22.5.06

Monet í metró

Þar sem ég sit í metró og les mér til um ævi Monet er stelpan við hliðina á mér að borða óviðurkvæmilega stóra langloku sem lyktar af majónesi og litli svarti karlinn gegnt henni situr með talnabandið sitt og þylur bænir. Ekki upphátt en við og við kemur undarlegt blísturshljóð upp úr honum. Hann kippist allt í einu til og byrjar að tala tungum. Kona sem stendur fyrir aftan mig og samlokustúlkuna svarar honum á sama óskiljanlega tungumálinu, vinkona hans og landi er þá að stíga inn í lestina rétt í þessu.
Ýmsum þykir metró erfitt og leiðinlegt. Ekki mér. Ég á yfirleitt í vandræðum með að fylgja söguþræði í bók, svo spennandi er að fylgjast með fólkinu koma inn á hverri stöð.
Svar japanskrar stúlku sem spurð er hvað henni þyki skrýtnast í París rifjast upp fyrir mér: Fólk borðandi á förnum vegi, gangandi um götur úðandi í sig mat. Þykir mjög óviðurkvæmilegt í Japan.
Íslenska fljóðinu mér þykir undarlegra að sjá mann biðja bæna á almannafæri. Fyrir mér eru bænir meira feimnismál en samlokuát.

Lifið í friði.