29.6.08

búllur og stemning

Eftir morgunævintýrin í nýju klifrugrindinni í almenningsgarðinum ákváðum við foreldrarnir að vera viðurstyggilega löt og fara og fá okkur hádegisverð hjá Tyrkjum sem reka litla búllu í hverfinu. Staðurinn er skemmtilega sjabbí, innréttingar dálítið lúnar, reynt að fela það með ljósaseríu sem virkar ekki lengur, gamlar flísar sem var líklega ætlað að skapa allt annað en tyrkneska stemningu, skrautlegir dúkar á borðum með blómaskreyttum hálfgagnsæjum plastdúkum ofan á sem mynda undarlega kaótískt munstur saman. Maturinn er mátulega löðrandi í góðri fitu, gott bragð af grjónunum, harissa-sósan brennir kinnar. Gamli karlinn staulast um og heilsar fólki, greinilega barngóður, brosir með öllu andlitinu til okkar, kerling er í litfögrum fötum, með fallega slæðu á höfðinu, greinilega hún sem valdi dúkana á borðin, drengurinn er með töffaraklippingu og þegar hann fer úr kokkajakkanum er hann í tískubol undir. Ég veit ekki hvort hann er sonur eða barnabarn, hef brennt mig á því að fólk sem hefur lifað tímana tvenna virðist stundum mun eldra en það er. Öll eru þau vingjarnleg en samt einhvern veginn þögul, hæglát. Afgreiðslan gengur hratt og vel fyrir sig og þau nota alvöru hnífapör og diska, engin plast- og pappírssóun hér. Ég fíla svona heimilislegar búllur alltaf alveg hrikalega vel. Þúsund sinnum betra, fallegra, mannlegra og meira spennandi en gervistaðir á borð við McDo.

Lifið í friði.