19.5.06

föstudagur enn og aftur

Ég bið guð og góðar vættir að vernda Ágústu. Ég get ímyndað mér að hún sé þreytt og að blendnar tilfinningar bærist í brjósti hennar.
Að öðru leyti er mér nokk sama um þetta allt saman. Ég hef enga sérstaka skoðun á því hvort fígúran gangi of langt eða hvort of dýrt sé að taka þátt í keppninni. En lagið fannst mér alveg þokkalega gott. Da da da...we're all out of luck... æ, nei, ekki það, ruglaðist smá... Eurovision nation... la la la la la la...
Ég vona bara að leikkonunni líði vel og að fólk verði ekki vont við hana út af þessu hlutverki sem hún tók að sér í þökk þjóðarinnar (a.m.k. þeirra sem kusu) og mér finnst óhugnalegt að sjá stundum illa talað um hana minnug þess að dúllurnar þægu sem hafa tapað öll hin árin urðu píslarvottar, fórnarlömb lélegs tónlistarsmekks óæðri þjóða, meðan núna virðast einhverjir telja að þetta sé "fraukunni" að kenna.

Þessi vika leið svo hratt að ég trúi varla að það sé föstudagur í dag. París undirlögð í fótboltabullum er ekki falleg París skal ég segja ykkur börnin góð. Troðfull af ropandi fituhlunkum í íþróttabolum, kellingum jafnt sem köllum.
Ógeðslega hallærislegt lið upp til hópa. Og ruddalegt.
Spánverjarnir sem horfa á fótbolta eru ekki þeir Spánverjar sem ég hef hingað til kynnst og fílað vel. Nei, þetta eru graðir tuddar sem bera minna en enga virðingu fyrir konum, sjá þær bara sem brjóst og píkur. Ég fæ hroll þegar ég minnist göngu minnar niður Champs Elysées á miðvikudag.
Mótmæli trúaða fólksins við kvikmyndahúsin á Odéon féllu gersamlega í skuggann af þessu lúðaliði. Þar voru sungnir sálmar og fólki meinaður aðgangur að miðasölunni. Því færri sem sjá Da Vinci Code, því betra. Annars ætla ég að sjá þessa mynd. Út af aðalleikkonuinni. Ekki Audrey Tautou, hún er voða sæt og mikið krútt en það væri nóg að sjá hana í vídeó. Nei, ég ætla að sjá París. Borgina mína fínu.

Síðasta föstudag bloggaði ég með Rás 2 á og karlinn sagði "bannað að keyra fullur". Ég held að af þessu megi draga þá ályktun að sumir ættu að hlusta meira á Rás 2.

Í kvöld er góð vinkona mín að fara á Verslóball, 100 ára afmæli þess arma skóla og hún 20 ára stúdent. Ballið átti að vera á laugardegi en því var breytt út af söngvakeppninni. Það finnst mér fyndið og enn fyndnara í dag þegar ég hugsa til þess að flestir horfi á keppnina á morgun með brostið hjarta, brotnar vonir.

Lifið í friði.