5.6.08

samskiptaörðugleikar

Mér hefur alltaf þótt mikilvægt að sýna fólki kurteisi og reyna að láta ókunnugum líka vel við mig. Ég lít á það sem ósigur, þó eingöngu í einni orrustu, ekki stríðinu öllu, þegar ég lendi upp á kant við afgreiðslufólk eða einhvern sem ég þarf að eiga samskipti við. Ég lít á það sem stórsigur þegar mér tekst að blíðka og mýkja manneskju sem tekur á móti mér með hrana og frekju, þegar samskiptin færast úr hálfgerðu rifrildi yfir í að vera eðlileg (eða það sem mér finnst eðlilegt) og kurteisisleg.

Undanfarið hef ég trekk í trekk lent í truntum sem ekki hefur verið nokkur vegur að snúa niður í ljúfmenni. Í hótelafgreiðslu, á safni og nú í morgun í stórmarkaðnum. Ég hef ekki breytt neinu, geng alltaf brosandi og bljúg að fólkinu og hef ekkert skilið í þessum ósköpum. Fyrr en mér datt í hug í morgun: Getur það fokking verið að ljósa hárið hafi þessi áhrif? Er það lellulúkkið, knallstutta hvíta hárið sem stuðar fólk svona? Hefði beljan í búðinni í morgun verið kurteis við mig ef ég hefði verið brúnhærð?

Lifið í friði.