28.5.06

ditten og datten

Nú verður spennandi að sjá hvort sjálfstæðismenn muni standa sig betur í að þrífa göturnar í Reykjavík. Gangi þeim vel.

Ég er úrvinda eftir síðustu daga. Skemmtilegir en ferlega erfiðir, hljóp milli hópa, stórra og smárra. Skemmtilegt fólk og alls konar uppgötvanir en í dag líður mér eins og ég hafi verið á fjögurra daga fylleríi. Ekki það að ég hafi mikla reynslu af því að þurfa jafna mig á fjögurra daga fylleríi en það er svona sem ég ímynda mér að mér myndi líða. Tóm, stíf og ofurþreytt.

Hlaupabólan er nú ekki skemmtilegur sjúkdómur að eiga við. Sólrún var heppin, vægt hjá henni, slatti af bólum sem hún virðist ekki finna fyrir, hefur ekkert verið að klóra sér, enginn hiti og er bara sama hressa og fallega barnið (fegurðin kemur sko innan frá).
Kári er hins vegar svo óhugnalegur að móðirin kúgast ef hann hlær framan í hana. Á mjög erfitt með að horfa á hann svipbrigðalaus, hann er undirlagður í viðbjóðslegum kýlum, bólurnar virðast koma í knippum og mynda risastórar blöðrur út um allan líkama. Hann er með blöðru á gómnum sem lafir niður á tennurnar. Hann er búinn að vera með 39 stiga hita í þrjá daga og er mjög aumur og vælinn. Við fórum nú samt með þau út í garð í morgun, ásamt annarri hlaupabólusýktri fjölskyldu og vorum eins og holdsveikisjúklingar, fólk tók sveig framhjá okkur og bannaði börnum sínum að gefa sig að okkur. En krökkunum líður langbest útivið, eru að klepera á inniveru og þar sem hitinn er yfir 20 stig er nú bara sjálfsagt mál að viðra þau. Og sama er mér þótt þau smiti önnur börn, þurfa hvort sem er að fá þetta einn góðan, er það ekki?

Ég er ferlega svekkt yfir því að þurfa að hafa þau heima á morgun, þarf svo innilega á almennilegri hvíld að halda og svo þarf ég að undirbúa næstu helgi en þá kemur mamma ásamt sjö systrum sínum og dætrum þeirra í heimsókn.
Fyrst verður kokkteill og hressing hér og svo fer ég með þeim á hótel og verð með þeim þar alla næstu helgi. Gisti í fyrsta sinn á hóteli í París síðan á Inter-rail ferðinni 18 ára gömul þar sem ég gisti á svo huggulegu hóteli að það voru blóðblettir í lökunum og sturtan var beint yfir vaskinum þannig að maður þurfti að beygja sig yfir hann til að fá bununa á höfuðið.
Við komum hingað græn og ung og bjartsýn og skunduðum á farfuglaheimilið þar sem okkur var sagt að það hefði átt að panta með nokkurra mánaða fyrirvara. Maðurinn í afgreiðslunni var svartur og fór allt í einu að snakka við okkur á sænsku. Hann benti okkur á þetta hótel en bannaði okkur að segja hver hefði bent á það. Þegar við mættum spurði konan í móttökunni einmitt stíf og ströng að því hvernig við hefðum fundið þau. Við glenntum upp bláar glyrnurnar og lugum sakleysislega að við hefðum bara séð það af götunni, dauðhrædd um að okkur yrði vísað á dyr. Hef aldrei fundið þetta hótel aftur. Leitt að geta ekki mælt með því á netsíðunni minni.
Það var gaman að pönkurunum í herberginu á móti sem bjuggu þarna og þvoðu gallabuxurnar sínar í höndunum og þurrkuðu út um gluggann ásamt naríum og sokkum. Hver segir að pönkarar séu subbur? Mér finnst pönkarar, svona alvöru pönkarar sem dressa sig upp og eru með hanakamba eða aðrar ögrandi hárgreiðslur alltaf mjög spennandi fólk. Sá einmitt hóp af extra flottum pönkurum um daginn og fór að hugsa um það hvernig standi á því að ég þori aldrei að klæða mig mjög djarft.

Hvernig gengu mótmælin annars í gær? Hef ekki séð neitt um það á fjölmiðlavefjum, né á bloggum.

Farin að pússa spegil.

Lifið í friði.