12.6.08

morgunninn kom

Og allt gekk upp.

Stundum eru dagar þar sem allt virðist ganga aftur á bak, allt er öfugt, allt er mistök, rugl, bull og vitleysa. Dagar þar sem þú veist um leið og þú vaknar að í raun ættirðu ekki að fara fram úr en þú neyðist samt til þess.
Dagurinn í gær var næstum því þannig. Alls ekki að öllu leyti því ég hitti fjóra góða ferðalanga, átti með þeim indælar stundir og þó ég hafi grátið úr mér augun rétt áður en ég hitti þau held ég að þau hafi ekki vitað af því. Og þó ég hafi tapað einhverjum peningum, skiptir það mig ekki miklu máli. Það kemur svo sjaldan fyrir að slíkt gerist að ég get ekki með nokkru móti látið það buga mig.
Svo koma svona dagar eins og í dag, börnin þæg og góð um morguninn, samferðafólkið indælt og ekki með kvartanir þrátt fyrir verkföll og stæla í starfsmönnum á svæðinu. Hurð opnast óvænt fyrir okkur og hægt er að stúdera myndir af hetjum án truflana frá öðrum gestum. Himnarnir gráta en draga svo frá sólu á réttum stöðum og ferðin reynist hin ljúfasta.
Þegar heim er komið er ekki bara búið að þrífa og taka til, heldur hefur engillinn sem þreif losað stífluna í vaskinum. Hún fær aukabónus þennan mánuðinn fyrir það þrekvirki.

Lífið er upp og niður. Stundum finnst mér óþægilegt hvað mitt líf er mikið upp og lítið niður. Ég les blogg og heyri í vinkonum og veit að svo margir basla svo mikið og ég skammast mín nánast fyrir hvernig allt leikur í lyndi hjá mér á meðan. Jú, mig vantar eldhúsinnréttingu og nýjan vask, jú ég gæti notað nýrri bíl með fleiri tökkum, jú brjóstahaldarinn er að gefa sig, jú, stundum erum við að kafna í vinnu og íbúðin er aðeins of lítil og ekki smuga að grilla og ekki hægt að hafa kött. Jú, ég get alveg lagst í kör og barmað mér, þannig lagað séð.
En ég get ekki kvartað yfir neinu sem máli skiptir. Heilsan er í góðu lagi hjá okkur öllum, við borðum það sem okkur langar í, við elskum hvert annað, við lifum í sátt og samlyndi þó drasl okkar fljóti yfir á yfirráðasvæði hinna. Við eigum þá gæfu til að bera að elska náungann, að bera virðingu fyrir sjálfum okkur og öðrum, að... já, nú hætti ég því væmni er verri en klæmni.

Lifið í friði.