4.6.08

að vinna eða ekki að vinna

Ég ætlaði að vera dugleg í dag og vinna mikið og margt, verkefnastaflinn fer síhækkandi og ég var búin að lofa mér og mínum nánustu því að nú yrði gengið í að lækka hann með skipulögðum hætti (shy (svona heilt yfir)).

Í staðinn sit ég og fletti frenjulega í gegnum bloggsíður sem hreyfast engan veginn í takt við löngun mína til að láta fæða mig á hugleiðingum, pælingum, fimmaurabröndurum eða rausi.

Við Hildigunnur vorum herbergisfélagar í 3 nætur í Tours. Við kynntumst fyrst á blogginu og höfum hist nokkrum sinnum í raunheimum eftir það. Hún er dugleg að koma til Parísar. Koddahjal okkar fjallaði slatta um blogg, athugasemdasiðvenjur og þróun þeirra, broskarlahatur mitt og sitthvað fleira.
Upp kom sú hugmynd að við þættumst vera orðnar svarnar óvinkonur við heimkomu og skipuðum bloggvinum okkar að velja með hvorri þeir héldu í ósættinu. Þessi hugmynd er ekki alslæm, ládeyða ríkir í bloggheimum og gaman væri að peppa þetta upp með uppdiktuðum innanbúðarmálum. Sápuóperur hljóta að teljast skárra efni en raus um bjarndýraveiðileyfi og annað vesenishjakk íslenskra yfirvalda.

En nú er ég farin að vinna aftur. Eða bara að fá mér að borða. Eða kíkja í Moggann. Og fyrst athuga ég hvort einhver hafi villst til að skrifa eitthvað síðan ég athugaði Mikka Vef síðast fyrir korteri.

Lifið í friði.