13.5.06

hagl

Hitabylgjusumarið ógurlega 2003 fór ég einn morguninn með hóp um Montmartre. Þar ríkti undarlegt ástand, öll laufin höfðu dottið af trjánum og lágu klesst á götunum þrátt fyrir dúndrandi hitann. Ég hafði engar skýringar á þessu en frétti svo síðar að þessa nótt hafði hrikalegasta risahaglél sem sögur fara af í París fallið á Montmartre eins og sprengjuárás. Skemmdir í þökum, brotnir gluggar og öll trén kviknakin eftir lætin.
Ég hef aldrei skilið svona hitahaglél, en eitt slíkt var að falla hér á hverfið rétt í þessu. Höglin ansi stór en laufin hanga nú enn á trjánum hér enda hafa þau fengið að drekka undanfarið og eru líklega betur undir svona búin en í ágúst 2003 þegar allur gróður var skorpinn og brunninn.
Hvað veldur svona hagléljum í hita? Vorum úti í morgun á stuttermabolum og ekkert í loftinu sem benti til þess að veðurspár um þrumuveður ætluðu að standast. Svo, þar sem ég sit hér við tölvuna, verður skyndilega niðamyrkur og haglél bylur á þakinu.

Lifið í friði.