30.5.06

spegill spegill

Einhvern tímann fyrr í vor keypti ég mér loksins SPEGILINN. Í Frakklandi er mjög algengt að hafa stóran spegil í veglegum ramma inni í stofu eða borðstofu. Mig hefur alltaf dreymt um að eignast góðan veglegan spegil en hef aldrei rekist á þennan eina sanna fyrr en sem sagt á flóamarkaði í 19. hverfi í vor. Ég hef oft séð flotta spegla, litið á verðið og þá hefur það verið afgreitt. Þarna gat ég ekki litið á verðið heldur þurfti að spyrja karlinn sem átti básinn. Hann gaf mér upp verð og ég vissi áður en hann sagði það að ég yrði að eignast þennan spegil. Hann bara stóð þarna á jörðinni, hallaði sér makindalega upp að gömlum skáp og ég var máttlaus í hnjánum fyrir framan hann.
Samt gekk ég í burtu og við héldum áfram út allan markaðinn. Ég gat ekki á heilli mér tekið og var allan tímann sannfærð um að núna, einmitt núna, væri einhver annar að kaupa spegilinn MINN.
Þegar ég kom til baka stóð hann þarna og beið mín. Ég prúttaði hann niður í 70 evrur og maðurinn minn þurfti að fara með hann heim í metró aleinn þar sem enginn lifandi leið var að koma honum inn í bílinn ásamt okkur og börnunum.
Spegillinn er ekki með gylltum ramma, heldur mjög fallegum og frekar stílhreinum viðarramma. Hann er margmálaður og var málningin byrjuð að flagna af á ýmsum stöðum. Ég var búin að lofa mér að hengja hann upp í þessu ásigkomulagi og huga síðar að því hvort ég vildi skafa af honum einhver lög og mála hann.
Spegillinn er ekki enn kominn upp á vegg því við hjónin getum ekki hengt hann upp bara við tvö, það væri of mikil áhætta. Ef spegillinn brotnar og ég get á nokkurn hátt kennt manninum mínum um það, verð ég áreiðanlega að skilja við hann. Það vil ég síður. Þess vegna á spegillinn ekki að brotna.
En í gær dróst ég skyndilega að speglinum, algerlega óforvarendis ennþá á náttfötunum og byrjaði að skafa efsta lag málningarinnar sem er einhvers konar gulbleikbeisælulitur. Og nú er ég búin að skafa og skafa og mest af þessum ókennilega lit farinn en ég er alveg búin á því, hef varla kraft til að vélrita. Af hverju get ég ekki einu sinni farið eftir eigin ráðum? Af hverju þarf ég alltaf að fara að gera eitthvað fáránlegt þegar ég ætti í raun að vera að gera eitthvað allt annað sem liggur meira á? Pourquoi?
En spegillinn er helvíti flottur og ég hafði það af að mála innan í skúffur og skáp á skrifborði sem ég hef trassað í lengri tíma. Bara því ég þurfti að hvíla mig stundum á sköfuninni. Jamm. Aftur finnst mér ég bara vera að væla út í loftið. Hef ég einhvern tímann verið að skrifa eitthvað af viti á þetta blogg?

Lifið í friði.