extra flottum pönkurum um daginn og fór að hugsa um það hvernig standi á því að ég þori aldrei að klæða mig mjög djarft.

Hvernig gengu mótmælin annars í gær? Hef ekki séð neitt um það á fjölmiðlavefjum, né á bloggum.

Farin að pússa spegil.

Lifið í friði.

26.5.06

bréfið frá Andra

Þetta er bréf sem Andri Snær Magnason skrifaði á Náttúrvaktina. Set það hér inn í dag fyrir þau sem ekki hafa fengið þetta sent í tölvupósti.

Mikilvægustu kosningar aldarinnar?


Næstu tvennar kosningar eru einhverjar þær örlagaríkustu sem fram munu
fara á Íslandi næstu áratugi vegna þess að þær snerta
grundvallarákvarðanir sem munu marka líf okkar, umhverfi og stjórnmál
næstu áratugi. Einmitt um þessar mundir er verið að taka þá ákvörðun
hvort Ísland verði stærsta álbræðsla í heimi eða ekki.



Yfimenn Alcan hafa gefið til kynna að verksmiðjunni verði lokað nema hún
fái að vaxa upp í næstum því 500.000 tonn, það er kallað stækkun en
þreföldun er nærri lagi. Þegar álverið í Straumsvík hefur þrefaldast
verður það næstum því jafn breitt og það er langt og það mun fylla upp í
svæðið beggja vegna Reykjanesbrautar. Það á að verða heill ferkílómeter
að stærð og það tæki rúma klukkustund að ganga í kringum það. Í blöðum
stendur að hlutfallsleg mengun muni minnka. Ef dulmálið er afkóðað kemur
í ljós að gróðurhúsalofttegundir aukast sem nemur öllum bílaflota
Íslendinga. Heimiluð aukning á brennisteinsdíoxíði úr 3500 upp í 6900 tonn
á ári. Sjónmengun er ekki hægt að mæla í prósentum en á kyrrum dögum
ætti þessi mengun að verða öllum ljós.



Fjölmiðlar hafa ítrekað brugðist skyldu sinni. Álpartíið fræga á Húsavík
var til dæmis skipulagt af Gísla Sigurgeirssyni fréttamanni RÚV. Hann
smalaði fólki saman og fréttin sem virtist koma í ,,beinni útsendingu"
hafði löngu borist um bæinn. Þetta var leikrit og Gísli samdi jafnvel
slagorðin, ,,álið er málið" sem fólkið galaði eftir hans leiðsögn.
Jafnvel hörðustu áhugamenn um álver fengu aumingjahroll við að horfa upp
á þetta en þennan dag dó lýðræðið á Húsavík. Þaðan í frá töluðu
fjölmiðlar um ,,vilja Húsvíkinga". Þetta ástand var skapað af opinberum
fjölmiðli áður en nokkuð hafði verið rannsakað eða rætt, áður en arðsemi
var ljós, áður en reynsla var komin af framkvæmdum, ráðningum eða mengun á
Austurlandi, hvað þá hvort Kárahnjúkavirkjun nái yfirleitt núlli. Menn
fjalla ekki um aðalatriði málsins, að álverið á Húsavík er aðeins hálft
álver. Það mun þurfa að tvöfaldast í framtíðinni en enginn vill ræða
hvaðan sú orka á að koma. Jökulsár Skagafjarðar og Skjálfandi hafa þegar
verið eyrnarmerktar verksmiðjunni en það dugar ekki nema upp í 360.000
tonn. Þrátt fyrir öll vafaatriði er látið eins og ákvörðun á Húsavík sé
formsatriði og búin er til tímapressa og neyð. Alcoa stendur fyrir
fundum sem höfða til skammtíma gróðavonar einstakra hagsmunaðila. Þessi
skák hefur verið leikin margsinnis um allan heim: Láttu heimamenn ná niður
orkuverðinu.



Þrátt fyrir að íslenska ríkið hafi fært Alcoa milljarða í beinhörðum
peningum, skattaafsláttum, niðurgreiddu rafmagni og náttúruverðmætum þá
fær Alcoa að eigna sér þjóðgarðinn sem á að ná frá Skaftafelli niður
Jökulsárgljúfur fyrir litlar 20 milljónir. Hér eftir verður allt
myndefni af þessu svæði til reiðu í kynningarefni Alcoa og fyrirtækið
getur sagt heiminum að öll þessi fegurð sé Alcoa að þakka. Þetta er eins
og Bílaverkstæði Bödda fengi að nota Björk ókeypis í öllu kynningarefni
þrátt fyrir að eigandinn hafi nýlega bakkað yfir hana. Fyrirtæki sem
stendur í mestu eyðileggingu á náttúrugersemum á Íslandi verður tákn
fyrir verndun. Írónían er auðvitað sú að ekkert ógnar þessum svæðum nema
einmitt áliðnaðurinn. Versti markaðsfræðingur í heimi getur séð að
stórfyrirtæki ætti að borga milljarða fyrir að vera opinber verndari
höfuðdjásna Íslanda og enn meira ef fyrirtækið er þekkt fyrir mengun og
eyðileggingu.


Stjórnmálamenn og fjölmiðlar virðast ekki hafa ímyndunarafl til að sjá
eða sýna okkur hvert þjóðin stefnir. Leiðin til álnauðar er vörðuð góðum
ásetningi.


Nú þegar stefnir í að ársframleiðsla verði um 1.5 milljón tonn með
álverum á Reyðarfirði, Hvalfirði, Húsavík og Helguvík og þrefaldri
Straumsvík. En fjögur þeirra munu vilja eða neyðast til að tvöfaldast í
framtíðinni. Það væri blekking að ímynda sér annað. Rannsóknir í
Skjálfandafljóti, Héraðsvötnum, Kerlingarfjöllum, Torfajökulssvæði og
Langasjó staðfesta hvert orkufyrirtækin stefna og að tæknileg markmið
eru komin upp í tvær og hálfa milljónir tonna. Sú staðreynd að
Þjórsárver eru á ís sanna þennan vilja, annars væru þau sjálffriðuð.
Orkufyrirtækin vilja gera Ísland að stærstu álbræðslu í heimi, á því
leikur enginn vafi, verktakar vilja það, ASÍ vill þetta,
Sjálfstæðisflokkurinn vill þetta, Framsóknarflokkurinn vill þetta og
Samfylking hefur spilað með um allt land.


Century sem rekur álverið á Grundartanga er örfyrirtæki, það gæti
auðveldlega runnið inn í Alcoa samstæðuna. Þá mun Alcoa eiga fjórar
verksmiðjur á Íslandi sem allur munu þurfa að tvöfaldast. Hvert leitar
slíkt vald og slíkur vilji? Á meðan forstjóri Össurar þarf ekki að ganga
í miðstjórn framsóknarflokksins til að hanna betri gervilimi og Marel
þarf ekki á velvild ráðherra að halda til að þróa betri vinnslulínu, á
meðan allt hið skapandi afl á Íslandi leitar í útrás, þá mun ál og
orkiðnaðurinn standa í innrás og leita í pólitík enda byggist vöxturinn
á aðgangi að helgustu véum þjóðarinnar og þetta vald mun stýra
samningagerð okkar í loftslagsmálum.


Enginn fjölmiðill hefur viljað birta okkur í hvaða átt við erum að fara.
Væri æskilegt að einn og sami aðili eignaðist fjórar verksmiðjur á Íslandi
sem allar vilja stækka? Og þegar þau hafa stækkað, munu þau ekki vilja
stækka? Er opið bókhald hjá stjórnmálaflokkum?


Kerlingarfjöll, Þjórsárver, Reykjanesið, Friðlandið að fjallabaki,
Langisjór, Skjálfandafljót og Héraðsvötnin, allt þetta geta stjórnmálamenn
látið af hendi á næstu árum. Ef valdið er tafl þá eru venjulegir
sveitarstjórnarmenn látnir glíma við stórmeistara í samningagerð sem hafa
snúið á stjórnvöld og haft áhrif á lagasetningu í stærstu ríkum
veraldar. Á móti þessum stórmeisturum spila ráðamenn lúdó. Bisnessvit
þeirra verður ekki í askana látið.


Leiðin til álnauðar er vörðuð góðum ásetningi. Þótt hver í sínu horni sé
velviljaður er heildarmarkmiðið hrein yfirlýsing um fjandsamlega
yfirtöku á íslensku atvinnulífi og náttúru. Næstu kosningar eru
mikilvægustu kosningar Íslandssögunnar. Við erum að kjósa um það hvert
Ísland stefnir. Á laugardag ætla þúsundir Íslandsvina að ganga niður
Laugaveg klukkan 13:00 ásamt mörgum helstu tónlistarmönnum þjóðarinnar og
mæla þannig með annarri framtíðarsýn.

24.5.06

tilkynning frá íslandsvinum

Sælir allir Íslendingar
Til stendur að hafa meðmælagöngu þann 27. maí þar sem farið verður fram á
virkt lýðræði í sambandi við stóriðjustefnuna og undirskriftasöfnun hefst
með áskorun til stjórnvalda.

Endilega hafið samband við alla kunningja, vini og fjöldskyldu og látið
orðið berast um gönguna því við viljum fá alla með og gera þetta að
stórviðburði.


Laugardaginn 27. maí, kl. 13:00 standa Íslandsvinir fyrir göngu sem lagt
verður í frá Hlemmi í Reykjavík. Gengið verður niður Laugaveginn og endað
með útifundi á Austurvelli, þar sem
fram koma margir af okkar helstu tónlistarmönnum, auk skálda og annara
listamanna.

Við göngum . . .

fyrir íslenska náttúru
fyrir fjölbreytt atvinnulíf, hugvit, menningu
fyrir sköpunarkraft og frumkvæði
fyrir ný tækifæri
fyrir menntun
fyrir velferð
fyrir lífsgæði
fyrir lýðræði
fyrir sjálfstæði Íslendinga

Við göngum . . .

gegn misnotkun á náttúruauðlindum okkar
gegn efnahagslegu ósjálfstæði
gegn einhæfu atvinnulífi
gegn stóriðjustefnu stjórnvalda


Aldrei áður hefur náttúrugersemum okkar, efnahagslegu sjálfstæði og velferð
verið ógnað sem nú og því liggur mikið við.


Drög að dagskrá 27. maí.

13:00 - 14:00 Ganga frá Hlemmi niður á Austurvöll
14:00 Dagskrá hefst á Austurvelli
14:00 - 15:40 Örstutt kynning á undirskriftasöfnun 3 mín
Hjálmar
KK
Fjallkonan flytur ljóð
Ragnhildur Sigurðar (vistfræðingur) talar
Flís og Bogomil Font
Benni Hemm Hemm
Unglingar flytja beiðni sína
Ragnhildur Gísladóttir
Fræðsluefni rúllar á skjá allan tímann


Kærar þakkir til þeirra sem eru tilbúnir að leggja málefninu lið. Nú er
tækifærið til að "gera eitthvað"
Endilega áframsendið póstinn á alla sem þið þekkið.
Í viðhengi er plakatið sem þið megið endilega prenta út og hengja upp á
vinnustað ykkar og svo er kynningargrein.


Íslandsvinir
www.islandsvinir.org

bjartsýn á hlaupum

Ferlegt veður hér líka. Bara svo þið vitið það. Skítarok og kuldi. Eða rok og skítakuldi. Fer eftir því hvernig á málin er litið.

Bætti Cafe Optimisten inn í LYST þó vitanlega sé ógreinileg skil milli i og y hjá þeim.

Vínskólinn fór um daginn í LYST og á vel heima þar. Spyrjið bara Nönnu R og fleiri.

Ég er föst í Monet og aldamótunum 1900 en verð að hlaupa frá honum yfir á 17. og 18. öld í Versölum. Sem er ekki leiðinlegt sossum, bara verst að hafa ekki meiri tíma en þetta í karlinn.

Ég hleyp alda milli, bólur hlaupa upp á líkama dótturinnar. Ætli drengurinn þurfi svo að bíða í aðra 10 daga, ég var nú að vona að þau fengju þetta saman. Krosslegg fingur upp á að næturnar verði ekki svefnlausar því ég mun þurfa að hlaupa í orðsins fyllstu merkingu hópa á milli á næstu dögum.

Lifið í friði.

22.5.06

Monet í metró

Þar sem ég sit í metró og les mér til um ævi Monet er stelpan við hliðina á mér að borða óviðurkvæmilega stóra langloku sem lyktar af majónesi og litli svarti karlinn gegnt henni situr með talnabandið sitt og þylur bænir. Ekki upphátt en við og við kemur undarlegt blísturshljóð upp úr honum. Hann kippist allt í einu til og byrjar að tala tungum. Kona sem stendur fyrir aftan mig og samlokustúlkuna svarar honum á sama óskiljanlega tungumálinu, vinkona hans og landi er þá að stíga inn í lestina rétt í þessu.
Ýmsum þykir metró erfitt og leiðinlegt. Ekki mér. Ég á yfirleitt í vandræðum með að fylgja söguþræði í bók, svo spennandi er að fylgjast með fólkinu koma inn á hverri stöð.
Svar japanskrar stúlku sem spurð er hvað henni þyki skrýtnast í París rifjast upp fyrir mér: Fólk borðandi á förnum vegi, gangandi um götur úðandi í sig mat. Þykir mjög óviðurkvæmilegt í Japan.
Íslenska fljóðinu mér þykir undarlegra að sjá mann biðja bæna á almannafæri. Fyrir mér eru bænir meira feimnismál en samlokuát.

Lifið í friði.

20.5.06

Ísland í Figaro

Í gær var baksíða Le Figaro, eins af stóru blöðunum hérna, helguð Íslandi og Silvíu Nótt. Það er nú fínasta landkynning og greining blaðamannsins þrykkjufín, bendir m.a. á að íslenska þjóðin líti á Söngvakeppnina sem eins konar Nóbelsverðlaun í tónlist. Ekki fjarri sanni miðað við hvað okkur langar mikið að vinna.
Frakkar líta ekki einu sinni niður á þessa keppni, þeir bara vita hreinlega ekki að hún er til. Fyrir utan þröngan hóp af fólki sem aðhyllist kitch (oft samkynhneigðir karlmenn) og vitanlega alla innflytjendurna frá litlu minnimáttarkenndarlöndunum. Sem Íslendingur hérna hef ég sjaldan mætt skilningi á "áhuga" mínum, nema hjá hommunum. Öðrum finnst það alltaf jafn ótrúlegt að ég skuli minnast á þetta fyrirbrigði, enginn veit hver keppir fyrir Frakkland, ekki einu sinni ég.
Öll landkynning er góð er það ekki? Silvía náði a.m.k. því sem enginn annar keppandi náði, að fá heila stóra grein um sig í frönsku blaði. Það hlýtur ákveðinn sigur að felast í því.

Annars fór ég í bíó í dag og sá Ísöldin 2. Ferlega ekki nógu skemmtileg, mest gaman að horfa og hlusta á krílin. En á undan myndinni voru náttúrulega 20 mínútna auglýsingar. Þar var m.a. auglýsing frá Írlandi. Um Írland og hvað það er fínt að ferðast þangað. Fyrst eru flottar náttúrumyndir sem hefðu allt eins getað verið frá Íslandi. Auglýsingin endar svo á skoti upp og niður líkama fallegrar konu og einhver orðaleikur um að Írland sé svo fallegt að maður gæti étið það eða eitthvað álíka gáfulegt. Nú langar mig að vita hvort sama auglýsingastofa hafi verið notuð og þegar Ísland var auglýst fullkomið fyrir einnar nætur gaman og annað skemmtilegt.

Ég var ein heima í kvöld eins og flest undanfarin kvöld þar sem maðurinn minn hefur farið og passað stelpurnar fyrir nágrannanna, litli kúturinn sem ég minntist á um daginn er ennþá á spítala og nær ennþá ekki að dæla nógu súrefni út í blóðið svo slæmur er astminn.
Ég hafði val um að horfa á söngvakeppni eða mynd með Catherine Frot og André Dussolier byggðri á sögu eftir eina af goðunum mínum, Agöthu Christie. Ég þurfti ekki að hugsa mig lengi um. En eftir myndina stillti ég yfir á þristinn og sá Carolu hina sænsku druslu syngja lagið sitt. Og ég sé ekki eftir vali mínu. Ferlega skemmtileg mynd og ég varð skíthrædd.

Og nú er ég farin að sofa. En ekki svefni hinna réttlátu. Allt of mikið rok hérna til þess.
Og draugarnir og morðinginn úr myndinni eru enn ljóslifandi í huga mér.
Vakna örugglega á hálftíma fresti í alla nótt.
Dettur samt ekki í hug að horfa á stigagjöfina enda held ég ekki með neinum og veit ekki hvort Ísland fær að gefa stig. Eða jú, Hildigunnur var að hvetja fólk til að veita einhverri minnimáttarkenndarsmáþjóð stig svo við hljótum að vera inni í því. Fær þá Eva María að vera með en ekki Silvía? Æ, ég nenni samt ekki að bíða eftir því, ég er nú ekki alveg svona aðframkomin af söknuði eftir íslenskum hreim.
Reyndar er ég með hugmynd fyrir næsta ár: Láta lagið sem varð að ég held númer tvö núna, fara. Flott söngkona, mjög fallegt lag, vera berfætt og temmilega álfaleg og við hljótum að hlunkast upp úr þessari forkeppni sem við virðumst annars vera dæmd til að vera í það sem eftir er.

Lifið í friði.

19.5.06

föstudagur enn og aftur

Ég bið guð og góðar vættir að vernda Ágústu. Ég get ímyndað mér að hún sé þreytt og að blendnar tilfinningar bærist í brjósti hennar.
Að öðru leyti er mér nokk sama um þetta allt saman. Ég hef enga sérstaka skoðun á því hvort fígúran gangi of langt eða hvort of dýrt sé að taka þátt í keppninni. En lagið fannst mér alveg þokkalega gott. Da da da...we're all out of luck... æ, nei, ekki það, ruglaðist smá... Eurovision nation... la la la la la la...
Ég vona bara að leikkonunni líði vel og að fólk verði ekki vont við hana út af þessu hlutverki sem hún tók að sér í þökk þjóðarinnar (a.m.k. þeirra sem kusu) og mér finnst óhugnalegt að sjá stundum illa talað um hana minnug þess að dúllurnar þægu sem hafa tapað öll hin árin urðu píslarvottar, fórnarlömb lélegs tónlistarsmekks óæðri þjóða, meðan núna virðast einhverjir telja að þetta sé "fraukunni" að kenna.

Þessi vika leið svo hratt að ég trúi varla að það sé föstudagur í dag. París undirlögð í fótboltabullum er ekki falleg París skal ég segja ykkur börnin góð. Troðfull af ropandi fituhlunkum í íþróttabolum, kellingum jafnt sem köllum.
Ógeðslega hallærislegt lið upp til hópa. Og ruddalegt.
Spánverjarnir sem horfa á fótbolta eru ekki þeir Spánverjar sem ég hef hingað til kynnst og fílað vel. Nei, þetta eru graðir tuddar sem bera minna en enga virðingu fyrir konum, sjá þær bara sem brjóst og píkur. Ég fæ hroll þegar ég minnist göngu minnar niður Champs Elysées á miðvikudag.
Mótmæli trúaða fólksins við kvikmyndahúsin á Odéon féllu gersamlega í skuggann af þessu lúðaliði. Þar voru sungnir sálmar og fólki meinaður aðgangur að miðasölunni. Því færri sem sjá Da Vinci Code, því betra. Annars ætla ég að sjá þessa mynd. Út af aðalleikkonuinni. Ekki Audrey Tautou, hún er voða sæt og mikið krútt en það væri nóg að sjá hana í vídeó. Nei, ég ætla að sjá París. Borgina mína fínu.

Síðasta föstudag bloggaði ég með Rás 2 á og karlinn sagði "bannað að keyra fullur". Ég held að af þessu megi draga þá ályktun að sumir ættu að hlusta meira á Rás 2.

Í kvöld er góð vinkona mín að fara á Verslóball, 100 ára afmæli þess arma skóla og hún 20 ára stúdent. Ballið átti að vera á laugardegi en því var breytt út af söngvakeppninni. Það finnst mér fyndið og enn fyndnara í dag þegar ég hugsa til þess að flestir horfi á keppnina á morgun með brostið hjarta, brotnar vonir.

Lifið í friði.

18.5.06

"mæðradagsvendinum

fylga mömmulegir garðhanskar" stendur í auglýsingu í blaðinu.
Þetta eru blómum skrýddir hanskar og það sér hver heilvita maður að þeir passa ekki fyrir einhleypar og barnlausar konur. Nei, svona er bara fyrir mömmur. Eru mömmur kannski ekki lengur konur? Eða er vandamálið að barnlausar konur eru varla almennilegar konur?

Var ég annars búin að segja að ég hef megnustu óbeit á svona markaðssettum væntumþykjudögum?

Lifið í friði.

17.5.06

veikindi og kerfið ógurlega

Í mínu nánasta umhverfi eru tvær mæður sem eiga það sameiginlegt að hafa mikið kvartað yfir heilsuleysi barna sinna í vetur. Annað barnið er unglingsstúlka sem hefur trekk í trekk kvartað yfir eymslum í kvið, hitt er lítill strákur sem er sífellt með kvef og andateppu og hita og bara mjög mikill ræfill greyið. Bæði hafa verið hjá læknum stanslaust í vetur, og yfirleitt fengið sömu svör og sömu gagnslausu lyfja- eða sjúkraþjálfarameðferðirnar aftur og aftur þrátt fyrir mótbárur foreldranna.
Í gær fékk ég skilaboð á símsvaranum um að verið væri að skera unglingsstúlkuna upp vegna botnlangabólgu sem hafði blundað í henni án eðlilegu einkennanna hita og sýkingar. Henni líður vel og móðirin trúir því að héðan í frá verði allt í lagi.
Í gær fór móðir litla drengsins með hann á enn nýjan spítala sem er víst með góða astmadeild. Þau eru þar enn, hann með leiðslur og snúrur í sér og virðist nú vera í góðum höndum lækna sem hlusta á foreldrana í staðinn fyrir að segja það sama og hinir þrátt fyrir mótmæli foreldranna um að það hafi hingað til ekki gert gagn. Við vonum að litli kútur fái nú rétta meðhöndlun og að líf fjölskyldunnar verði betra.
Það er alltaf jafn mikilvægt að muna hvað heilsan er dýrmæt. Hvað það er ómetanlegt að eiga heilbrigð börn. Það er alltaf jafn fáránlegt að heyra sömu sögurnar frá svo til öllum sem lenda í því að þurfa að sannfæra lækna um að eitthvað sé að börnum sem eru að þjást. Af hverju virðist alltaf þurfa að stappa niður fæti til að fá þessa sjálfsögðu þjónustu? Hvernig voga læknar sér að segja að ekkert sé að fyrir framan barn sem engist um af kvölum? Margir fræðingar sem skrifað hafa bækur um börn og meðferð þeirra segja mæður alltaf vita best hvað gengur að börnum þeirra. Samkvæmt móður minni hjúkrunarfræðingnum var þumalputtaregla hjúkrunarfólks lengi að taka alltaf mark á móðurinni. En sú regla passar alls ekki inn í fjársvelti og kapítalíska afkomureikninga heilbrigðisþjónustunnar í dag.

Lifið í friði.

15.5.06

kosningaréttur

Ég er skyndilega orðin ferlega svekkt yfir að mega ekki kjósa í sveitastjórnarkosningunum. Ég geri mér fulla grein fyrir því að ég má og mun kannski kjósa í Söngvakeppni evrópskra sjónvarpsstöðva á laugardaginn, en einhverra hluta vegna bætir það ekki svekkelsið yfir hinum kosningunum upp.
Ég neita því ekki að ég væri alveg til í eitt gott stuðpartý á laugardaginn, helst með fullt af hommum eins og þegar B vinur minn var hérna og reddaði okkur stelpunum slíkum partýum.
Man líka eftir einu ágætis söngvakeppnispartýi í Karlsruhe. Þá var ég búin að bjóða öllu genginu hér í París heim til mín, fékk símtal á föstudagsnóttu, reif mig upp úr rúminu, skrifaði miða og setti lykilinn undir mottuna og óskaði öllum góðrar skemmtunar í partýinu mínu. Þegar ég kom föl og þreytt heim á mánudagsmorgni var ennþá partý hjá mér.

Á laugardaginn virðist sem ég muni vera hér heima með kallinum sem hefur ennþá minni áhuga á þessari söngakeppnisvitleysu en ég. Hann hló þó við fót þegar ég sagði honum sögur af Silvíu Nótt. Kannski við ættum að fá pössun og tékka á portúgölskum börum í París? Eða Litháenskum (er þetta skrifað svona?).

Af hverju er sagt Íranar en ekki Íranir?

Lifið í friði.

speki á mánudegi

Be careful if you can't be good.

Lifið í friði.

13.5.06

hagl

Hitabylgjusumarið ógurlega 2003 fór ég einn morguninn með hóp um Montmartre. Þar ríkti undarlegt ástand, öll laufin höfðu dottið af trjánum og lágu klesst á götunum þrátt fyrir dúndrandi hitann. Ég hafði engar skýringar á þessu en frétti svo síðar að þessa nótt hafði hrikalegasta risahaglél sem sögur fara af í París fallið á Montmartre eins og sprengjuárás. Skemmdir í þökum, brotnir gluggar og öll trén kviknakin eftir lætin.
Ég hef aldrei skilið svona hitahaglél, en eitt slíkt var að falla hér á hverfið rétt í þessu. Höglin ansi stór en laufin hanga nú enn á trjánum hér enda hafa þau fengið að drekka undanfarið og eru líklega betur undir svona búin en í ágúst 2003 þegar allur gróður var skorpinn og brunninn.
Hvað veldur svona hagléljum í hita? Vorum úti í morgun á stuttermabolum og ekkert í loftinu sem benti til þess að veðurspár um þrumuveður ætluðu að standast. Svo, þar sem ég sit hér við tölvuna, verður skyndilega niðamyrkur og haglél bylur á þakinu.

Lifið í friði.

12.5.06

vendredi

í morgun las ég mér til um hlaupabólu á doktor.is því allar líkur eru á að börnin mín séu nú smituð.
Með áframhaldandi fikri eins og gengur og gerist á netinu fór ég að lesa um lyf við herpes, skoðaði hvað sagt var um zovir sem ég nota þegar ég fæ frunsu og hugsaði um leið að það væri langt síðan ég hefði fengið slíkan óþverra. Innan við klukkustund síðar gerði frunsan sem nú trónir í munnviki mínu vart við sig. Máttur hugans er ótrúlegur. Eða tilviljunin. Eða eitthvað.

Annars held ég að meginástæða fyrir bloggþurrð síðustu daga, fyrir utan annir í vinnunni, sé lestur LoveStar. Ég er gáttuð yfir þessari bók og hef ekki græna glóru um það hvert hún ætlar með mig þó ég eigi bara einn eða tvo kafla eftir. Ég hætti áðan til að hvíla mig og melta og af því ég tími ekki að klára bókina alveg strax.
Góðir sprettir hjá honum, stundum smjatta ég og sleiki út um en dálítið verið að fara í allar áttir þó auðvitað sé það samt líklega viljandi, heimurinn sem bókin gerist í er einmitt þannig, allt að gerast í einu og allir alls staðar, allir tengdir en týndir um leið. Er heimurinn nokkuð orðinn svona núna? Erum við að gera of lítið af öllu? Mér líður stundum dálítið þannig.

Maðurinn í útvarpinu sagði: Bannað að keyra fullur. Ég er ekki full en ég ætla ekki út að keyra. En ég er gersamlega úti að aka.

Góða helgi.

11.5.06

sjálfhverfa

Ég er svo innilega ekki í stuði til að blogga einmitt núna en er svo sjálfhverf að ég er sannfærð um að vera að bregðast einhvers konar skyldum gagnvart lesendum. Djöfull er maður skrýtinn.

Ég er draugfúl yfir því að hafa ekki svarað getrauninni hans Rafauga um daginn því ég las færsluna og fór svo að gera annað og sönglaði lagið allan daginn og líklega í tvo slíka. Gekk m.a.s. svo langt að reyna að leita að disknum en það bar ekki árangur. Verð að komast að því hvaða flokkunarkerfi maðurinn minn notaði á íslensku diskana þegar hann eyddi löngum tíma um daginn í að endurraða disasafni heimilisins. Hef ekki alveg náð að skilja það til hlítar.

Annars vona ég bara að veðrið leiki við ykkur heima áfram. Það er ekki til neitt betra sólarland en Ísland, þegar hún lætur sjá sig og lofthitinn fer aðeins upp er þetta blessaða sker okkar paradís á jörðu... ennþá...

Lifið í friði.

9.5.06

afmæli og meira um tæran straum

Ég átti víst bloggafmæli í gær. Til hamingju Ísland.

Annars hef ég verið að skoða Clearstream umfjöllun á Íslandi og hef eingöngu fundið eina frétt á mbl.is sem er nýleg og fjallar um að Villepin ætlar ekki að segja af sér út af þessu hneykslismáli sem nú er í algleymingi hérna í Frakklandi.
Hins vegar hafa íslenskir fjölmiðlar greinilega engan áhuga á þessari bankastofnun, Clearstream, sem er lúxembúrgísk miðlun með verðbréf fyrir aðra banka. Metafóran pípulagnir hefur mikið verið notuð hérna, Clearstream er lagnakerfi sem tryggir öruggt og gott streymi peninga milli mismunandi banka sem kaupa og selja hver öðrum verðbréf.
Clearstream er lögleg stofnun og alveg löglegt að eiga reikning hjá þeim, en rúmlega 2.000 bankar eiga viðskipti við þá. Væntanlega íslenskir bankar líka þó ég hafi reyndar aldrei séð íslensk nöfn á listum sem oft eru birtir í fréttatímum hérna. Mér finnst þó ólíklegt að íslenskar bankastofnanir taki ekki þátt í þessum miklu viðskiptum Clearstream.
En í 5 ár hefur franskur sjálfstætt starfandi blaðamaður og rithöfundur, Denis Robert, reynt að sýna fram á að Clearstream býður einnig upp á leynilega reikninga og að um þá fari illa fengið fé (t.d. mútur) sem er svo komið í umferð, svokallaður peningaþvottur væri því stundaður af Clearstream. Denis Robert hefur fengið nokkra fyrrverandi starfsmenn til að tala við sig, hefur skrifað tvær bækur og gert a.m.k. eina ef ekki fleiri heimildarmyndir um þetta og á í stöðugum málaferlum við Clearstream sem ákæra hann fyrir lygar og rógburð. Um daginn var hann dæmdur til að greiða þeim eina evru í sekt vegna einhverra ummæla sem ekki þóttu sannanleg. Hann bendir hins vegar á að Clearstream hefur aldrei ákært viðmælendurna, uppljóstrarana, sem hann telur sönnun á að allt sem hann veit sé rétt.
Auðvitað verður að koma með haldbærar sannanir, en það hefur ekki gengið og síðasta bók Denis Robert, La Domination du Monde, er í formi skáldsögu þó nokkuð ljóst sé að bókin fjalli um þetta mál sem hefur átt hug hans og hjarta í öll þessi ár.
Hneykslismálið með Villepin og Sarkozy sprettur af lista yfir leynilega viðskiptareikninga sem Denir Robert fékk upphaflega frá starfsmanni Clearstream. Hann lét annan mann hafa listann og þaðan hefur listinn borist frönskum ráðamönnum en töluvert breyttur, nafni Sarkozy hafði verið bætt inn og átti þannig að koma honum í vandræði. En þetta mál er hið leiðinlegasta og ég get alveg fyrirgefið íslenskum fjölmiðlum að fylgjast ekki náið með því.
Hins vegar væri spennandi að vita hvort blaðamenn hafi spurt sig spurninga varðandi þátt Íslendinga í þessu undarlega fyrirtæki, hvort einhver viðskipti séu og auðvitað helst, hvort einhverjir íslenskir aðilar gætu átt leynilega reikninga hjá þeim.
En þetta er svo sem alveg í stíl við franska fjölmiðla sem margir hverjir hafa látið duga að rakka Denis Robert niður, ásaka hann um ósannindi og óvönduð vinnubrögð í staðinn fyrir að hjálpa honum að rannsaka málið til hlítar.
Það er náttúrulega alltaf flókið að vera á launum hjá fjölmiðli sem er í eigu fyrirtækis sem stundar stórviðskipti við... tja, Clearstream?

Lifið í friði.

tengingar

Allt í einu, þar sem ég sat á klóinu að pissa, nýkomin heim af úr sextugsafmæli, datt mér í hug að hvalveiðimaðurinn væri sá sami og ekkifrétta maðurinn. Ekkifréttir er eitt það skemmtilegasta sem ég heyrði alltaf stundum og við og við á ferðum mínum til Íslands. Hef oft spáð í hver þetta var og hvort þetta hefur haldið sér.

Eru ekkifréttir enn sagðar?

Er þetta rétt tenging hjá mér?

Lifið í friði

8.5.06

Frakkland sekkur í svaðið


pink-liberty
Originally uploaded by parisardaman.

eins og allir hinir.
Hélt einhver að ég ætlaði að skrifa um Clearstream-málið? Ég hef það eitt um það drullusvað að segja að mér verður um og ó við tilhugsunina um allan þennan pening sem streymir í gegnum svona fyrirtæki án þess að almenning gruni nokkuð.
Allir að herða sultarólina, leyfum óæðri þjóðum hreinlega að deyja út, stöndum saman í að leyfa ráðamönnum og háttsettum bankaköllum að maka krókinn og æmtum hvorki né skræmtum.
Þannig hefur þetta verið og á að vera.
Svik, fláræði, spilling. Hluti af náttúrulögmálinu.
Og þakka ykkur góðu stjórnendur að gefa okkur þætti eins og þennan sem auglýstur er hér að ofan. Þætti troðfulla af fallegum karlmönnum. Nóg er til að fallegarkonurþáttum, takk fyrir þá líka.
Takk fyrir að gefa okkur pelann og snuðið og róa okkur niður þegar skyndilega kemur brestur í virkisvegginn og grunur um hvað leynist á bakvið læðist að okkur.
Það er miklu auðveldara að vera strengjabrúða en að ætla sér að umturna einhverju.

Lifið í friði.

7.5.06

ekkert

Úrvinda eftir frábæran dag með dásamlegu fólki í Versölum. Það er svo gaman að vera með góða samferðamenn. Og gaman þegar veðurspáin ákveður að vera röng þegar hún er slæm.
Annars hef ég ekki neitt að segja, allt sem ég ræddi og rifjaði upp í dag voru eldgamlar fréttir frá 17. og 18. öld.
Hins vegar mæli ég eindregið með því að þið lesið Hryssu einmitt núna þó ég nenni ómögulega að tengja beint í hana.

Lifið í friði.

5.5.06

augu jökuls

Mér fannst myndir RAX og hugleiðingar Andra Snæs alveg frábærar í Lesbókinni. Heimurinn verður betri og betri og fleiri og fleiri meðvitaðir um það litla sem getur orðið stórt þó sumt virðist verða verra og verra.
Til dæmis er það mikið verra að fólk í áhrifastöðum skuli ekki sjá ástæðu til að berjast gegn innflutningi vændiskvenna til Þýskalands meðan á HM stendur.
Og hræðilegt að við skulum enn vera skrifuð fyrir viðbjóðinum í Írak.
Var einmitt að ljúka við Arabíukonur e. Jóhönnu. Frábær bók. Ætti að vera skyldulesning. Ég sem taldi mig nú ágætlega upplýsta um arabaheiminn, lærði heilmikið. Vissi t.d. alls ekki að Óman væri sjálfstætt ríki. Veit ekki alveg hvað ég hélt að það væri, líklega borg "einhvers staðar". Og mér finnst ógnvænlega athyglisvert að bera saman lýsingar á Jemen og ýmislegt við Ísland. Nú verð ég bara að fá Insjallah fljótlega. Ekki það að mig vanti lestrarefni. Er með bækur í röðum sem bíða lesningar.

Fór í lítið þorp suðvestur af París í gær. Var nefninlega beðin um að fara með hóp þangað og fannst viturlegra að kíkja fyrst sjálf, það er alltaf erfitt að uppgötva hlutina með túristum sem treysta á mann, þó þeir viti af því fyrirfram. Eyddi yndislegum hlýjum og björtum degi í að skoða kastalarústir frá 11. öld, viðbætur frá 16. öld og skoðaði í búðarglugga á þessu fallega og vel verndaða þorpi sem fólk sem á pening býr í. Þar sá ég m.a. gúmmískó á 22 evrur. Venjulegir grænir (já, í Frakklandi fást ekki íslenskir venjulegir svartir og hvítir, heldur eru þessir venjulegu grænir) kosta 3 eða 4 evrur. Þessir voru hins vegar rauðir með hvítum doppum, alveg hrikalega sætir, en ég held ég myndi aldrei eyða 22 evrum í gúmmískó.
Það er samt gaman að skoða í búðarglugga sem ætlaðir eru ríkum konum. Allt svo fínt og fallegt og vandað. Smekklegt. Lekkert. Dúllulegt. Hrikalega hlýtur ríkum konum að leiðast stundum.
En ég mun setja ýmislegt um þetta fallega þorp inn á netsíðuna www.parisardaman.com bráðlega.

Um daginn fletti ég hratt yfir viðbjóðslega sjónvarpsblaðið sem við erum farin að kaupa. Þetta er sorprit með myndum af hálfnöktum sjónvarpsstjörnum framan á (alltaf aðeins of ungar, aðeins of ljóshærðar og aðeins of brjóstastórar) og fyrri helmingurinn er slúður um svona stjörnur. Ég reyndi einu sinni að lesa blaðið en hef aldrei reynt það aftur. Við kaupum það út af sjónvarpsdagskránni sem okkur finnst kurteislegra að lesa þó við horfum ekki lengur, stundum eru myndir sem þarf að taka upp, einstöku sinnum heimildarmynd sem vekur áhuga og hægt er að horfa á (erum hætt að taka upp áhugaverðar heimilidarmyndir því við vitum sem er að við horfum svo aldrei á þær).
Í blaðinu um daginn var eitthvað um ABBA, hvort það er að koma söngleikur til Parísar, eða hvort einhver stöðin var með þátt um þau veit ég ekki, en það sem stakk mig var lítill rammi með mynd af Agnethu og texti sem sagði að hún ætti við geðræn vandamál að stríða og þess vegna væri hún ekkert í sviðsljósinu. Þessi stutta afgreiðsla á manneskjunni truflaði mig eitthvað og þess vegna var ég himinlifandi yfir grein ÁJ í Lesbókinni og fegin að hún fær þar uppreisn æru. Held að það taki sig því miður ekki fyrir mig að snara greininni yfir á frönsku og senda þessum sorableðli, en mér er létt. Mjög góður punktur hjá manninum. Fjölmiðlaofsóknir hljóta að vera langerfiðasti hluti þess að vera frægur.
Langbest að vera enginn.

Á síðu EÖE (var ég búin að setja tengil á hann eða les ég hann alltaf í gegnum Mikka?) spyr hann um hvað á að gera í París. Ég gerðist frökk (hef svo oft haldið í mér að gera þetta og séð eftir því, að nú lét ég slag standa) og benti á mig. Og nú fæ ég svitakast af því að játa þetta hér. En merkilegast fannst mér að annar frómur bloggari SverrirJ segist geta mælt með ferð með mér. Ha? Hvenær? Ég er alveg bit. Fór svo hjá mér að ég stóð upp frá tölvunni og þorði ekki aftur að henni í gærkvöld.
Hvað er ég, spéhrædd og feimin, að láta allt vaða hérna á opnum vefnum? Hvað er ég að vera að þykjast vera eitthvað? Ætli það sé kominn tími til að hætta? Og enn og aftur þarf ég ekki að fá svör við þessu í kommentakerfið. Þið vitið jafnvel og ég að ég er gersamlega háð þessu bloggstandi. Og tengsl mín við Ísland og Íslendinga hafa stóraukist með þessu bloggbrölti. Og það er gott.

Lifið í friði.

4.5.06

sólgleraugu

Fór um daginn með mömmu á rokna góðgerðasamtakasölu í París. Ýmsir misþekktir hönnuðir höfðu gefið gamalt dót og gömul föt sem voru seld til að hjálpa fátækum. Við fórum að sjálfsögðu eingöngu til að styrkja málefnið, ekki að við hefðum nokkurn áhuga á að kaupa hræódýra hönnun eða neitt slíkt.
Við komum eftir hádegi og allar flíkur í eðlilegum stærðum voru farnar. Ég hefði t.d. getað fengið strigaskó á 3 evrur ef ég væri ekki í 36, hér er þetta öfugt við heima, þar er oftast eftir par í 36. Og svo höfðu verið þarna fullt af konum í eðlilegum stærðum (margar arabískar og svartar, þær eru minna anorexískar að eðlisfari en þær frönsku), með væna rassa og framstæða maga og höfðu greinilega tæmt fatadeildina af öllu sem gat passað svo nú stóðum við þarna eðlilegar eftirlegukindur og horfðum öfundaraugum á mjóslegnar verðandi fyrirsætur (eða dópista - harður heimur) máta skrýtin föt. Sumt var nú reyndar svo ljótt að maður hefði getað grátið. Þarna voru t.d. snjóþvegnar (eða sjó? hef aldrei vitað hvort það er) gallabuxur og gott ef það voru ekki smelluskreyttir jakkar við. Ef maður byggi í stærra húsnæði hefði maður nú getað keypt ýmis furðuföt handa börnunum að leika sér í.
En ég keypti mér forláta sólgleraugu fyrir 3,5 evrur. Þau montuðu sig af því að vera frá sama fyrirtæki og hönnuðu matrixgleraugun hvað sem það nú svo þýðir. Þau voru afskaplega fín á mér og takið eftir að ég skrifa í þátíð.
Ég fór með þau einu sinni út og þá voru þau flúin úr mínu lífi.
Það er eitthvað með mig og sólgleraugu sem á ekki saman. Í fyrsta lagi finnst mér óþægilegt að nota sólgleraugu og í öðru lagi þá flýja þau alltaf úr minni vist.
Fersk eru mér í minni sólgleraugun sem ég átti sem lengst. Þau komu úr skattholinu hennar ömmu þegar hún flutti í "þjónustu"íbúð og þurfti að grisja. Ferlega smart og þægileg og lítil og mér tókst að hafa þau hjá mér í marga marga mánuði. Og leið alltaf eins og stjörnu þegar ég setti þau upp. En svo var ég í bænum og fór að horfa ofan í Signu og beygði mig eitthvað fram yfir handrið brúarinnar og... ég get ekki talað um þetta. Segjum bara að margur fjársjóðurinn liggur á Signubotnum.
Erla Hlyns segir að ég geti leyst flugnahjólavandamálið með sólgleraugum. Ég er að spá í einu, er ennþá hægt að fá svona skíðagleraugu eins og maður var með sem barn? Mjúk með svampi allan hringinn og breiðri þægilegri teygju. Hægt að beygla þau svo ég get alltaf stungið þeim í töskuna mína og þarf ekki að leggja þau varlega frá mér á afgreiðsluborð sem er örugg leið til að týna þeim. Er svoleiðis til ennþá eða þarf ég að fara að þræða "vintage"góðgerðarsölur um allan heim í veikri von um að finna ein slík? Ég vil helst Salomon því mig minnir endilega að mín hafi heitið það. Eða Nordica?

Lifið í friði.

2.5.06

hjól í sól og gláp í skáp

Eins og hálfs tíma hjólatúr í dásemdarveðri, hlýju og sólríku en samt smá gola til að fullkomna þetta, dugði til að ná úr mér fýlunni.

Svar við einum af nokkrum tölvupóstum beið mín þegar ég kom til baka. Hin láta á sér standa.

Á leiðinni veiddi ég flugur með augum, munni og nefi. Ég sá andarunga aleinan á sundi á canalnum og rétt hjá honum flaut dauð rotta við vatnsyfirborðið. Ég sá tvær eldri konur algerlega uppstrílaðar og stífmálaðar úti að njóta sólarinnar svo sætar og glaðar að maður komst við. Ég sá mörg kærustupör og tvenn áttu það sameiginlegt að stúlkurnar voru rauðklæddar frá toppi til táar, víðar buxur, og önnur í peysu sem beraði alveg axlir, en hin í bol sem beraði naflann (er það ekki alveg úti núna?) og íþróttalegri treyju yfir. Allt eldrautt eins og varaliturinn minn var í denn. Afskaplega upplífgandi allt saman.
Nema flugnaveiðarnar. Þetta var orðið vandræðalegt þegar ég gat varla haft augun opin, svo erfitt var að gráta flugunum úr þeim. Líklega þarf maður að hafa með sér lítinn spegil og tissjú þegar maður fer í hjólatúr.
Það var ekki fyrr en ég tók Kára upp úr baðinu um kvöldið að ég tók eftir því að eitt líkið hafði klínst á augnalokið og legið þar það sem eftir var dagsins. Búin að hitta hálfan tug fóstra, tug barna og nokkrar mæður en enginn hafði séð ástæðu til að segja mér frá þessu. Kannski sást þetta bara sem "eitthvað svart fyrir ofan augað" og þótti ekki nógu merkilegt til að benda á.

Nú má þetta blessaða vor vera endanlega komið. Ekki fleiri kuldaköst hér takk. Ekki meira. Það er enginn smá munur að ganga með krakkana út án þess að þurfa að klæða í peysur, úlpur, húfur, vettlinga... en hverjum er ég að segja þetta?

Eftir langa íhugun um ísskápsopnanir er ég komin að þeirri niðurstöðu að ég geri það sama og EinarJ segir í kommenti hér að neðan. Ég opna ísskápinn þegar ég geng inn í eldhúsið og glápi inn í hann.
En stundum er það vegna þess að á hinni löngu leið að eldhúsinu er ég oft búin að gleyma til hvers ég fór þangað. Þá er eina í stöðunni að opna skápa og athuga hvort andinn komi yfir mann aftur. Oft gerist það að hann kemur bara ekki og ég geng til baka fram í baðstofu og man þá til hvers ég hafði verið í eldhúsinu og þarf aftur að leggja á mig ferðalagið þangað. Og nú gæti ég komið með byrjunina aftur en hlífi ykkur því. Segjum bara að t.d. hafi ég ætlað að taka úr vélinni.

Lifið í friði.

klukkan er eitt

og sól og hlýtt úti en ég ennþá inni og einhvern veginn ekki alveg að gera hluti af viti. Opnaði ísskápinn sársvöng áðan og vissi áður en hann var alveg opinn að mig langaði ekki í neitt. Mig langar svo oft ekki í neitt þegar ég er svona ein.
Mig langar út en veit ekki hvert.
Mig langar að fá svör við nokkrum tölvupóstum til að geta gengið frá hlutum.
Mig langar í íslenska sundlaug.
Mig langar en langar ekki neitt.

Í morgun hef ég tvisvar lesið notkunina einingar í sambandi við að innbyrða mat eða vökva. Á báðum stöðum tók ég því sem gríni eða háði og dreg þá ályktun að dagblöðin og aðrir miðlar sem hleypa misvitrum fræðingum að, nota þetta mikið. Held ég. Veit ekki einu sinni hvort þetta bull mun skiljast og nenni ekki að spá í það. Ég er sársvöng enda bara með kolbikasvart kaffi í maganum eftir fjögurra tíma vöku og vinnu. Stundum er ég hreinlega fáviti.

Lifið í friði.

komiði fljótt aftur

... það er svo gaman þegar þið farið!
Þetta er brandari sem við vinirnir notuðum lengi á táningsárunum og fannst alltaf voða fyndinn.

Ég sakna mömmu minnar svo mikið núna.
Meira en í vikunni áður en hún kom.
Erfitt að vera alein í útlöndum þó ég sé náttúrulega ekkert alein.
Fullt af fólki hjá mér sem væri erfitt að skilja eftir ef ég flytti til Íslands.
Erfitt að vera rifin í tvennt.

Mahna Mahna kom mér í smá gott skap.

Mig dreymdi súrrealískan draum í nótt um að ég væri að flytja til Íslands. Var með alls konar húsgögn sem ég gerði mér grein fyrir að væru að hrynja í sundur og hafði áhyggjur af því að koma þeim ekki í lóg áður en ég þyrfti að fara. Svo var frænka mín að missa móður sína (sem dó fyrir mörgum árum síðan) og ég flýtti mér að hringja í hana til að segja henni að ég myndi þurfa húsgögn. Frekar óhugnalegt. Óþægilegur draumur. Allt í kringum mig var skítugt og brotið og ógeðslegt og svo var ég svona hrikalegur ruddi. Hvað táknar svona draumur?

Og nú fer ég að vinna. Svara tölvupóstum og skipuleggja hitt og þetta. Ditten og datten. Mega fimm fá súkkulaði en 8 jarðarber? Eru rúturnar ok? Klukkan hvað viljið þið hitta mig? Er ekki gaman að vera til þrátt fyrir allt? Jú.
Og nú geri ég prógrammið fyrir frænkuferðina í júní. Þýðir ekki að hika, það er víst það sama og að tapa, er það ekki?

Er það satt að Blue Lagoon hafi keypt gufuna á Laugarvatni? Mér finnst það óhugnaleg tilhugsun, leit á hana sem þjóðareign, hluti af landinu og vatninu og fáránleg tilhugsun að þetta geti gengið kaupum og sölum. En það er nú hægt að selja ömmu sína ef viljinn er fyrir hendi og sumum virðist þykja það hreint allt í fínasta.

Lifið í friði.

1.5.06

öreigar!

Til hamingju með daginn.

Lifið í friði.