7.6.08

Heilsulindir í Rúmeníu

Við tiltekt á Parísardaman.com rifjaðist upp fyrir mér að ég samþykkti að bæta inn athugasemd um að Monsieur Zerbib getur gefið upplýsingar um heilsulindir í Rúmeníu líka. Nú spyr ég mig hvort þetta gæti verið eitthvað í líkingu við það sem verið er að selja af tveimur aðilum á Íslandi, ætli ég sé að auglýsa spúlunarferðir á síðunni minni?

Það er greinilega tími ferðalaga hjá Íslendingum, allt að gerast, tvær Versalaferðir tvo daga í röð í næstu viku. Hvernig ætli ég verði að kvöldi fimmtudags, skugginn af sjálfri mér?

Okkur tókst að redda helginni, borgum fyrir pössun allan daginn í dag, sleppum með aðstoð góðra vina og fjölskyldu á morgun. Ég fékk því hland fyrir hjartað þegar börnin komu með miða heim úr skólanum í gær: Verkfall á þriðjudag, skólinn lokaður. Alveg skal ég veðja að þetta er eini skólinn sem lokar í hverfinu. Þetta er fínn skóli, flestir kennaranna góðir, frábært starfslið. En þau eru allt of miklir aktívistar fyrir upptekna foreldra. Ég er hætt að spyrja um hvað verkföllin snúast, ekki hægt að fylgjast með þessu hjá þeim lengur. En ég er búin að redda þessu með öðrum fórnarlömbum sama verkfalls.

Lifið í friði.