4.6.08

úr og bíll

Úrið mitt er brotið. Það er hvorki Rolex né eitthvað áberandi hlussudót sem ég sé stundum auglýst af Gillette-gaurum þegar ég fletti glanstímaritum. En það er mér kært enda bar amma mín það áfallalaust árum saman. Klaufalegt.

Bíllinn minn er brotinn og tryggingarnar hafa skorið úr um að ég ber enga ábyrgð á því leiðindamáli. Það eina sem ég þarf að gera er að fara með bílinn á verkstæði og á ég m.a.s. að fá bíl að láni meðan á viðgerð stendur. Það kalla ég nú prinsessumeðferð.

Skyldi vera hægt að tryggja kærleiksgildi hluta? Ég gæti t.d. beðið um gott faðmlag til að hjálpa mér við að jafna mig á áfallinu yfir sprungunni í úri ömmu minnar.

Annars er ég að koma aftur niður á jörðina eftir helgina sem var frábær en hrottalega erfið, aðallega vegna þess að við vorum öll svo skemmtileg að það var eiginlega ekkert hægt að fara að sofa.
Hljómeyki er með tónleika í kvöld í Reykjavík, þau eru vel smurð eftir harðar æfingar um helgina. Þetta var sko keppni sem tekur sig alvarlega, þau t.d. máttu ekki sjá sviðið áður en þau stigu á það til að syngja. Engar hljóðprufur leyfðar eins og Jónas Sen segir að Björk geri í hverjum nýjum sal. Bara ganga inn á ókunnugt svið í ókunnugum sal og hefja upp raust sína. Þau stóðu sig með stakri prýði og fengu slíkt klapp í eitt skiptið að ég var sannfærð um að þau myndu sigra aðalkeppnina. Þegar Frakkar hrópa bravó, meina þeir það. Þó það yrði ekki úr, geta þau verið stolt af frammistöðu sinni, þau voru landi og þjóð til sóma eins og ráðamenn myndu orða það.

Hér kemur plöggið, þjófstolið beint af síðu Hildigunnar:

Sönghópurinn Hljómeyki heldur tónleika í Háteigskirkju miðvikudagskvöldið 4. júní klukkan 20.00. Á efnisskránni eru kórverk sem flutt voru í Frakklandi um liðna helgi en þar tók kórinn þátt í hinni virtu kórakeppni Florilège Vocal de Tours. Tuttugu og einn kór hvaðanæva að úr heiminum tók þátt og varð Hljómeyki hlutskarpast í flokki kammerkóra ásamt kammerkórnum Khreschatyk frá Úkraínu. Í umsögnum dómnefndar sagði meðal annars að Hljómeyki hefði fallegan hljóm og einkar hrífandi og hjartnæma túlkun. Magnús Ragnarsson var einnig álitinn einn af bestu kórstjórum keppninnar.
Seinna í sumar mun Hljómeyki taka þátt í Sumartónleikum í Skálholti þar sem fluttir verða Náttsöngvar eftir Rakhmanínov fimmtudagskvöldið 10. júlí. Kórinn flutti verkið um síðustu jól við mjög góðar undirtektir og komust færri að en vildu. Laugardaginn 12. júlí verður svo frumflutt Missa brevis eftir Svein Lúðvík Björnsson.
Í nýlegri tónleikaumfjöllun sem Ríkarður Örn Pálsson ritaði í Morgunblaðið segir: “Aldarþriðjungsgamalt Hljómeykið er líklega elzti enn starfandi kammerkór landsins og sá fyrsti sem nálgaðist atvinnumennskustaðal. En þó að samkeppnin væri kannski takmörkuð fram að lokum síðustu aldar, hefur framboðið síðan margfaldazt. Er því ánægjulegt að sjá að kórinn hefur náð að mæta því með það áþreifanlegum gæðum að hann telst enn óhikað í fremstu röð.”

Ég hvet ykkur til að mæta, ég myndi sjálf fara, væri ég á landinu.

Lifið í friði.