4.5.06

sólgleraugu

Fór um daginn með mömmu á rokna góðgerðasamtakasölu í París. Ýmsir misþekktir hönnuðir höfðu gefið gamalt dót og gömul föt sem voru seld til að hjálpa fátækum. Við fórum að sjálfsögðu eingöngu til að styrkja málefnið, ekki að við hefðum nokkurn áhuga á að kaupa hræódýra hönnun eða neitt slíkt.
Við komum eftir hádegi og allar flíkur í eðlilegum stærðum voru farnar. Ég hefði t.d. getað fengið strigaskó á 3 evrur ef ég væri ekki í 36, hér er þetta öfugt við heima, þar er oftast eftir par í 36. Og svo höfðu verið þarna fullt af konum í eðlilegum stærðum (margar arabískar og svartar, þær eru minna anorexískar að eðlisfari en þær frönsku), með væna rassa og framstæða maga og höfðu greinilega tæmt fatadeildina af öllu sem gat passað svo nú stóðum við þarna eðlilegar eftirlegukindur og horfðum öfundaraugum á mjóslegnar verðandi fyrirsætur (eða dópista - harður heimur) máta skrýtin föt. Sumt var nú reyndar svo ljótt að maður hefði getað grátið. Þarna voru t.d. snjóþvegnar (eða sjó? hef aldrei vitað hvort það er) gallabuxur og gott ef það voru ekki smelluskreyttir jakkar við. Ef maður byggi í stærra húsnæði hefði maður nú getað keypt ýmis furðuföt handa börnunum að leika sér í.
En ég keypti mér forláta sólgleraugu fyrir 3,5 evrur. Þau montuðu sig af því að vera frá sama fyrirtæki og hönnuðu matrixgleraugun hvað sem það nú svo þýðir. Þau voru afskaplega fín á mér og takið eftir að ég skrifa í þátíð.
Ég fór með þau einu sinni út og þá voru þau flúin úr mínu lífi.
Það er eitthvað með mig og sólgleraugu sem á ekki saman. Í fyrsta lagi finnst mér óþægilegt að nota sólgleraugu og í öðru lagi þá flýja þau alltaf úr minni vist.
Fersk eru mér í minni sólgleraugun sem ég átti sem lengst. Þau komu úr skattholinu hennar ömmu þegar hún flutti í "þjónustu"íbúð og þurfti að grisja. Ferlega smart og þægileg og lítil og mér tókst að hafa þau hjá mér í marga marga mánuði. Og leið alltaf eins og stjörnu þegar ég setti þau upp. En svo var ég í bænum og fór að horfa ofan í Signu og beygði mig eitthvað fram yfir handrið brúarinnar og... ég get ekki talað um þetta. Segjum bara að margur fjársjóðurinn liggur á Signubotnum.
Erla Hlyns segir að ég geti leyst flugnahjólavandamálið með sólgleraugum. Ég er að spá í einu, er ennþá hægt að fá svona skíðagleraugu eins og maður var með sem barn? Mjúk með svampi allan hringinn og breiðri þægilegri teygju. Hægt að beygla þau svo ég get alltaf stungið þeim í töskuna mína og þarf ekki að leggja þau varlega frá mér á afgreiðsluborð sem er örugg leið til að týna þeim. Er svoleiðis til ennþá eða þarf ég að fara að þræða "vintage"góðgerðarsölur um allan heim í veikri von um að finna ein slík? Ég vil helst Salomon því mig minnir endilega að mín hafi heitið það. Eða Nordica?

Lifið í friði.