9.5.06

afmæli og meira um tæran straum

Ég átti víst bloggafmæli í gær. Til hamingju Ísland.

Annars hef ég verið að skoða Clearstream umfjöllun á Íslandi og hef eingöngu fundið eina frétt á mbl.is sem er nýleg og fjallar um að Villepin ætlar ekki að segja af sér út af þessu hneykslismáli sem nú er í algleymingi hérna í Frakklandi.
Hins vegar hafa íslenskir fjölmiðlar greinilega engan áhuga á þessari bankastofnun, Clearstream, sem er lúxembúrgísk miðlun með verðbréf fyrir aðra banka. Metafóran pípulagnir hefur mikið verið notuð hérna, Clearstream er lagnakerfi sem tryggir öruggt og gott streymi peninga milli mismunandi banka sem kaupa og selja hver öðrum verðbréf.
Clearstream er lögleg stofnun og alveg löglegt að eiga reikning hjá þeim, en rúmlega 2.000 bankar eiga viðskipti við þá. Væntanlega íslenskir bankar líka þó ég hafi reyndar aldrei séð íslensk nöfn á listum sem oft eru birtir í fréttatímum hérna. Mér finnst þó ólíklegt að íslenskar bankastofnanir taki ekki þátt í þessum miklu viðskiptum Clearstream.
En í 5 ár hefur franskur sjálfstætt starfandi blaðamaður og rithöfundur, Denis Robert, reynt að sýna fram á að Clearstream býður einnig upp á leynilega reikninga og að um þá fari illa fengið fé (t.d. mútur) sem er svo komið í umferð, svokallaður peningaþvottur væri því stundaður af Clearstream. Denis Robert hefur fengið nokkra fyrrverandi starfsmenn til að tala við sig, hefur skrifað tvær bækur og gert a.m.k. eina ef ekki fleiri heimildarmyndir um þetta og á í stöðugum málaferlum við Clearstream sem ákæra hann fyrir lygar og rógburð. Um daginn var hann dæmdur til að greiða þeim eina evru í sekt vegna einhverra ummæla sem ekki þóttu sannanleg. Hann bendir hins vegar á að Clearstream hefur aldrei ákært viðmælendurna, uppljóstrarana, sem hann telur sönnun á að allt sem hann veit sé rétt.
Auðvitað verður að koma með haldbærar sannanir, en það hefur ekki gengið og síðasta bók Denis Robert, La Domination du Monde, er í formi skáldsögu þó nokkuð ljóst sé að bókin fjalli um þetta mál sem hefur átt hug hans og hjarta í öll þessi ár.
Hneykslismálið með Villepin og Sarkozy sprettur af lista yfir leynilega viðskiptareikninga sem Denir Robert fékk upphaflega frá starfsmanni Clearstream. Hann lét annan mann hafa listann og þaðan hefur listinn borist frönskum ráðamönnum en töluvert breyttur, nafni Sarkozy hafði verið bætt inn og átti þannig að koma honum í vandræði. En þetta mál er hið leiðinlegasta og ég get alveg fyrirgefið íslenskum fjölmiðlum að fylgjast ekki náið með því.
Hins vegar væri spennandi að vita hvort blaðamenn hafi spurt sig spurninga varðandi þátt Íslendinga í þessu undarlega fyrirtæki, hvort einhver viðskipti séu og auðvitað helst, hvort einhverjir íslenskir aðilar gætu átt leynilega reikninga hjá þeim.
En þetta er svo sem alveg í stíl við franska fjölmiðla sem margir hverjir hafa látið duga að rakka Denis Robert niður, ásaka hann um ósannindi og óvönduð vinnubrögð í staðinn fyrir að hjálpa honum að rannsaka málið til hlítar.
Það er náttúrulega alltaf flókið að vera á launum hjá fjölmiðli sem er í eigu fyrirtækis sem stundar stórviðskipti við... tja, Clearstream?

Lifið í friði.