augu jökuls
Mér fannst myndir RAX og hugleiðingar Andra Snæs alveg frábærar í Lesbókinni. Heimurinn verður betri og betri og fleiri og fleiri meðvitaðir um það litla sem getur orðið stórt þó sumt virðist verða verra og verra.Til dæmis er það mikið verra að fólk í áhrifastöðum skuli ekki sjá ástæðu til að berjast gegn innflutningi vændiskvenna til Þýskalands meðan á HM stendur.
Og hræðilegt að við skulum enn vera skrifuð fyrir viðbjóðinum í Írak.
Var einmitt að ljúka við Arabíukonur e. Jóhönnu. Frábær bók. Ætti að vera skyldulesning. Ég sem taldi mig nú ágætlega upplýsta um arabaheiminn, lærði heilmikið. Vissi t.d. alls ekki að Óman væri sjálfstætt ríki. Veit ekki alveg hvað ég hélt að það væri, líklega borg "einhvers staðar". Og mér finnst ógnvænlega athyglisvert að bera saman lýsingar á Jemen og ýmislegt við Ísland. Nú verð ég bara að fá Insjallah fljótlega. Ekki það að mig vanti lestrarefni. Er með bækur í röðum sem bíða lesningar.
Fór í lítið þorp suðvestur af París í gær. Var nefninlega beðin um að fara með hóp þangað og fannst viturlegra að kíkja fyrst sjálf, það er alltaf erfitt að uppgötva hlutina með túristum sem treysta á mann, þó þeir viti af því fyrirfram. Eyddi yndislegum hlýjum og björtum degi í að skoða kastalarústir frá 11. öld, viðbætur frá 16. öld og skoðaði í búðarglugga á þessu fallega og vel verndaða þorpi sem fólk sem á pening býr í. Þar sá ég m.a. gúmmískó á 22 evrur. Venjulegir grænir (já, í Frakklandi fást ekki íslenskir venjulegir svartir og hvítir, heldur eru þessir venjulegu grænir) kosta 3 eða 4 evrur. Þessir voru hins vegar rauðir með hvítum doppum, alveg hrikalega sætir, en ég held ég myndi aldrei eyða 22 evrum í gúmmískó.
Það er samt gaman að skoða í búðarglugga sem ætlaðir eru ríkum konum. Allt svo fínt og fallegt og vandað. Smekklegt. Lekkert. Dúllulegt. Hrikalega hlýtur ríkum konum að leiðast stundum.
En ég mun setja ýmislegt um þetta fallega þorp inn á netsíðuna www.parisardaman.com bráðlega.
Um daginn fletti ég hratt yfir viðbjóðslega sjónvarpsblaðið sem við erum farin að kaupa. Þetta er sorprit með myndum af hálfnöktum sjónvarpsstjörnum framan á (alltaf aðeins of ungar, aðeins of ljóshærðar og aðeins of brjóstastórar) og fyrri helmingurinn er slúður um svona stjörnur. Ég reyndi einu sinni að lesa blaðið en hef aldrei reynt það aftur. Við kaupum það út af sjónvarpsdagskránni sem okkur finnst kurteislegra að lesa þó við horfum ekki lengur, stundum eru myndir sem þarf að taka upp, einstöku sinnum heimildarmynd sem vekur áhuga og hægt er að horfa á (erum hætt að taka upp áhugaverðar heimilidarmyndir því við vitum sem er að við horfum svo aldrei á þær).
Í blaðinu um daginn var eitthvað um ABBA, hvort það er að koma söngleikur til Parísar, eða hvort einhver stöðin var með þátt um þau veit ég ekki, en það sem stakk mig var lítill rammi með mynd af Agnethu og texti sem sagði að hún ætti við geðræn vandamál að stríða og þess vegna væri hún ekkert í sviðsljósinu. Þessi stutta afgreiðsla á manneskjunni truflaði mig eitthvað og þess vegna var ég himinlifandi yfir grein ÁJ í Lesbókinni og fegin að hún fær þar uppreisn æru. Held að það taki sig því miður ekki fyrir mig að snara greininni yfir á frönsku og senda þessum sorableðli, en mér er létt. Mjög góður punktur hjá manninum. Fjölmiðlaofsóknir hljóta að vera langerfiðasti hluti þess að vera frægur.
Langbest að vera enginn.
Á síðu EÖE (var ég búin að setja tengil á hann eða les ég hann alltaf í gegnum Mikka?) spyr hann um hvað á að gera í París. Ég gerðist frökk (hef svo oft haldið í mér að gera þetta og séð eftir því, að nú lét ég slag standa) og benti á mig. Og nú fæ ég svitakast af því að játa þetta hér. En merkilegast fannst mér að annar frómur bloggari SverrirJ segist geta mælt með ferð með mér. Ha? Hvenær? Ég er alveg bit. Fór svo hjá mér að ég stóð upp frá tölvunni og þorði ekki aftur að henni í gærkvöld.
Hvað er ég, spéhrædd og feimin, að láta allt vaða hérna á opnum vefnum? Hvað er ég að vera að þykjast vera eitthvað? Ætli það sé kominn tími til að hætta? Og enn og aftur þarf ég ekki að fá svör við þessu í kommentakerfið. Þið vitið jafnvel og ég að ég er gersamlega háð þessu bloggstandi. Og tengsl mín við Ísland og Íslendinga hafa stóraukist með þessu bloggbrölti. Og það er gott.
Lifið í friði.
<< Home