veikindi og kerfið ógurlega
Í mínu nánasta umhverfi eru tvær mæður sem eiga það sameiginlegt að hafa mikið kvartað yfir heilsuleysi barna sinna í vetur. Annað barnið er unglingsstúlka sem hefur trekk í trekk kvartað yfir eymslum í kvið, hitt er lítill strákur sem er sífellt með kvef og andateppu og hita og bara mjög mikill ræfill greyið. Bæði hafa verið hjá læknum stanslaust í vetur, og yfirleitt fengið sömu svör og sömu gagnslausu lyfja- eða sjúkraþjálfarameðferðirnar aftur og aftur þrátt fyrir mótbárur foreldranna.Í gær fékk ég skilaboð á símsvaranum um að verið væri að skera unglingsstúlkuna upp vegna botnlangabólgu sem hafði blundað í henni án eðlilegu einkennanna hita og sýkingar. Henni líður vel og móðirin trúir því að héðan í frá verði allt í lagi.
Í gær fór móðir litla drengsins með hann á enn nýjan spítala sem er víst með góða astmadeild. Þau eru þar enn, hann með leiðslur og snúrur í sér og virðist nú vera í góðum höndum lækna sem hlusta á foreldrana í staðinn fyrir að segja það sama og hinir þrátt fyrir mótmæli foreldranna um að það hafi hingað til ekki gert gagn. Við vonum að litli kútur fái nú rétta meðhöndlun og að líf fjölskyldunnar verði betra.
Það er alltaf jafn mikilvægt að muna hvað heilsan er dýrmæt. Hvað það er ómetanlegt að eiga heilbrigð börn. Það er alltaf jafn fáránlegt að heyra sömu sögurnar frá svo til öllum sem lenda í því að þurfa að sannfæra lækna um að eitthvað sé að börnum sem eru að þjást. Af hverju virðist alltaf þurfa að stappa niður fæti til að fá þessa sjálfsögðu þjónustu? Hvernig voga læknar sér að segja að ekkert sé að fyrir framan barn sem engist um af kvölum? Margir fræðingar sem skrifað hafa bækur um börn og meðferð þeirra segja mæður alltaf vita best hvað gengur að börnum þeirra. Samkvæmt móður minni hjúkrunarfræðingnum var þumalputtaregla hjúkrunarfólks lengi að taka alltaf mark á móðurinni. En sú regla passar alls ekki inn í fjársvelti og kapítalíska afkomureikninga heilbrigðisþjónustunnar í dag.
Lifið í friði.
<< Home