20.5.06

Ísland í Figaro

Í gær var baksíða Le Figaro, eins af stóru blöðunum hérna, helguð Íslandi og Silvíu Nótt. Það er nú fínasta landkynning og greining blaðamannsins þrykkjufín, bendir m.a. á að íslenska þjóðin líti á Söngvakeppnina sem eins konar Nóbelsverðlaun í tónlist. Ekki fjarri sanni miðað við hvað okkur langar mikið að vinna.
Frakkar líta ekki einu sinni niður á þessa keppni, þeir bara vita hreinlega ekki að hún er til. Fyrir utan þröngan hóp af fólki sem aðhyllist kitch (oft samkynhneigðir karlmenn) og vitanlega alla innflytjendurna frá litlu minnimáttarkenndarlöndunum. Sem Íslendingur hérna hef ég sjaldan mætt skilningi á "áhuga" mínum, nema hjá hommunum. Öðrum finnst það alltaf jafn ótrúlegt að ég skuli minnast á þetta fyrirbrigði, enginn veit hver keppir fyrir Frakkland, ekki einu sinni ég.
Öll landkynning er góð er það ekki? Silvía náði a.m.k. því sem enginn annar keppandi náði, að fá heila stóra grein um sig í frönsku blaði. Það hlýtur ákveðinn sigur að felast í því.

Annars fór ég í bíó í dag og sá Ísöldin 2. Ferlega ekki nógu skemmtileg, mest gaman að horfa og hlusta á krílin. En á undan myndinni voru náttúrulega 20 mínútna auglýsingar. Þar var m.a. auglýsing frá Írlandi. Um Írland og hvað það er fínt að ferðast þangað. Fyrst eru flottar náttúrumyndir sem hefðu allt eins getað verið frá Íslandi. Auglýsingin endar svo á skoti upp og niður líkama fallegrar konu og einhver orðaleikur um að Írland sé svo fallegt að maður gæti étið það eða eitthvað álíka gáfulegt. Nú langar mig að vita hvort sama auglýsingastofa hafi verið notuð og þegar Ísland var auglýst fullkomið fyrir einnar nætur gaman og annað skemmtilegt.

Ég var ein heima í kvöld eins og flest undanfarin kvöld þar sem maðurinn minn hefur farið og passað stelpurnar fyrir nágrannanna, litli kúturinn sem ég minntist á um daginn er ennþá á spítala og nær ennþá ekki að dæla nógu súrefni út í blóðið svo slæmur er astminn.
Ég hafði val um að horfa á söngvakeppni eða mynd með Catherine Frot og André Dussolier byggðri á sögu eftir eina af goðunum mínum, Agöthu Christie. Ég þurfti ekki að hugsa mig lengi um. En eftir myndina stillti ég yfir á þristinn og sá Carolu hina sænsku druslu syngja lagið sitt. Og ég sé ekki eftir vali mínu. Ferlega skemmtileg mynd og ég varð skíthrædd.

Og nú er ég farin að sofa. En ekki svefni hinna réttlátu. Allt of mikið rok hérna til þess.
Og draugarnir og morðinginn úr myndinni eru enn ljóslifandi í huga mér.
Vakna örugglega á hálftíma fresti í alla nótt.
Dettur samt ekki í hug að horfa á stigagjöfina enda held ég ekki með neinum og veit ekki hvort Ísland fær að gefa stig. Eða jú, Hildigunnur var að hvetja fólk til að veita einhverri minnimáttarkenndarsmáþjóð stig svo við hljótum að vera inni í því. Fær þá Eva María að vera með en ekki Silvía? Æ, ég nenni samt ekki að bíða eftir því, ég er nú ekki alveg svona aðframkomin af söknuði eftir íslenskum hreim.
Reyndar er ég með hugmynd fyrir næsta ár: Láta lagið sem varð að ég held númer tvö núna, fara. Flott söngkona, mjög fallegt lag, vera berfætt og temmilega álfaleg og við hljótum að hlunkast upp úr þessari forkeppni sem við virðumst annars vera dæmd til að vera í það sem eftir er.

Lifið í friði.