10.6.08

öryggishurð, tryggingabjánar og brjóstahaldari

Ég er enn bönnuð hjá bokmenntir.is, en það skiptir svo sem engu máli núna, ekki man ég fyrir mitt litla líf hvað það var sem mig langaði að kíkja á.

Ég er andlaus, stíf og þreytt. Ætlaði að losa stíflu úr eldhúsvaskinum og tókst að losa vaskinn frá rörinu. Ég lagaði það sjálf, vonandi, kemur almennilega í ljós ef lífræna stíflulosunarefnið virkar.

Ég fékk mann í heimsókn sem vill selja mér hurð á 3.000 evrur. Svona hurð eins og Bin Laden er með hjá sér. Ég get fengið hurð fyrir 1200 evrur hjá honum en hún virkar rosalega óhrjáleg miðað við hina. Öll hurðarsagan hófst þegar símasölumaður náði mér á versta tíma, var að brúna kjöt og grænmeti í miklu magni og hélt að þetta væri vinkona mín. Hann kom svo svaðalega aftan að mér að ég sagði honum að á 4. hæð til hægri í húsi nr. 172 við Fabíengötu væri plathurð sem hægt væri að sparka sig í gegnum í einu sparki.
Vinafólk okkar fékk svona símasölufyrirtæki til að taka út gluggana hjá sér, þeir mættu, lofuðu að senda kostnaðaráætlun sem aldrei kom en hins vegar var brotist inn í gegnum þeirra lélegu glugga og tölvunni stolið. Tvisvar.
Ég hef aldrei séð Arnaud eins reiðan eins og þegar ég þurfti að játa þetta fyrir honum. En ég hef sjaldan heyrt jafn mikinn vonbrigðatón og hjá unga manninum þegar hann hringdi til að breyta aðeins stefnumótinu á mánudaginn var. Líklega var hann alvöru. Eða alvöru bófi með leikhæfileika, svo sem allt eins líklegt. En hann gaf mér upp nafn á fyrirtæki sem ég hef séð auglýst. Svo líklega var ég ferlega leiðinleg við hann greyið. Og burtséð frá öllu verðum við að drífa í að fá hurð sem stenst tryggingar. Tölvurnar eru ótryggðar eins og er.
Það má ekki fara eins og með blessaðan bílinn sem þeir vilja ekki gera við því hann er einskis virði. Hann hefur verið nógu andskoti mikils virði til að vera tryggður hjá þeim í þrjú ár en er ekki þess virði að láta gera við hann. Nýr bíll kostar áreiðanlega meira en ný hurð. Svo vantar mig líka brjóstahaldara. Bömmer.

Lifið í friði.