26.5.06

bréfið frá Andra

Þetta er bréf sem Andri Snær Magnason skrifaði á Náttúrvaktina. Set það hér inn í dag fyrir þau sem ekki hafa fengið þetta sent í tölvupósti.

Mikilvægustu kosningar aldarinnar?


Næstu tvennar kosningar eru einhverjar þær örlagaríkustu sem fram munu
fara á Íslandi næstu áratugi vegna þess að þær snerta
grundvallarákvarðanir sem munu marka líf okkar, umhverfi og stjórnmál
næstu áratugi. Einmitt um þessar mundir er verið að taka þá ákvörðun
hvort Ísland verði stærsta álbræðsla í heimi eða ekki.



Yfimenn Alcan hafa gefið til kynna að verksmiðjunni verði lokað nema hún
fái að vaxa upp í næstum því 500.000 tonn, það er kallað stækkun en
þreföldun er nærri lagi. Þegar álverið í Straumsvík hefur þrefaldast
verður það næstum því jafn breitt og það er langt og það mun fylla upp í
svæðið beggja vegna Reykjanesbrautar. Það á að verða heill ferkílómeter
að stærð og það tæki rúma klukkustund að ganga í kringum það. Í blöðum
stendur að hlutfallsleg mengun muni minnka. Ef dulmálið er afkóðað kemur
í ljós að gróðurhúsalofttegundir aukast sem nemur öllum bílaflota
Íslendinga. Heimiluð aukning á brennisteinsdíoxíði úr 3500 upp í 6900 tonn
á ári. Sjónmengun er ekki hægt að mæla í prósentum en á kyrrum dögum
ætti þessi mengun að verða öllum ljós.



Fjölmiðlar hafa ítrekað brugðist skyldu sinni. Álpartíið fræga á Húsavík
var til dæmis skipulagt af Gísla Sigurgeirssyni fréttamanni RÚV. Hann
smalaði fólki saman og fréttin sem virtist koma í ,,beinni útsendingu"
hafði löngu borist um bæinn. Þetta var leikrit og Gísli samdi jafnvel
slagorðin, ,,álið er málið" sem fólkið galaði eftir hans leiðsögn.
Jafnvel hörðustu áhugamenn um álver fengu aumingjahroll við að horfa upp
á þetta en þennan dag dó lýðræðið á Húsavík. Þaðan í frá töluðu
fjölmiðlar um ,,vilja Húsvíkinga". Þetta ástand var skapað af opinberum
fjölmiðli áður en nokkuð hafði verið rannsakað eða rætt, áður en arðsemi
var ljós, áður en reynsla var komin af framkvæmdum, ráðningum eða mengun á
Austurlandi, hvað þá hvort Kárahnjúkavirkjun nái yfirleitt núlli. Menn
fjalla ekki um aðalatriði málsins, að álverið á Húsavík er aðeins hálft
álver. Það mun þurfa að tvöfaldast í framtíðinni en enginn vill ræða
hvaðan sú orka á að koma. Jökulsár Skagafjarðar og Skjálfandi hafa þegar
verið eyrnarmerktar verksmiðjunni en það dugar ekki nema upp í 360.000
tonn. Þrátt fyrir öll vafaatriði er látið eins og ákvörðun á Húsavík sé
formsatriði og búin er til tímapressa og neyð. Alcoa stendur fyrir
fundum sem höfða til skammtíma gróðavonar einstakra hagsmunaðila. Þessi
skák hefur verið leikin margsinnis um allan heim: Láttu heimamenn ná niður
orkuverðinu.



Þrátt fyrir að íslenska ríkið hafi fært Alcoa milljarða í beinhörðum
peningum, skattaafsláttum, niðurgreiddu rafmagni og náttúruverðmætum þá
fær Alcoa að eigna sér þjóðgarðinn sem á að ná frá Skaftafelli niður
Jökulsárgljúfur fyrir litlar 20 milljónir. Hér eftir verður allt
myndefni af þessu svæði til reiðu í kynningarefni Alcoa og fyrirtækið
getur sagt heiminum að öll þessi fegurð sé Alcoa að þakka. Þetta er eins
og Bílaverkstæði Bödda fengi að nota Björk ókeypis í öllu kynningarefni
þrátt fyrir að eigandinn hafi nýlega bakkað yfir hana. Fyrirtæki sem
stendur í mestu eyðileggingu á náttúrugersemum á Íslandi verður tákn
fyrir verndun. Írónían er auðvitað sú að ekkert ógnar þessum svæðum nema
einmitt áliðnaðurinn. Versti markaðsfræðingur í heimi getur séð að
stórfyrirtæki ætti að borga milljarða fyrir að vera opinber verndari
höfuðdjásna Íslanda og enn meira ef fyrirtækið er þekkt fyrir mengun og
eyðileggingu.


Stjórnmálamenn og fjölmiðlar virðast ekki hafa ímyndunarafl til að sjá
eða sýna okkur hvert þjóðin stefnir. Leiðin til álnauðar er vörðuð góðum
ásetningi.


Nú þegar stefnir í að ársframleiðsla verði um 1.5 milljón tonn með
álverum á Reyðarfirði, Hvalfirði, Húsavík og Helguvík og þrefaldri
Straumsvík. En fjögur þeirra munu vilja eða neyðast til að tvöfaldast í
framtíðinni. Það væri blekking að ímynda sér annað. Rannsóknir í
Skjálfandafljóti, Héraðsvötnum, Kerlingarfjöllum, Torfajökulssvæði og
Langasjó staðfesta hvert orkufyrirtækin stefna og að tæknileg markmið
eru komin upp í tvær og hálfa milljónir tonna. Sú staðreynd að
Þjórsárver eru á ís sanna þennan vilja, annars væru þau sjálffriðuð.
Orkufyrirtækin vilja gera Ísland að stærstu álbræðslu í heimi, á því
leikur enginn vafi, verktakar vilja það, ASÍ vill þetta,
Sjálfstæðisflokkurinn vill þetta, Framsóknarflokkurinn vill þetta og
Samfylking hefur spilað með um allt land.


Century sem rekur álverið á Grundartanga er örfyrirtæki, það gæti
auðveldlega runnið inn í Alcoa samstæðuna. Þá mun Alcoa eiga fjórar
verksmiðjur á Íslandi sem allur munu þurfa að tvöfaldast. Hvert leitar
slíkt vald og slíkur vilji? Á meðan forstjóri Össurar þarf ekki að ganga
í miðstjórn framsóknarflokksins til að hanna betri gervilimi og Marel
þarf ekki á velvild ráðherra að halda til að þróa betri vinnslulínu, á
meðan allt hið skapandi afl á Íslandi leitar í útrás, þá mun ál og
orkiðnaðurinn standa í innrás og leita í pólitík enda byggist vöxturinn
á aðgangi að helgustu véum þjóðarinnar og þetta vald mun stýra
samningagerð okkar í loftslagsmálum.


Enginn fjölmiðill hefur viljað birta okkur í hvaða átt við erum að fara.
Væri æskilegt að einn og sami aðili eignaðist fjórar verksmiðjur á Íslandi
sem allar vilja stækka? Og þegar þau hafa stækkað, munu þau ekki vilja
stækka? Er opið bókhald hjá stjórnmálaflokkum?


Kerlingarfjöll, Þjórsárver, Reykjanesið, Friðlandið að fjallabaki,
Langisjór, Skjálfandafljót og Héraðsvötnin, allt þetta geta stjórnmálamenn
látið af hendi á næstu árum. Ef valdið er tafl þá eru venjulegir
sveitarstjórnarmenn látnir glíma við stórmeistara í samningagerð sem hafa
snúið á stjórnvöld og haft áhrif á lagasetningu í stærstu ríkum
veraldar. Á móti þessum stórmeisturum spila ráðamenn lúdó. Bisnessvit
þeirra verður ekki í askana látið.


Leiðin til álnauðar er vörðuð góðum ásetningi. Þótt hver í sínu horni sé
velviljaður er heildarmarkmiðið hrein yfirlýsing um fjandsamlega
yfirtöku á íslensku atvinnulífi og náttúru. Næstu kosningar eru
mikilvægustu kosningar Íslandssögunnar. Við erum að kjósa um það hvert
Ísland stefnir. Á laugardag ætla þúsundir Íslandsvina að ganga niður
Laugaveg klukkan 13:00 ásamt mörgum helstu tónlistarmönnum þjóðarinnar og
mæla þannig með annarri framtíðarsýn.