2.5.06

hjól í sól og gláp í skáp

Eins og hálfs tíma hjólatúr í dásemdarveðri, hlýju og sólríku en samt smá gola til að fullkomna þetta, dugði til að ná úr mér fýlunni.

Svar við einum af nokkrum tölvupóstum beið mín þegar ég kom til baka. Hin láta á sér standa.

Á leiðinni veiddi ég flugur með augum, munni og nefi. Ég sá andarunga aleinan á sundi á canalnum og rétt hjá honum flaut dauð rotta við vatnsyfirborðið. Ég sá tvær eldri konur algerlega uppstrílaðar og stífmálaðar úti að njóta sólarinnar svo sætar og glaðar að maður komst við. Ég sá mörg kærustupör og tvenn áttu það sameiginlegt að stúlkurnar voru rauðklæddar frá toppi til táar, víðar buxur, og önnur í peysu sem beraði alveg axlir, en hin í bol sem beraði naflann (er það ekki alveg úti núna?) og íþróttalegri treyju yfir. Allt eldrautt eins og varaliturinn minn var í denn. Afskaplega upplífgandi allt saman.
Nema flugnaveiðarnar. Þetta var orðið vandræðalegt þegar ég gat varla haft augun opin, svo erfitt var að gráta flugunum úr þeim. Líklega þarf maður að hafa með sér lítinn spegil og tissjú þegar maður fer í hjólatúr.
Það var ekki fyrr en ég tók Kára upp úr baðinu um kvöldið að ég tók eftir því að eitt líkið hafði klínst á augnalokið og legið þar það sem eftir var dagsins. Búin að hitta hálfan tug fóstra, tug barna og nokkrar mæður en enginn hafði séð ástæðu til að segja mér frá þessu. Kannski sást þetta bara sem "eitthvað svart fyrir ofan augað" og þótti ekki nógu merkilegt til að benda á.

Nú má þetta blessaða vor vera endanlega komið. Ekki fleiri kuldaköst hér takk. Ekki meira. Það er enginn smá munur að ganga með krakkana út án þess að þurfa að klæða í peysur, úlpur, húfur, vettlinga... en hverjum er ég að segja þetta?

Eftir langa íhugun um ísskápsopnanir er ég komin að þeirri niðurstöðu að ég geri það sama og EinarJ segir í kommenti hér að neðan. Ég opna ísskápinn þegar ég geng inn í eldhúsið og glápi inn í hann.
En stundum er það vegna þess að á hinni löngu leið að eldhúsinu er ég oft búin að gleyma til hvers ég fór þangað. Þá er eina í stöðunni að opna skápa og athuga hvort andinn komi yfir mann aftur. Oft gerist það að hann kemur bara ekki og ég geng til baka fram í baðstofu og man þá til hvers ég hafði verið í eldhúsinu og þarf aftur að leggja á mig ferðalagið þangað. Og nú gæti ég komið með byrjunina aftur en hlífi ykkur því. Segjum bara að t.d. hafi ég ætlað að taka úr vélinni.

Lifið í friði.