30.6.08

sól og hiti

Bráðnudagur í dag og bráðnudagur á morgun. Svo á víst að koma rigning en ég trúi því samt ekkert.

Lifið í friði.

29.6.08

maður mín

Skrifin um Tyrkina og búlluna eru svo væmin að ég var næstum búin að henda allri helvítis síðunni í ruslið þegar ég renndi yfir hann áðan. En reglan er að láta allt standa nema ég hafi sært einhvern með þvælunni.
Mig langar að hafa eitthvað aðeins harðara og svalara ef svo undarlega vill til að einhver ráfi hingað inn í fyrsta skipti í dag. Þetta er líklega gersamlega sambærilegt við það sem ég heyrði einhvern tímann frá Heiðari snyrti um að kona ætti alltaf að vera vel tilhöfð, líka heima hjá sér, því hún gæti aldrei vitað hvenær maður lífs hennar berði að dyrum.
(berði?)

Í dag prófaði ég að skjóta viljandi gneistum í átt að konu og það virkaði. Samt var hún frekar langt í burtu. En hún tók alla vega upp tissjúið sem hún hafði hent í jörðina og fór með í ruslið. Kannski fauk tissjúið bara fyrst og hún er enn að spyrja sig hvað hafi gengið að blondínunni sem var með augu sem skutu gneistum að henni.

Lifið í friði.

búllur og stemning

Eftir morgunævintýrin í nýju klifrugrindinni í almenningsgarðinum ákváðum við foreldrarnir að vera viðurstyggilega löt og fara og fá okkur hádegisverð hjá Tyrkjum sem reka litla búllu í hverfinu. Staðurinn er skemmtilega sjabbí, innréttingar dálítið lúnar, reynt að fela það með ljósaseríu sem virkar ekki lengur, gamlar flísar sem var líklega ætlað að skapa allt annað en tyrkneska stemningu, skrautlegir dúkar á borðum með blómaskreyttum hálfgagnsæjum plastdúkum ofan á sem mynda undarlega kaótískt munstur saman. Maturinn er mátulega löðrandi í góðri fitu, gott bragð af grjónunum, harissa-sósan brennir kinnar. Gamli karlinn staulast um og heilsar fólki, greinilega barngóður, brosir með öllu andlitinu til okkar, kerling er í litfögrum fötum, með fallega slæðu á höfðinu, greinilega hún sem valdi dúkana á borðin, drengurinn er með töffaraklippingu og þegar hann fer úr kokkajakkanum er hann í tískubol undir. Ég veit ekki hvort hann er sonur eða barnabarn, hef brennt mig á því að fólk sem hefur lifað tímana tvenna virðist stundum mun eldra en það er. Öll eru þau vingjarnleg en samt einhvern veginn þögul, hæglát. Afgreiðslan gengur hratt og vel fyrir sig og þau nota alvöru hnífapör og diska, engin plast- og pappírssóun hér. Ég fíla svona heimilislegar búllur alltaf alveg hrikalega vel. Þúsund sinnum betra, fallegra, mannlegra og meira spennandi en gervistaðir á borð við McDo.

Lifið í friði.

27.6.08

nokkrar auglýsingar

Kvennaferð á fótboltaleik í september
Kvennafótboltinn blómstrar sem aldrei fyrr. Það er byrjað að skipuleggja litla kvennaferð til Frakklands fyrir leikinn hér 27. september. Allar áhugasamar geta sent mér tölvupóst.

Kisupössun í París
Tvær dekraðar Parísarkisur óska eftir pössun í miðborg Parísar frá miðjum júlí til ágústloka. Íbúðin er vel staðsett í 8. hverfi, 3ja herbergja og útbúin öllum þægindum. Í staðinn óskast afnot af bíl í Reykjavík.
Hafið samband við Helgu s. +33 1 42 66 40 23, gsm. +33 6 16 74 03 04 eða hbjornsson(hja)gmail.com

Óska eftir herbergi til leigu í Reykjavík

Frönsk námsmeyja er að koma í starfsþjálfun í Ljósmyndasafni Reykjavíkur í ágúst og september. Hún óskar eftir herbergi til leigu sem ódýrast og vill helst fá að búa með Íslendingum. Hafið samband við Marie Delanoë s. +33 6 66 65 71 00 eða marie.delanoe(hja)gmail.com

Lifið í friði.

26.6.08

Rólega vikan, einmitt það já. Það tekur bara heilmikið á að dekra við sig og hlúa að vinum og sambandinu við þá. Þó að vikan hafi hafist á loforði um að hætta að drekka hef ég skálað á hverju kvöldi.
Svo er ég líka alltaf einhvern veginn í vinnunni. Tilboð fyrir haustferðir, göngutúrar og sitthvað smálegt. Ég breyttist t.d. skyndilega í týpuna sem talar í farsíma á hjólinu sínu. Reyndar stoppaði ég um leið og það var hægt, en símtalið var ægilega mikilvægt og gat ekki beðið. Ég er sem sagt mjög mikilvæg. Það er og. (Hvaða skrípi er þessi "setning", hvaðan kemur hún?)

Ég þarf að fara út úr húsi eftir 20 mínútur og ligg enn í rúminu. Hættið að trufla mig, rekið mig fram úr, hafragrautur í örbylgjuna á meðan ég skola ilmolíuna úr hárinu og kæli mig aðeins niður. Svo úða ég grautnum í mig um leið og ég klæði mig í hörbuxur og stuttermabol. Svo er ég rokin. Og núna hef ég 18 mínútur.

Lifið í friði.

24.6.08

rólega vikan

Rólega vikan er samt einhvern veginn bissí. En í dag er ég nú bara bissí í dekrinu, fyrst verð ég lituð hvíthærð aftur og svo tekur osteó-hnykkjarinn mig og vindur upp á mig og lætur braka í öllum liðum og ég verð eins og ný manneskja þegar ég tek á móti fólki í mat í kvöld. Mig langar að spyrja hvað ég á að hafa í matinn, en ég mun ekki kíkja á svörin fyrr en ég verð komin heim með gróseríið - djók, matinn svo ég hlífi ykkur. Ætli ég reyni ekki að fá glænýjan fisk og fullt af grænmeti?

Ég er búin að ákveða að henda lúsugu myntunni minni, sem ég ræktaði stolt á eldhúsborðinu. Ég sem var orðin alger sérfræðingur í líbönsku tabúle:

Fullt af ferskri myntu þvegin og söxuð smátt með hníf eða skærum
Fullt af ferskri steinselju þvegin og söxuð smátt með hníf eða skærum
Ætli þetta séu ekki svipuð búnt þar og hér? Ca eitt búnt af hvoru.

3 tómatar teknir og skornir í örfína teninga. Það má alveg hafa innvolsið með, en flottast er þó að tæma þá af því m.þ.a. skera þá í tvennt og taka innan úr þeim með skeið. Skera svo hitt í fína teninga.

Vorlaukar, nokkur stykki teknir og saxaðir mjög smátt (ég nota rafmagnstæki).

Sjóða á meðan þú stússast með grænmetið eina væna lúku af búlgúr eða cous cous korni eftir leiðbeiningum.

Þessu er blandað saman og vætt vel í með góðri ólífuolíu og sítrónusafa. Má salta og pipra ef óskað er. Salatið á að vera mjög grænt. Enda er slíkt alltaf vænt.

Lifið í friði.

21.6.08

hiti

Það verður heitt í París í dag. Og fullt af tónlist út um allt. Ég er að fara á kórtónleika. Svo kem ég börnunum til afa og ömmu og rýk í vinnuna.
Það er nú dálítið gaman að lifa. En í hverju á ég að vera?

Lifið í friði.

20.6.08

heimski tannálfurinn og breytingar á fjárlögum

Nú kom hann með peninginn, en tók ekki bréfið sem hún hafði skrifað honum, það tek ég alfarið á mig, var örugglega ekki alveg að hlusta á hana þegar hún sagði mér að hún hefði skrifað bréf til hans, ég var nefninlega ógurlega upptekin af því að vorkenna sjálfri mér í gær.

Það er búið núna. Ég ætla að redda þessu máli, hvernig sem ég fer að því og ef lykillinn finnst einhvern tímann verður hann bara settur í minningakassann og hlegið að sögunni síðar.

Hvernig fer fólk að sem þjáist af sjálfsvorkunn og vonleysi út í eitt, jafnvel árum saman? Ég er alveg búin eftir einn svona dag.
Verst að þetta var einmitt fyrsti svona alvöru náðugi dagurinn sem ég hef átt lengi. Hlusta á útvarp, lesa blöðin í rólegheitum og án samviskubits, leggjast í freyðibað. Alltaf lá lykilhelvítið yfir eins og skuggi. Ég heiti því að eiga annan svona náðugan dag fljótlega, ég finn hvernig áreiti ferðalanga er að hjaðna og júlí verður að öllum líkindum nokkuð daufur. Hann skal nýta í skriftir og hugleiðingar, og átti að blanda inn í það framkvæmdir á heimilinu, en þeim verður kannski frestað um óákveðinn tíma og keyptur nýr bíll, ætli verð á blikkbeljum sé ekki að hrynja hér eins og þar?

Lifið í friði.

19.6.08

bleikur dagur blár

það er víst bleikur dagur í dag, ég er bara blá

Ég reyndi að horfa á Cold Case í sjónvarpinu, geri stundum sjónvarpsglápstilraunir þegar ég er ein á kvöldin. Ég hef aldrei vitað annan eins hroðbjóð, það er allt leiðinlegt við þessa þætti, persónurnar slakar, þráðurinn bara tilfinningarunk, léleg taka og aulahrollaleg notkun á tónlist.
Svo byrjaði ég á bók í gær sem mér líst ekkert sérlega vel á, nenni varla að halda áfram með hana. Átti ég ekki að fá lánaðar einhverjar eðalbækur einhvers staðar? Og á ekkert að senda mér eintak af nýjasta Einari Má Jónssyni um maí 68?

Bíllyklar eru enn týndir og ég er eiginlega búin að gefa upp alla von. Ég hef leitað í öllum skúffum, skápum, hornum og hólfum í íbúðinni. Held ég. Reyndar er ótrúlegt magn af hólfum í svona smáum úttroðnum íbúðum. Og ótrúlegt magn af ryki sem mér tókst að moka út um við leitina. Nú fer vinnurykið frá því í vor alveg að verða farið endanlega. Bráðum.

Síðustu nótt hrökk ég upp við martröð, ungur drengur kom hlaupandi inn í íbúðina mína (sem var allt öðruvísi en sú sem ég á í raunheimum) á nærbrók og blóðugur. Ég tók utan um hann og hann hljóðaði: "Ekki láta þá fá peninga!" Ég sá þá skugga bregða fyrir og vissi að frammi á gangi væri einhver hættulegur glæpamaður sem myndi ráðast á okkur og vildi fá peninga. Ég hugsaði fyrst að það væri ekki séns að ég léti hann fá eitthvað, en í svefnrofunum tókst mér að róa mig niður með því að auðvitað hefði ég látið hann fá allt og við drengurinn hefðum alveg bjargast.
Á leið inn í draumaheima á ný mundi ég eftir blessuðu tannálfahlutverkinu, fór og náði í tönnina og stakk tveggjaevrupening undir koddann í staðinn. Getur það mögulega verið að ég hafi tekið peninginn aftur með mér fram? Eða var glæponinn úr draumnum þarna með mér og tók hann? Hann virðist alla vega ekki vera nokkurs staðar í herbergi barnanna. Ég verð því að stinga aftur pening undir koddann núna. Og mun halda mér vakandi í nótt til að tryggja að hann hverfi ekki aftur. Eða ekki.

Lifið í friði.

lesbók

Ekki heldur þar. Né í freyðibaðinu.

Lifið í friði.

útvarp reykjavík, útvarp reykjavík

sumarblússur, sumarpils

skyndilokun númer þrjátíu

þá er gengi nokkurra gjaldmiðla

veðurfréttir verða næst sagðar


en útvarpið finnur ekki bíllyklana, sér einhver þjóðlega klæddan dreng í sauðskinnsskóm?

Lifið í friði.

álfar

Í nótt kom tannálfurinn til Sólrúnar með 2ja evru pening og skipti á honum fyrir tönn. Ég veit það, ég var þar.
Í morgun er lítil stúlka með tár á hvarmi, engin tönn en ekkert í staðinn. Hún er sannfærð um að litla músin (franski tannálfurinn er mús) hafi verið hrædd við kisuna sem hún sefur með. Ég er að bilast. Peningurinn er hvergi. Ekki bíllyklarnir heldur.

Lifið í friði.

18.6.08

hestur í hverjum garði

Ef ég byggi á Íslandi, byggi ég líklega í Breiðholtinu því ég á ekki fyrir íbúð í "fínna" hverfi. Ef ég byggi á Íslandi einmitt núna, myndi ég alvarlega íhuga það að fá mér hest. Hvernig fer þegar fólk hættir að geta keypt bensín á bílinn? Á það þá bara að hætta að mæta í vinnuna, eða ganga úr Breiðholtinu niður í bæ? Væri hægt að kæra borgaryfirvöld fyrir slælegar almenningssamgöngur?
Þetta er alvörumál. Bensín mun hækka hratt á næstunni.

Annars er það af mér að frétta að ég á að mæta með bílinn í tryggingaskoðun á morgun. En ég finn hvergi lykilinn að honum. Það er líka orðið alvörumál. Ég notaði hann síðast á fimmtudaginn var.

Lifið í friði.

Er eðlilegt að stela?

Á dögunum benti Þórdís á viðtal í einhverju dagblaðanna þar sem leikkona segir frá því að hún skreyti íbúðina með fallegum blómum úr beðunum við Reykjavíkurtjörn eins og ekkert sé athugavert við það.
Og þetta má lesa í maí-hefti fría glansblaðsins HÚN (athugið að nafnið er líklega þjófnaður, nema keypt hafi verið leyfi af ELLE?): "Kínahverfið í New York er til dæmis sérlega góður staður fyrir konur í merkjaleit. Þar er hægt að fá glænýjar töskur frá öllum helstu tískuhönnuðum heimsins. Mikilvægt er að skoða töskurnar vel enda eru gæðin misjöfn og sami sölumaður getur verið með ódýrar eftirlíkingar og ósviknar töskur. Þær ósviknu komast oftast í hendur sölumanna í gegnum verksmiðjustarfsmenn sem smygla þeim út úr verksmiðjunum og selja þær ódýrt."
Eins og ekkert sé eðlilegra, bendir blaðakonan sem sagt á að sniðugt sé að geta keypt þýfi á götumarkaði í New York. Skyldu íslenskir verslunareigendur sem selja hátískuvörur hafa gert athugasemdir?

Lifið í friði.

16.6.08

mánudagsmorgunn í rúminu

Eini gallinn við að vinna í tölvunni uppi í rúmi með kaffibollann á náttborðinu er að ég á það til að fá sinaskeiðabólgu af því.

Annað sem ber að varast á mánudagsmorgni í rúminu, áður en farið er að hita hafragraut, er að detta í lestur á uppskriftum. Garnagaulið yfirgnæfir hanagalið í Copavogure.

Sólin skín, fuglar tísta, trén bærast ekki í logninu. Maður gæti haldið að þetta yrði góður dagur. Ekki er þó útséð með það, rigningarspáin stendur víst. En ég fer samt með kampavínsflösku og glös í gönguferðina í dag. Við Íslendingar, kraftmikil, hraust, stolt af sögu okkar og menningu, látum ekki skítaveður á okkur fá. Við skálum bara á franskan máta í íslensku veðri eins og allt sé í fínasta lagi. Er ekki annars allt í fínasta lagi?

Lifið í friði.

15.6.08

ég gæti

Ég gæti skrifað margt um frönsku familíuna mína, en eitthvað stoppar mig þó ég geti verið nokkuð viss um að þau geti ekki skilið skrifin. Maður veit aldrei.
En djöfull er ég samt nálægt því að afhjúpa sápuóperu uppskrúfaðrar búrgeisafjölskyldu frá París. Hommi sem dó úr eyðni, kona sem hélt framhjá og öll fjölskyldan á stanlausum símafundum út af því, ólétta hjá giftu pari en samt einhver óvissa með hvort á að halda eða eyða og aftur símafundatímabil og þó geymi ég það allra skrýtnasta.
Ég er ekki bara óþægilega meðvituð um hvað ég hef það gott heldur finnst mér ég líka stundum alveg hrottalega venjuleg og óspennandi manneskja.

Annars hef ég verið að lesa hjartnæm ljóð. Skil sum, ekki öll, alltaf gaman að kynnast nýjum skáldum, takk fyrir mig.

Lifið í friði.

Ég legg ekki meira á ykkur

Í dag er ég í fríi. Fríið byrjaði á því að ég var vakin fyrir kl. 9 með hringingu í gemsann. Meðan ég talaði hringdi hann aftur. Þessi tvö símtöl tengdust og málið leystist farsællega. Rútufyrirtækið sem ég hef skipt við árum saman hefur heldur betur náð að pirra mig tvo daga í röð.
Svo er ég búin að svara nokkrum tölvupóstum sem ég hef látið sitja á hakanum. Nú er bara að fara yfir prógramm næstu viku, athuga hvort ég eigi að færa Versalaferð eða hvort ég eigi að lækka verðið gegn því að fá að taka börnin mín með út af verkfallinu og sitthvað fleira.
Mmm, hvað það er gott að eiga frí einn skitinn sunnudag og þar að auki hálf blörrí í kollinum eftir vökvun gærkvöldsins.

Og nei, ég vil ekki fá samúðarkveðjur. Ég er fullkomlega sátt við ástandið og þakklát fyrir alla þessa vinnu sem ég þó hef. Og svo þarf ég endilega að fara að skrifa um það hvers vegna kennararnir eru í verkfalli sí og æ, æ og sí, aldrei fá þau nóg af því. Ég styð þau heils hugar og skil í raun ekkert í þeim að fara ekki bara í almennilegt langt verkfall.

Lifið í friði.

13.6.08

ljónatemjarinn minnBryn tók þessa mynd um síðustu helgi á þorpshátíðinni. Ég var að vinna og missti af því alveg eins og ég missi af skólahátíðinni á morgun. Hins vegar ætla ég að aflýsa gönguferð 21. júní til að komast á tónleikana þar sem sungnir verða grófir söngvar.

Lifið í friði.

12.6.08

björgum kisunum

Ég vildi óska þess að ég gæti tekið einn, en það er víst ekki möguleiki. En þú?

Lifið í friði.

morgunninn kom

Og allt gekk upp.

Stundum eru dagar þar sem allt virðist ganga aftur á bak, allt er öfugt, allt er mistök, rugl, bull og vitleysa. Dagar þar sem þú veist um leið og þú vaknar að í raun ættirðu ekki að fara fram úr en þú neyðist samt til þess.
Dagurinn í gær var næstum því þannig. Alls ekki að öllu leyti því ég hitti fjóra góða ferðalanga, átti með þeim indælar stundir og þó ég hafi grátið úr mér augun rétt áður en ég hitti þau held ég að þau hafi ekki vitað af því. Og þó ég hafi tapað einhverjum peningum, skiptir það mig ekki miklu máli. Það kemur svo sjaldan fyrir að slíkt gerist að ég get ekki með nokkru móti látið það buga mig.
Svo koma svona dagar eins og í dag, börnin þæg og góð um morguninn, samferðafólkið indælt og ekki með kvartanir þrátt fyrir verkföll og stæla í starfsmönnum á svæðinu. Hurð opnast óvænt fyrir okkur og hægt er að stúdera myndir af hetjum án truflana frá öðrum gestum. Himnarnir gráta en draga svo frá sólu á réttum stöðum og ferðin reynist hin ljúfasta.
Þegar heim er komið er ekki bara búið að þrífa og taka til, heldur hefur engillinn sem þreif losað stífluna í vaskinum. Hún fær aukabónus þennan mánuðinn fyrir það þrekvirki.

Lífið er upp og niður. Stundum finnst mér óþægilegt hvað mitt líf er mikið upp og lítið niður. Ég les blogg og heyri í vinkonum og veit að svo margir basla svo mikið og ég skammast mín nánast fyrir hvernig allt leikur í lyndi hjá mér á meðan. Jú, mig vantar eldhúsinnréttingu og nýjan vask, jú ég gæti notað nýrri bíl með fleiri tökkum, jú brjóstahaldarinn er að gefa sig, jú, stundum erum við að kafna í vinnu og íbúðin er aðeins of lítil og ekki smuga að grilla og ekki hægt að hafa kött. Jú, ég get alveg lagst í kör og barmað mér, þannig lagað séð.
En ég get ekki kvartað yfir neinu sem máli skiptir. Heilsan er í góðu lagi hjá okkur öllum, við borðum það sem okkur langar í, við elskum hvert annað, við lifum í sátt og samlyndi þó drasl okkar fljóti yfir á yfirráðasvæði hinna. Við eigum þá gæfu til að bera að elska náungann, að bera virðingu fyrir sjálfum okkur og öðrum, að... já, nú hætti ég því væmni er verri en klæmni.

Lifið í friði.

11.6.08

í dag á morgun

í dag sannaðist hið fornkveðna

lifið í friði

10.6.08

öryggishurð, tryggingabjánar og brjóstahaldari

Ég er enn bönnuð hjá bokmenntir.is, en það skiptir svo sem engu máli núna, ekki man ég fyrir mitt litla líf hvað það var sem mig langaði að kíkja á.

Ég er andlaus, stíf og þreytt. Ætlaði að losa stíflu úr eldhúsvaskinum og tókst að losa vaskinn frá rörinu. Ég lagaði það sjálf, vonandi, kemur almennilega í ljós ef lífræna stíflulosunarefnið virkar.

Ég fékk mann í heimsókn sem vill selja mér hurð á 3.000 evrur. Svona hurð eins og Bin Laden er með hjá sér. Ég get fengið hurð fyrir 1200 evrur hjá honum en hún virkar rosalega óhrjáleg miðað við hina. Öll hurðarsagan hófst þegar símasölumaður náði mér á versta tíma, var að brúna kjöt og grænmeti í miklu magni og hélt að þetta væri vinkona mín. Hann kom svo svaðalega aftan að mér að ég sagði honum að á 4. hæð til hægri í húsi nr. 172 við Fabíengötu væri plathurð sem hægt væri að sparka sig í gegnum í einu sparki.
Vinafólk okkar fékk svona símasölufyrirtæki til að taka út gluggana hjá sér, þeir mættu, lofuðu að senda kostnaðaráætlun sem aldrei kom en hins vegar var brotist inn í gegnum þeirra lélegu glugga og tölvunni stolið. Tvisvar.
Ég hef aldrei séð Arnaud eins reiðan eins og þegar ég þurfti að játa þetta fyrir honum. En ég hef sjaldan heyrt jafn mikinn vonbrigðatón og hjá unga manninum þegar hann hringdi til að breyta aðeins stefnumótinu á mánudaginn var. Líklega var hann alvöru. Eða alvöru bófi með leikhæfileika, svo sem allt eins líklegt. En hann gaf mér upp nafn á fyrirtæki sem ég hef séð auglýst. Svo líklega var ég ferlega leiðinleg við hann greyið. Og burtséð frá öllu verðum við að drífa í að fá hurð sem stenst tryggingar. Tölvurnar eru ótryggðar eins og er.
Það má ekki fara eins og með blessaðan bílinn sem þeir vilja ekki gera við því hann er einskis virði. Hann hefur verið nógu andskoti mikils virði til að vera tryggður hjá þeim í þrjú ár en er ekki þess virði að láta gera við hann. Nýr bíll kostar áreiðanlega meira en ný hurð. Svo vantar mig líka brjóstahaldara. Bömmer.

Lifið í friði.

9.6.08

bönnuð

Ég ætlaði að athuga svolítið á bokmenntir.is en ip-talan mín er á bannlista hjá þeim.

Lifið í friði.

7.6.08

kostur við aðgerðarsinnana

Þó eilíf verkföll kennaranna fari stundum í taugarnar á mér, er ég yfir mig ánægð með sönginn sem þau láta börnin æfa fyrir skólaslitin. Dóttir mín varaði mig við því fyrir nokkrum dögum að þau myndu segja dónaleg orð, en það væri í laginu og þau mættu segja þau þar. Nú er ég farin að heyra brot og brot úr söngnum sem þau eru að æfa. Hann fjallar um að jörðin gráti og sé jafnvel að deyja og allt sé það til þess að fávitar geti makað krókinn. Líklega er bara ágætt að láta aðgerðarsinna sjá um börnin sín á daginn, þó það sé ekki alveg alla dagana. Allt er skárra en sinnuleysi og uppgjöf.

Lifið í friði.

Heilsulindir í Rúmeníu

Við tiltekt á Parísardaman.com rifjaðist upp fyrir mér að ég samþykkti að bæta inn athugasemd um að Monsieur Zerbib getur gefið upplýsingar um heilsulindir í Rúmeníu líka. Nú spyr ég mig hvort þetta gæti verið eitthvað í líkingu við það sem verið er að selja af tveimur aðilum á Íslandi, ætli ég sé að auglýsa spúlunarferðir á síðunni minni?

Það er greinilega tími ferðalaga hjá Íslendingum, allt að gerast, tvær Versalaferðir tvo daga í röð í næstu viku. Hvernig ætli ég verði að kvöldi fimmtudags, skugginn af sjálfri mér?

Okkur tókst að redda helginni, borgum fyrir pössun allan daginn í dag, sleppum með aðstoð góðra vina og fjölskyldu á morgun. Ég fékk því hland fyrir hjartað þegar börnin komu með miða heim úr skólanum í gær: Verkfall á þriðjudag, skólinn lokaður. Alveg skal ég veðja að þetta er eini skólinn sem lokar í hverfinu. Þetta er fínn skóli, flestir kennaranna góðir, frábært starfslið. En þau eru allt of miklir aktívistar fyrir upptekna foreldra. Ég er hætt að spyrja um hvað verkföllin snúast, ekki hægt að fylgjast með þessu hjá þeim lengur. En ég er búin að redda þessu með öðrum fórnarlömbum sama verkfalls.

Lifið í friði.

6.6.08

svona græja til að merkja dót

Einu sinni var til svona græja til að merkja dót heima hjá mér. Þetta var forláta gripur með skífu með stafrófinu (ekki íslenskir stafir þó) og með harmkvælum gat maður "tikkað inn" nöfnum eða orðum sem greyptust inn í borða sem hægt var að líma á allt mögulegt og ómögulegt. Þarna merktum við systur ísskáp (reyndar ískáp), eldavél, þvottavél og annað sem nytsamlegt var að geta borið kennsl á án þess að þurfa að einbeita sér við að skoða tækin of nákvæmlega (nei, ókei, ég er að ljúga en sagan er góð engu að síður). Með þessu var hægt að merkja dót sem gat farið á flakk (skíðastafir o.fl. fyrir skólafrí) og takka á tækjum sem merkingar höfðu máðst af. Límið í þessu var sterkt og gott, ég man að ég vildi ná þessu af einhverju sem ég hafði merkt svona í djóki (ískáp - nei, ókei, aftur lygi, líklega vasadiskóið mitt eða eitthvað slíkt) og það gekk mjög illa. Þá gerði ég mér grein fyrir staðreynd sem ég hef oft staðið frammi fyrir síðan: það er til lím og það er til LÍM.
Mig vantar svona. Hvað heitir það? Er þetta ekki örugglega til ennþá?

Lifið í friði.

litlu hlutirnir

Þegar ég kom heim úr kórferðalaginu var tölvan mín ekki í sambandi en samt var hún fullhlaðin. Það eru einmitt svona litlir hlutir sem gera mig gersamlega brjálæðislega ánægða með manninn minn.

Litli drengurinn minn vill endilega fá að skrifa eitthvað:

KARI
KRISTIN

Lifið í friði.

5.6.08

samskiptaörðugleikar

Mér hefur alltaf þótt mikilvægt að sýna fólki kurteisi og reyna að láta ókunnugum líka vel við mig. Ég lít á það sem ósigur, þó eingöngu í einni orrustu, ekki stríðinu öllu, þegar ég lendi upp á kant við afgreiðslufólk eða einhvern sem ég þarf að eiga samskipti við. Ég lít á það sem stórsigur þegar mér tekst að blíðka og mýkja manneskju sem tekur á móti mér með hrana og frekju, þegar samskiptin færast úr hálfgerðu rifrildi yfir í að vera eðlileg (eða það sem mér finnst eðlilegt) og kurteisisleg.

Undanfarið hef ég trekk í trekk lent í truntum sem ekki hefur verið nokkur vegur að snúa niður í ljúfmenni. Í hótelafgreiðslu, á safni og nú í morgun í stórmarkaðnum. Ég hef ekki breytt neinu, geng alltaf brosandi og bljúg að fólkinu og hef ekkert skilið í þessum ósköpum. Fyrr en mér datt í hug í morgun: Getur það fokking verið að ljósa hárið hafi þessi áhrif? Er það lellulúkkið, knallstutta hvíta hárið sem stuðar fólk svona? Hefði beljan í búðinni í morgun verið kurteis við mig ef ég hefði verið brúnhærð?

Lifið í friði.

4.6.08

börnin gleymdust

Ég fékk faðmlag í tölvupósti frá úrsmiðsdótturinni með fimu fingurna (af því pabbi hennar er úrsmiður).

Ég var að átta mig á því að maðurinn minn er að vinna allar helgar í júní. Það er ég líka að gera. Börnin þurfa pössun. Það er eitthvað stórt að heilanum í okkur báðum, höfðum einhverra hluta vegna ekki tengt líf okkar tveggja og svo barnanna saman. Ég hef virkilega tekið mig á og er hætt að láta litla skrifaða lista liggja á víð og dreif um heimilið án þess að þeir séu færðir inn í i-cal. I-cal er flott dagatalaprógramm. Hins vegar þarf ég kannski að lita alla daga appelsínugula utan skólatíma svo ég muni að ég ber víst ábyrgð á tveimur börnum.

Lifið í friði.

dagar líða

ótrúlega hratt

ég finn ekki bréfið frá HÍ og get því ekki spurst fyrir um námskeiðið sem ég á að taka og hef mig því ekki upp í að hafa samband við nemendaskrá, kosturinn við að týna bréfi er að maður gengur frá ýmsum pappírum sem hafa fengið að safnast upp ókosturinn er augljós

lifið í friði

ég þekki fullt af fólki

Þetta er ekki beint uppörvandi en djöfull er þetta nú samt skemmtilegt aflestrar shy.

Lifið í friði

að vinna eða ekki að vinna

Ég ætlaði að vera dugleg í dag og vinna mikið og margt, verkefnastaflinn fer síhækkandi og ég var búin að lofa mér og mínum nánustu því að nú yrði gengið í að lækka hann með skipulögðum hætti (shy (svona heilt yfir)).

Í staðinn sit ég og fletti frenjulega í gegnum bloggsíður sem hreyfast engan veginn í takt við löngun mína til að láta fæða mig á hugleiðingum, pælingum, fimmaurabröndurum eða rausi.

Við Hildigunnur vorum herbergisfélagar í 3 nætur í Tours. Við kynntumst fyrst á blogginu og höfum hist nokkrum sinnum í raunheimum eftir það. Hún er dugleg að koma til Parísar. Koddahjal okkar fjallaði slatta um blogg, athugasemdasiðvenjur og þróun þeirra, broskarlahatur mitt og sitthvað fleira.
Upp kom sú hugmynd að við þættumst vera orðnar svarnar óvinkonur við heimkomu og skipuðum bloggvinum okkar að velja með hvorri þeir héldu í ósættinu. Þessi hugmynd er ekki alslæm, ládeyða ríkir í bloggheimum og gaman væri að peppa þetta upp með uppdiktuðum innanbúðarmálum. Sápuóperur hljóta að teljast skárra efni en raus um bjarndýraveiðileyfi og annað vesenishjakk íslenskra yfirvalda.

En nú er ég farin að vinna aftur. Eða bara að fá mér að borða. Eða kíkja í Moggann. Og fyrst athuga ég hvort einhver hafi villst til að skrifa eitthvað síðan ég athugaði Mikka Vef síðast fyrir korteri.

Lifið í friði.

úr og bíll

Úrið mitt er brotið. Það er hvorki Rolex né eitthvað áberandi hlussudót sem ég sé stundum auglýst af Gillette-gaurum þegar ég fletti glanstímaritum. En það er mér kært enda bar amma mín það áfallalaust árum saman. Klaufalegt.

Bíllinn minn er brotinn og tryggingarnar hafa skorið úr um að ég ber enga ábyrgð á því leiðindamáli. Það eina sem ég þarf að gera er að fara með bílinn á verkstæði og á ég m.a.s. að fá bíl að láni meðan á viðgerð stendur. Það kalla ég nú prinsessumeðferð.

Skyldi vera hægt að tryggja kærleiksgildi hluta? Ég gæti t.d. beðið um gott faðmlag til að hjálpa mér við að jafna mig á áfallinu yfir sprungunni í úri ömmu minnar.

Annars er ég að koma aftur niður á jörðina eftir helgina sem var frábær en hrottalega erfið, aðallega vegna þess að við vorum öll svo skemmtileg að það var eiginlega ekkert hægt að fara að sofa.
Hljómeyki er með tónleika í kvöld í Reykjavík, þau eru vel smurð eftir harðar æfingar um helgina. Þetta var sko keppni sem tekur sig alvarlega, þau t.d. máttu ekki sjá sviðið áður en þau stigu á það til að syngja. Engar hljóðprufur leyfðar eins og Jónas Sen segir að Björk geri í hverjum nýjum sal. Bara ganga inn á ókunnugt svið í ókunnugum sal og hefja upp raust sína. Þau stóðu sig með stakri prýði og fengu slíkt klapp í eitt skiptið að ég var sannfærð um að þau myndu sigra aðalkeppnina. Þegar Frakkar hrópa bravó, meina þeir það. Þó það yrði ekki úr, geta þau verið stolt af frammistöðu sinni, þau voru landi og þjóð til sóma eins og ráðamenn myndu orða það.

Hér kemur plöggið, þjófstolið beint af síðu Hildigunnar:

Sönghópurinn Hljómeyki heldur tónleika í Háteigskirkju miðvikudagskvöldið 4. júní klukkan 20.00. Á efnisskránni eru kórverk sem flutt voru í Frakklandi um liðna helgi en þar tók kórinn þátt í hinni virtu kórakeppni Florilège Vocal de Tours. Tuttugu og einn kór hvaðanæva að úr heiminum tók þátt og varð Hljómeyki hlutskarpast í flokki kammerkóra ásamt kammerkórnum Khreschatyk frá Úkraínu. Í umsögnum dómnefndar sagði meðal annars að Hljómeyki hefði fallegan hljóm og einkar hrífandi og hjartnæma túlkun. Magnús Ragnarsson var einnig álitinn einn af bestu kórstjórum keppninnar.
Seinna í sumar mun Hljómeyki taka þátt í Sumartónleikum í Skálholti þar sem fluttir verða Náttsöngvar eftir Rakhmanínov fimmtudagskvöldið 10. júlí. Kórinn flutti verkið um síðustu jól við mjög góðar undirtektir og komust færri að en vildu. Laugardaginn 12. júlí verður svo frumflutt Missa brevis eftir Svein Lúðvík Björnsson.
Í nýlegri tónleikaumfjöllun sem Ríkarður Örn Pálsson ritaði í Morgunblaðið segir: “Aldarþriðjungsgamalt Hljómeykið er líklega elzti enn starfandi kammerkór landsins og sá fyrsti sem nálgaðist atvinnumennskustaðal. En þó að samkeppnin væri kannski takmörkuð fram að lokum síðustu aldar, hefur framboðið síðan margfaldazt. Er því ánægjulegt að sjá að kórinn hefur náð að mæta því með það áþreifanlegum gæðum að hann telst enn óhikað í fremstu röð.”

Ég hvet ykkur til að mæta, ég myndi sjálf fara, væri ég á landinu.

Lifið í friði.