31.10.06

Hnakkus verður barinn

Ég var að rekast á þennan pistil eftir einn af mínum fyrrverandi eftirlætis bloggurum:
Hnakkus í París

Reyndar, eins og ég segi í kommenti hjá honum, fær hann eiginlega fyrirgefningu vegna myndarinnar sem er milljón.

Til að svara umræðu á villigötum um staðsetningu Picasso-safnsins, þá er það í einu af mínum eftirlætishverfum, Mýrinni sem Hnakkus hefði getað skoðað út og inn með mér undir léttum fróðleik. Ég biðst afsökunar á málvillunni efst á þessari síðu sem ég er að tengja ykkur á, þetta verður lagað ásamt ýmsu öðru núna í nóvember.

Ég er algerlega sammála Hnakkusi um Louvre safnið og reyndar öll frönsku þjóðarsöfnin. Það er dónaskapur að selja inn en veita litlar sem engar upplýsingar á ensku. Persónulega finnst mér ömurlega leiðinlegt að ganga um safn með heyrnatól og missi alltaf af því sem vélræn röddin reynir að segja mér. Eina stóra safnið í París sem er með allar skýringar á ensku er Herminjasafnið.

Ég er líka sammála því að París er dýr.

Fólk hér er ekkert geðveikara en annars staðar en ég er ekkert móðguð yfir því, bara sármóðguð og virkilega leið yfir almennum óánægjutóni Hnakkusar og að París skuli lenda fyrir neðan London í svona vinsældarkeppni er náttúrulega óþolandi. París er miklu betri. Madrid hins vegar er líklega best þeirra þriggja, við sættum okkur alla vega við að lenda fyrir neðan þá fallegu, skemmtilegu og ódýru borg.

Lifið í friði.

þetta er svo satt

fyrirsögnin er tengill í pistil sem ég ætlaði að nefna líka um daginn þegar ég benti á áhugaverða hluti. Áttaði mig líka á því að ég talaði um Rafauga, en kannski vita ekki allir að hann heitir Hreinn og hjartahlýr í tenglalistanum mínum. Það tengdu reyndar svo margir á þessa grein hans um péninga að líklega hafa flestir lesið.
Hvernig gekk teikniborð Framtíðarlandsins um helgina? Þarf að kíkja á það. Vandamálið er að maður er alltaf dóni að hanga í tölvunni þegar það eru gestir á heimilinu. Þess vegna vanræki ég ykkur en get huggað ykkur með því að ég sakna ykkar ógurlega.
Þessi pistill er númer 701.

Lifið í friði.

Ó

Var það ekki sjónvarpsþáttur?

Lifið í friði.

30.10.06

Á

Á maður (kona) að pæla í því sem er ekki pælandi í. Ekki vildi meistarinn meina það.

Lifið í friði.

27.10.06

sól og sumar aftur

Daginn sem litla systir kom með litlu frænku mína, dóttur sína, í heimsókn, fór hitinn upp í 20 stig. Nú skín sólin og því verður áreiðanlega lítið messað yfir ykkur aðdáendum mínum næstu daga. Hver veit hversu dugleg ég verð eftir að til Íslands verður komið, í lok næstu viku? Ekki veit ég það. Alltaf nóg að gera þar.
Næst á dagskrá: Fara með börnin í sirkúsinn. Ekki hægt að leyfa þeim bara að klappa blessuðum skepnunum, þau verða víst líka að fá sýninguna sjálfa þó persónulega finnist mér verðið níðingsskapur. En það er líklega þetta fróma sparnaðarnáttúra mín sem kemur upp í mér þegar ég þarf að spandera peningum í eitthvað sem ég sjálf er kannski ekkert sérlega spennt fyrir. Ekki það að mér finnist ekki gaman í sirkús, bara of stutt síðan síðast og ég vil heldur fullorðinssirkús. Þið spyrjið ykkur kannski hvað það gæti verið, það er ekki neitt dónaldegt, ekki akróbatar hangandi á hreðjum sínum eða neitt slíkt, bara svona raffíneraðra, nútímalegra, meiri "hönnun" og "konsept" og svona fínerí.
En ég er að rugla enda er ég ölvuð af gleði yfir endurkomu sumarsins.
Farin út.
Eigið ykkar erfiðu getraunir og aðrar raunir sjálf.
En umfram allt:
Lifið í friði.

25.10.06

tenglalaus texti en fullur af ábendingum

Ég var að reyna að lesa frétt um að fyrirtæki er að biðja um endurreikning á gróðanum sem fékkst við samráð olíufyrirtækjanna. Ég gafst upp. Ég skil ekki svona hluti, skil ekki orðin sem eru notuð, skil ekki upphæðir sem skipta þúsundum milljóna (eru það þá milljarðar?). Ég vorkenni köllum og kellingum sem eiga svona fyrirtæki og þurfa að vera á fundum með lögfræðingum, hagfræðingum og framámönnum alla daga. En hugga mig við að þau vorkenna mér kannski líka svo allir eru jafnir. Kommúnískt.

Um daginn var mér ekið niður í bæ á ægifínni rennireið sem ber þriggja stafa nafn og er af þýsku bergi (stáli?) brotin. Hvar við vorum í kyrrstöðu á ljósum sá ég strák og stelpu, pönkara, með rakað hár eða upp í loft, í hermannagrænum bolum, slitnum gallabuxum og hermannaklossum, sitjandi á útflöttum pappakössum undir vegg stórmarkaðar með hund hjá sér. Líklega var dolla fyrir smápeninga fyrir framan þau, en ég sá það ekki, ljósið frá hannaðri lýsingu verslunarinnar náði ekki að lýsa nema þau sjálf. Þau voru í djúpum samræðum og greinilega mjög skemmtilegum. Töluðu bæði með miklu handapati og tóku stundum bakföll af hlátri. Engar áhyggjur, engin örvænting, ekkert stress. Ég er ekki að segja að mér hafi dottið í hug að hoppa út úr bílnum, setjast hjá þeim, stinga sikkerisnælu í gegnum eyrnasnepilinn og vera bara með þeim upp frá því. Hætta að hugsa um börnin mín, kallinn minn, túristana, foreldrana, vinina, allt þetta lið sem treystir á mann og treystir því að maður hegði sér vel, að maður hegði sér í samræmi við reglurnar sem þau sjálf leggja svo mikið upp úr að fara eftir. Ég er ekki að segja það að ég geti svo auðveldlega losað mig úr mínum þægilega og mátulega smáborgarahætti. Né að ég vilji það endilega. En ég get alveg sagt þér það að í örskotsstund fylltist ég nostalgískri afbrýðisemi og langaði til að vera með þeim, kannski bara þetta eina kvöld. Djamma með þeim, hlæja og láta eins og allt hitt skipti engu máli.

Ég hef undanfarið flakkað um lendur alnetsins og lesið margt skemmtilegt. Meðal annars þetta:
Grein eftir Rafaugað Ingólf á Múrnum um einmitt þessa peningafirringu og samkeppnisþörf mannskeppnunnar.

Grein eftir Eyju um launamisjafnrétti.

Frábær gagnrýni Internetmömmunnar rooosalega spes Unnar á Kistunni á einhverri sjálfshjálparbók eftir eða um hann Greg, Hann er ekki nógu skotinn í þér minnir mig að bókin kallist. Mæli með lestri gagnrýninnar og svo umræðunni á Barnalandi sem þið komist á í gegnum síðuna hennar (sjá tengil í listanum, Internetmamman).

Og tengla á Eyju og Rafauga greinarnar finnið þið líka á þeirra síðum frá tenglinum í listanum mínum. Sorrí, er á gamla bláa Grána og get ekki föndrað tengil í texta.

Klukkan er farin að ganga fimm. Kominn tími til að vekja börnin af værum blundi og gera eitthvað smáborgaralegt með þeim, förum örugglega að skoða kameldýrin, flóðhestinn, póníana, svarta svínið og öll hin dýrin sem hafa komið sér upp sirkustjaldi í almenningsgarðinum okkar. Við erum búin að skoða þau næstum daglega en hvorki þau né ég fá nóg af því. Ótrúlega skemmtilegt. Dýr eru skemmtileg. Sundurskorinn hvalurinn sem við Íslendingar sendum heimsbyggðinni á dögunum var líka flottur. Eða hvað?

Lifið í friði.

24.10.06

léttir

Ég var eiginlega farin að kvíða heimkomu. Langar að sjá Mýrina en fer í taugarnar á mér miðaverðið. Langar að sjá Börn en missi líklega af þeim. Langar að gera svo margt og hitta svo marga og veit að ég fer aftur frústreruð út og veit líka að það er fáránlegt að kvíða því áður en farið er af stað í ferðina. En þannig er ég. Kvíðin og áhyggjufull.
En þegar ég les lýsingar af hörkufrosti sé ég mig alveg í anda rjóða í kinnum eftir ókeypis Laugavegsandlitsnudd og hlakka ekkert smá til að nota loksins húfuna sem falleg íslensk kona prjónaði og gaf mér í haust. Og fínu vettlingana sem vinkona mín prjónaði. Og trefilinn sem önnur vinkona prjónaði. Og vera í ullarsokkum og stórum skóm.
Kannski bara hætti ég að kvíða og fer alveg að snarhlakka til í staðinn.

Lifið í friði.

blokkin


blokkin
Originally uploaded by parisardaman.

Mér fannst við hæfi að birta mynd af blokkinni minni. Þetta er að vísu á bakvið hús, við bílskúrana. Ég fann enga mynd framan við sem er mun huggulegra. Þar sem ég er sárlasin og ekki er hundi út sigandi fer ég ekki út að redda því núna.
Á myndini er Sólrún að hjóla. Gluggarnir okkar sjást ekki nema að örlitlu leyti á myndinni, efsta hæð lengst til vinstri, grillir í eitt hornið af svefnherbergi okkar hjóna.

Lifið í friði.

fjórða og síðasta hæð

(og sú fimmta fyrir þau sem ekki byrja að telja á núllinu).
Fimmta hæðin er vitanlega langskemmtilegasta hæðin. Þar býr svalasta liðið, því þó unga prúða parið með nýja barnið á fyrstu hæð sé yngra en við hjónin, þá eru þau bara svo settleg að það mætti segja að þau séu orðin karl og kerling, í það minnsta kona og maður meðan við hjónin berjumst við að vera stelpa og strákur áfram þrátt fyrir mjög breyttan lífsstíl (það er gersamlega búið að skemma þetta orð fyrir manni með leiðindaofnotkun auglýsinga- og markaðsgúrúa á því undanfarið) frá því sem var fyrir tíma barneigna.
Þið þekkið okkur nú svolítið, ég veit satt best að segja ekki hvernig ég á að draga upp mynd af okkur því vissulega er annað sjónarhorn en á hina íbúana sem við höfum aldrei drukkið kaffibolla með, hvað þá meir.
Við erum sem sagt með tvö börn og búum á franskfjórðu hæð án lyftu en þegar við ákváðum að kaupa okkur íbúð var það einmitt til að losna við að búa á fimmtu hæð án lyftu. Þá var ég með væna bumbu og þegar ég kom upp götuna hvæsti ég á manninn minn að við værum sífellt að skoða íbúðir sem kæmu ekki til greina. Svo kom ég másandi og blásandi hingað inn og vissi um leið að þetta væri íbúðin mín. Parket, hvítmálaðir veggir, skemmtilega sveitalegt eldhús með skrautlegum flísum, ágætt baðherbergi og frábært útsýni til tveggja átta. Annars vegar í suðvestur, yfir skógi vaxna hæð og yfir til Parísar (við sjáum glitta í Sacré Cœur þó háhýsi skyggi reyndar á hana) og hins vegar yfir einbýlishúsahverfið hér á bakvið og svo langt í norðaustur sjást viðbjóðsblokkarskógarnir, þar sem allt of margar og allt of háar blokkir hafa verið byggðar á allt of litlu svæði. En að horfa á slíkt úr fjarska heldur manni kannski við efnið, minnir okkur á hvað við höfum það nú gott eftir allt saman þó vitanlega hefðum við heldur viljað kaupa íbúð í París sjálfri á sínum tíma, enda svona 101-týpur í okkur þó ég sé reyndar alin upp í Breiðholtinu.
Við erum alltaf mjög brosmild og gefum okkur tíma í óþarfa spjall við nágrannana. Við gefum húsverðinum og skúringakonunni gott þjórfé um jólin. Við reynum af fremsta megni að sýna tillitssemi, erum meðvituð um parketið og hávaðann sem berst niður (þó að seljandinn hafi reyndar lofað því að hann væri með rokna hljóðdeyfi undir því) og erum dugleg að fara út með börnin á daginn, bæði okkar geðheilsu vegna og hinna íbúanna í blokkinni. Ég er þó farin að spá í mottur, hvort ég eigi að setja eitthvað slíkt á gólfin hérna því ekki léttast börnin og ekki hætta þau að hlaupa hér um, sérstaklega á kvöldin fyrir matartímann. Ég vil alls ekki að fólk þjáist okkar vegna en ég verð að segja að mér vex það í augum að fara að setja stórar mottur á gólfin, það hlýtur að vera vesen fyrir þrifin.
Við völdum fólkinu í hverfinu miklum heilabrotum vegna undarlegrar verkaskiptingar, Arnaud fær oft að heyra það í umhyggjutóni að hann sé svo natinn við börnin, á tímabili var hann hálfhræddur við konuna á framköllunarstofunni, hún var hreinlega að reyna við hann, sannfærð um að hann hlyti að vera ekkill. Þess vegna splæsti ég í digital myndavél. Múahaha.
Ég fæ aldrei að heyra að ég sé natin við börnin mín. Þó að Arnaud fari með þau í skólann flesta dagana er það ég sem sæki þau og er með þau fram að kvöldmatnum sem ég elda um leið og þau eru böðuð. Ég er ekki að kvarta, en það fer samt auðvitað í mínar fínustu femínistataugar að þetta skuli ekki þykja tiltökumál, um leið og að allt sem pabbinn gerir er ofmetið.
Við vinnum bæði frekar óreglulega og erum fullmeðvituð um að allir voru að drepast úr forvitni yfir lífi okkar. Flestir vita þó núna, eftir tvö og hálft ár í hverfinu, hvað við gerum og hafa samþykkt okkur sem nágranna þó að ég sé of stutthærð og gangi stundum um í Afríkukjólum.
Á móti okkur búa tveir drengir. Annar þeirra er nýlegur húseigandi og mamma hans býr í næsta stigagangi. Þeir eru rúmlega tvítugir og í háskóla. Spila mikið tónlist, frekar góða (þunga) og ganga aldrei um öðruvísi en með þræði úr eyrunum. Skemmtilega hirðulausir, ég tók einu sinni mynd af ruslapokunum þeirra sem stóðu heilan dag á stigapallinum eftir tiltekt en ég þori ekki að birta mynd hérna, né hef ég nafngreint fólkið því ég er svo hrædd um að einhver nágrannanna geti gúgglað sig hingað inn. Þetta voru þrír svartir plastpokar, tveir kassar af bjór og þrír, fjórir pizzakassar.
Þeir heilsa okkur alltaf kurteislega og þykjast m.a.s. hafa áhuga á Sólrúnu þegar hún lætur þá dást að kjólnum sínum eða skónum. A.m.k. annar þeirra á kærustu sem er frekar mikið hérna. Þau sofa lengi frameftir og vaka eftir því. Ég heyri þau oft koma heim seint á næturnar með látum, í fyrsta lagi greinilega ofurölvi, einu sinni var m.a.s. blómapotti granna minna á þriðju hæð rutt um koll og lá þar með mold út um allt morguninn eftir, í öðru lagi stendur hurðin hjá þeim á sér og heyrist því vel þegar reynt er að loka og læsa. Ég held að bréfið niðri sé aðallega ætlað þeim, mér skilst að þau eigi það til að spila tónlist frameftir (íbúðirnar eru svo vel hannaðar að svefnherbergin snertast ekki, heldur er það innri stofan okkar sem nær að stofunni þeirra og stundum heyri ég í þeim ef ég fer í tölvuna seint að kveldi en aldrei þannig að það trufli mig, svefnherbergi reffilegu appelsínugulhærðu grönnu þeirra er alls ekki undir stofunni en kannski spila þau tónlist í svefnherbergjunum, unga fólkið). Svo er það nú bara þannig að þessir ungu menn með ofurlíf tóku við af manni sem bjó einn, ljúfum homma sem vann á gufubaðstofu, stundum á næturnar og heyrðist aldrei múkk í. Það er erfitt að koma í staðinn fyrir slíka nágranna, sérstaklega ofan á appelsínugulhært ofurviðkvæmt höfuð.
Við vorum einmitt í sömu aðstöðu, maðurinn sem seldi okkur bjó hér einn, fráskilinn með uppkomin börn, kvikmyndatökumaður sem var oft í burtu. Örugglega ferlega fúlt fyrir þau hér undir okkur að skipta honum út fyrir okkur.

Það er gaman að búa í blokk. Eins og öll sambönd, getur það verið krefjandi en eitthvað fær maður samt til baka líka. Ég skil alveg Íslendinga að vilja heldur búa í húsi, hafa garð og allt þetta pláss, enda er það til staðar.
Ég mæli þó með því að fara við og við í almenningssamgöngum milli staða, þar rekst maður oft á kynlega og skemmtilega kvisti. Og fátt er hollara í lífinu en að átta sig á því hvað það er fjölbreytilegt og skemmtilegt.

Lifið í friði.

23.10.06

þriðja hæð

(eða fjórða ef þú Íslendingur vilt).
Á þriðju hæðinni býr líklega frekasta fólkið í blokkinni.
Fyrst má nefna vesalings fólkið sem er svo óheppið að búa beint undir okkur. Þau hafa nokkrum sinnum spurt okkur hvort við ætlum ekki að skipta parketinu út fyrir teppi en það kemur ekki til mála. En ég segi nánar frá okkur síðar, einbeitum okkur að þeim. Þetta er fjögurra manna fjölskylda, börnin orðin unglingar, stúlkan líklega 14 ára og strákurinn kannski 16. Ég á reyndar mjög erfitt með að aldursgreina fólk og sel þessa greiningu því ekki dýru sérfræðingsverði. Þau búa, eins og við, í 70 fermetrum og sofa foreldrarnir í innri stofunni, líkt og ég ímynda mér að við hjónin munum gera einn góðan veðurdag, ef okkur tekst ekki að vinna í lottó.
Konan er frekar feitlagin og ekkert sérlega dugleg að halda sér til. Hún vinnur hjá einhverri félagsmálastofnun og segir mér stundum hryllingssögur af fólki sem hleður niður börnum án þess að eiga fyrir því og sagði mér um daginn frá konu sem eignaðist tvenna tvíbura og síðan þríbura. Mjög djúsí blaður við hana stundum hérna úti á stétt. Mig grunar að hún sé ekkert sérlega hamingjusöm, en hef þó ekkert fyrir mér í því annað en eigin fordóma og hvöt til að draga ályktanir. Ég hef þó séð hana fara uppstrílaða út að kvöldi til, kannski tvisvar.
Karlinn er hressilegur, kubbslegur og óhugnalega frekur við bæði konuna og börnin sem hann rekur áfram harðri hendi, greinilega afar óþolinmóður. Einu sinni sá ég hann næstum eyðileggja dyrasímann niðri, honum lá svo á að hringja að hann þrýsti aftur og aftur á nafnið en ekki hnappinn, skildi ekkert í því að eitthvað stæði á sér og missti sig algerlega. Það munaði litlu að hann færi í gegn um spjaldið og svo bölvaði hann hressilega þegar hann áttaði sig.
Dóttirin er inni í sér og þjáist örugglega af minnimáttarkennd, hún virðist samt ágætlega fríð, miðað við það litla sem maður hefur getað séð framan í hana og verður eflaust bráðfalleg þegar hún nær að vinna upp sjálfstraust, sem ég vona að henni takist síðar. Drengurinn er í gítartímum og spilar stundum sama hljóminn aftur og aftur og stundum spilar annað hvort þeirra hræðilega nýlega popptónlist en ég er með afbrigðum skilningsrík gagnvart þessu og þetta pirrar mig ekki vitund.
Það er oft hamagangur á Hóli, stundum rífast börnin sín á milli, svo heyrist hvína í pabbanum og mamman reynir að róa liðið niður. Stundum öskra þau hjónin hvort á annað. En aftur, skilningsríkir nágrannar þeirra pirra sig ekki neitt á þessu enda eru þetta bara svona hressilegar kviður sem standa yfirleitt ekki lengur en mínútu. Ég lofa ykkur því að ef ég hefði minnsta grun um að honum væri laus höndin væri ég farin að skipta mér af.

Á móti þeim búa eldri hjón sem eru þau sem ég hef best kynnst af öllum í blokkinni. Þau eru blandað par, hann er kolbikasvartur. Mig hefur lengi langað til að spyrja þau út í hvernig líf þeirra var þegar þau voru að draga sig saman og hvernig börnum þeirra gekk í lífinu en hef aldrei þorað að gera það.
Hann er líka hálfheyrnalaus, mikið af slíku fólki í blokkinni minni greinilega, fyrrverandi rafvirki og fékk að tengja dyrabjölluna okkar hérna þegar hann komst að því að hún virkaði ekki. Var hér tímunum saman að tengja þetta og spyr mig reglulega hvort bjallan virki vel. Ég lýg því alltaf að hún virki ógurlega vel, málið er að það hringir aldrei neinn þessari bjöllu. Við opnum alltaf hurðina um leið og við hleypum einhverjum inn niðri. En ég hef ekki brjóst í mér að hryggja hann með því.
Hann spyr mig alltaf hvort karlinn sé hress og í vinnunni, ég held að þeim finnist afar dularfullt hvað hann er mikið með börnin og ég úti og hann hefur aldrei samþykkt það að ég sjái um viðhaldið hérna, hlær bara góðlátlega þegar ég segi honum það. Honum var líka illa brugðið þegar hann þurfti að kyngja því að maðurinn minn væri bílprófslaus og því væri það ég sem hann þyrfti að aðstoða þegar bílinn minn neitaði í gang á dögunum.
Konan hans er reffileg appelsínugulhærð með bleikan varalit. Hún spyr alltaf mikið um Ísland, þau hafa bæði brennandi áhuga á því landi og eru m.a.s. með víkingaskip á plakati á vegg hjá sér. Þau horfa mikið á sjónvarpið og hún er sérlega viðkvæm fyrir hávaða á kvöldin, það er einmitt hún sem stoppaði söng ljóskunnar kvöldið forðum og ég hef heyrt þau koma upp og skammast í ungu drengjunum á okkar hæð, m.a. fyrir að setja þvottavél af stað eftir klukkan níu. Miðað við heyrnarleysi karlsins geri ég ráð fyrir að hún standi fyrir því þó hann standi vitanlega alltaf með henni.
Þau eru mikið í burtu, eiga lítið hús á Normandí og tala stanslaust um að flytja alfarin í sveitina bráðum, hér sé orðið ólíft, allt of mikið af glæpum og svona. Mig grunar samt að þau njóti borgarlífsins betur en flest okkar, þau eru dugleg að skreppa í leikhús og á tónleika og ég hitti hana iðulega í neðanjarðarlestinni á leið í bæinn.
Það yrði sannarlega missir að þeim úr blokkinni, þau eru svo skemmtileg þrátt fyrir viðkvæmnina.

Lifið í friði.

18.10.06

framhaldssagan bíður - London hér kem ég!

Því miður virðist ég ekki hafa tíma til neins annars en að hafa mig til og fara með Kára í tónlistarskólann. Svo er ég flogin ef svo má að orði komast þegar kona ferðast með lest.
3ja og 4. hæð bíða fram að helgi. Þolinmæði er dyggð. Takk fyrir viðbrögðin.

Lifið í friði.

17.10.06

Önnur hæð

Aðra hæð (eða þá þriðju ef við notum íslenska alfína kerfið) mætti eiginlega kalla vesenhæðina. Þar er önnur íbúðin tóm en stendur til að leigja hana út.
Í henni bjuggu hjón með tvo litla drengi. Pabbinn er fríður dökkhærður fertugur töffari á glansandi bíl (að vísu í fjölskyldustærð, ekki sportbíll) en hann tók upp á þeim ósóma fyrir u.þ.b. ári að yfirgefa íturvöxnu ljóskuna með permanentið fyrir aðra aðeins grennri en jafnljóshærða konu sem kemur nú með honum á glansandi bílnum að sækja strákana aðra hvora helgi.
Ljóskan yfirgefna keypti íbúðina á móti, en það er íbúðin sem hýsti áður manninn sem barði dóttur sína og dónalega vin hans ásamt fleirum.
Ljóskan hefur staðið í stórræðum við að koma íbúðinni í stand. Hún er með ljósgula eldhúsinnréttingu, kirsuberjalitt plastparket á stofunni, hvíta veggi og stóra dökka kommóðu sem á stendur ilmkerti og nútímalegt líflegt plastskraut. Fyrir ofan kommóðuna er dularfull landslagsmynd í allt of þykkum og skrautlegum og gylltum ramma, manni dettur helst í hug að hún hafi erft þetta verk eftir sumarvinnu á Grund. Þetta er það eina sem njósnarinn íslenski á efstu hæðinni hefur náð að sjá af íbúðinni.
Ljóskan er mjög indæl, reykir út um gluggann og hélt upp á fertugsafmælið sitt í vor með hörkupartýi á mánudagskvöldi. Þá klæddi hún drengina sína í jakkaföt og lét þá vera með bindi. Hún var með dúndrandi diskó og greinilega heilmikið fjör. Mér var ekki boðið.
Strákarnir eru svo sætir að sá eldri, sem var lengi með sítt hár var talinn vera stúlka af okkur í langan tíma. Þeir eru bestu skinn, stundum heyrist í þeim en það er aldrei neitt til að pirra sig á. Þau eru með lítinn hund, sem var keyptur til að bæta drengjunum föðurmissinn og móðurinni ástmannsmissinn.
Hún svaraði húsfélagsbréfinu um daginn með hörkubréfi um að synir hennar færu daglega í bað og hún bæðist afsökunar á því og að hún ætlaði að strauja á morgun og gæti verið að hún myndi hlusta á tónlist um leið og bæðist hún líka afsökunar á því fyrirfram. Bréfið var horfið daginn eftir enda sagði heyrnalausi húsfélaginn mér að bréfið hefði alls ekki verið sett upp út af henni. Hann sagði mér þó ekki hverjum bréfið var ætlað.
Ég skil vel að hún hafi tekið þetta til sín, því fyrir nokkrum vikum fór hún að syngja ásamt drengjum sínum á laugardagskvöldi um tíuleytið. Það var mjög gott veður og allir með opið út og við hjónin litum einmitt hvort á annað: Partý? Vei! Lagið var Life is life og vakti gamlar minningar í hjarta mínu. En Adam var ekki lengi í Paradís því nágranni ein sem býr á hæðinni fyrir ofan og þið þekkið því ekki enn, sá ástæðu til að stöðva fjörið strax og upp hófust miklar illdeilur, öskur og læti með afskiptum a.m.k. íbúa þriggja íbúða og stóðu lætin yfir í rúman hálftíma. Við hjónin héldum ótrauð áfram í Yatzy enda erum við ekki mikið fyrir að taka þátt í rifrildum annarra. Ég get þó ekki neitað að mér var nokkuð brugðið og tapaði í Yatzy því ég á mjög erfitt með að einbeita mér þegar ég heyri fullorðið fólk öskra hvert á annað.
Við bíðum spennt eftir nýjum nágrönnum á þessa vandamálahæð, kannski örlítill uggur í manni, álög á stöðum leysast ekki svo glatt.

Lifið í friði.

Fyrsta hæð

Á fyrstu hæð (sem er eiginlega önnur hæð miðað við fáránlegar íslenskar talningareglur hæða) býr líklega prúðasta fólkið í blokkinni. Annars vegar konan sem var kynnt fyrir okkur í byrjun sem húsfélagi stigagangsins, hún er grönn og spengileg, líklega um fimmtugt-sextugt, stutthærð með gleraugu. Ég hef séð manninn hennar örsjaldan, leyfi mér að efast um að hann búi hér enn, en hún á son sem er um 17 ára gamall, afskaplega kurteis og vel upp alinn eins og ég og svo er mamma hennar mikið hjá þeim, elskuleg kona en heyrnalaus svo mjög erfitt er að skilja hana.
Drengurinn hefur tvisvar sinnum gerst sekur um unglingahegðun, fyrst þegar ég kom að honum í hörkusleik við útidyrnar. Þar eru fjórar tröppur að fara upp og dröslaði ég kerrunni og börnunum tveimur sem voru afar spennt yfir þessari undarlegu athöfn en allan tímann stóð unga parið þarna í sleik og káfaði drengurinn sem óður væri á rassi stúlkunnar. Létu eins og við værum alls ekkert að fara þarna upp og inn með látum og hamagangi. Þetta geta bara unglingar gert.
Svo hélt hann partý núna í haust og væri það ekki í frásögur færandi nema að hljóðin bárust alla leið hingað upp fram eftir nóttu og fóru dálítið í taugarnar á mér vegna þess að allir virtust öskra hver á annan en samt var engin tónlist! Það fannst mér lélegt partý og alls ekki ofan á brauð.

Á móti fyrrverandi húsfélaganum býr svo núverandi húsfélaginn ásamt konu sinni og nýfæddu barni sem ég reyndist ekki þurfa nálgunarbann á. Mér tekst að hemja mig og tilfinningar mínar þegar ég hitti litlu dúlluna. Við kíkjum stundum á þær mæðgur á leiðinni upp eða niður stigann og ég grenja aldrei neitt fyrr en við erum búín að kveðja og komin út úr íbúðinni. Hjónakornin eru óskaplega venjuleg, litlaust par sem velur sér pastelliti á veggina og á föt sín og kaupir húsgögnin í Ikea og eingöngu þar. Sem okkur Ikea aðdáendum með smekk finnst auðvitað svolítið lummó, það verður að vera gamalt í bland við hreinan stílinn þaðan.
Pabbinn er líka hálfheyrnalaus, sem gerir samskipti við hann erfið því vegna heyrnatækisins talar hann óskaplega lágt. En þau eru indælisfólk, næstum óþolandi fyrirmyndarborgarar en það er nú gott að búa í návist slíks fólks, er það ekki?
Hann fer í jakkafötum í vinnuna sem þýðir að hann vinnur annað hvort skrifstofuvinnu eða er sölumaður. Hún er fóstra á dagheimili og sagði mér sögur af börnunum þar löngu áður en hún varð sjálf mamma.

Ég er fyrst núna að gera mér grein fyrir því að heyrnalausir einstaklingar búa í báðum íbúðunum á fyrstu hæð. Ætti ég að hringja í sjónvarpið eða blöðin eða eitthvað?

Lifið í friði.

jarðhæð

Á jarðhæðinni búa hjón sem börnin mín kalla mamí og papí sem þýðir amma og afi á frönsku. Þau eru indæl og góð og eiga eina kisu. Stundum er þreytandi að hitta á þau, það verður að spjalla um daginn og veginn og ég er ansi oft á hlaupum enda nútímakona og þarf að flýta mér en ég hef aldrei látið mér detta annað í hug en að gefa þeim þann tíma sem þau þurfa enda er ég kurteis og vel upp alin.
Karlinn var í hernum og umgekkst ameríska og breska hermenn í Þýskalandi í seinni heimsstyrjöldinni. Hann er mjög ánægður með að ég skuli vera útlensk og talar alltaf við mig á ensku líka. Segir: Comment ça va? How do you do? og þegar ég spyr hvernig lyfjameðferðin gangi segir hann að batinn sé hægur, slow, slow. Stundum reynir hann að tala ensku við börnin mín því hann virðist nokkuð sannfærður um að hitt tungumálið þeirra sé enska. Mig grunar reyndar að þó ég hafi sagt honum nokkrum sinnum á viku í tvö ár að ég sé frá Íslandi, þá haldi hann enn að ég komi frá Írlandi.
Hann er búínn að vera nokkuð lengi í meðferð við krabbameini og er orðinn afskaplega tættur. Hann talar mun sjaldnar ensku við mig en áður og er alveg hættur að segja mér sögur af hermönnum, tyggjói og öllu því sem við þekkjum svo vel úr okkar eigin íslensku sögu.
Um daginn kom ég inn og sá stóran blómvönd við dyr þeirra. Mér brá ógurlega og það var einmitt þá sem ég gerði mér grein frir því hvað ég er hrædd um að hann lifi ekki lengi. Ég kvíði því ógurlega að hann deyi, ég veit ekki hvað verður þá um blessaða konuna hans sem lifir fyrir það að hugsa um hann. Þau fara á spítala inni í borginni á tveggja vikna fresti og hann liggur í 3 daga. Þangað fara þau í metró og svo fer hún til hans á hverjum degi. Hvunndagshetjur.
Einhverra hluta vegna eiga þau engin börn og þau virðast afskaplega sæl með það að vera kölluð amma og afi af börnunum mínum og sem betur fer er gott samband á milli þeirra. Enda hafa gömlu hjónin aldrei tekið upp á þeim ósið sem gamalt fólk á stundum til, að vera að reyna að kyssa þau eða klípa í kinnar þeirra. Þau bara beygja sig aðeins niður og spjalla vð þau, dást að fínu skónum og spyrja hvort þau megi eiga þá, svínvirkar á börnin sem eru alltaf jafn glöð að sjá þau.

Hann safnar frímerkjum en því miður fæ ég afskaplega sjaldan bréf frá Íslandi svo ekki græðir hann mikið á því frá mér. Ég geri þó í því að senda manninum mínum kort þegar ég er á Íslandi, aðallega til að skaffa karli ný frímerki í safnið.

Í gær mætti ég umrenningalegu konunni og dætrum hennar tveimur. Þær eru að flytja inn. Þetta verður spennandi.

Lifið í friði.

16.10.06

húsið mitt

Í húsinu mínu eru 10 íbúðir. Tvær þeirra eru tómar eins og er. Í hinum býr fólk. Og nokkur dýr líka.
Einhverjum í húsinu mínu finnst einhverjir aðrir of háværir.
En einhverra hluta vegna þora þau ekki að fara til þeirra háværu og segja þeim það beint út að þeim finnist þau of hávær heldur fóru þau í húsfélagið og nú er bréf niðri um að það eigi að virða rétt okkar allra á kyrrð frá 00:01 til 23:59. Tekin eru nokkur dæmi um hávaðasamar athafnir og eru baðferðir þar nefndar.
Börnin mín fara saman í bað. Þau leika sér þar á ýmsan hátt, toga í tippi, hella vatni út á gólf, skvetta framan í hvort annað og stundum verður hávaðinn mikill, sérstaklega þegar þau fara í öskurkeppni en það var vinsæll baðleikur um tíma.
Ég ákvað því, þegar bréfið birtist, að taka þetta til mín með baðið. Um kvöldið setti ég börnin í baðið eins og vanalega nema að ég kveikti ekki ljósið heldur kom með litlu næturljósin þeirra og kveikti á ilmkerti. Ég átti því miður ekki froðu en þarna sátu þau í rökkrinu með fallega flöktandi og marglita birtu og viti menn, þau hvísluðust á.
Daginn eftir tóku þau ekki í mál að hafa ljósið slökkt og léku sér af sömu hjartans lyst og vanalega. Ég er búin að ákveða að fara eftir því sem maðurinn minn sagði strax. Ef fólk hefur eitthvað við okkur og okkar líf að athuga, vinsamlegast hafið samband beint við okkur.
Það er flókið að búa í fjölbýlishúsi upp á þetta að gera. Samskiptin hafa yfirleitt alltaf verið góð hérna enda prímafólk sem býr hér í húsinu. Einu sinni leigðu nokkrir ungir menn íbúð á 2. hæð og leyfðu svolítið mörgum að búa hjá sér stundum og það varð smá vesen með þá, sérstaklega þegar einn þeirra tók upp á því að angra í tíma og ótíma nágrannakonu í húsinu á móti. Það var svo þegar einn þeirra réðist á dóttur sína sem var oft hjá þeim og hegndi henni hressilega fyrir búðahnupl að lögreglu var sigað á þá og þeir eru nú horfnir úr húsinu.
Nú er víst búið að leigja út íbúðina á jarðhæðinni sem hefur staðið tóm síðan í vor. Ég mætti a.m.k. tveimur konum sem ég hélt að væru umrenningar og þær sögðu mér að þær væru tilvonandi nágrannar mínir. Mér leist ekkert sérlega vel á þær en hef löngu lært að útlitið er ekki allt og kannski eru þetta bestu skinn þó fatasmekkurinn og/eða fjárráðin séu kannski ekki upp á marga fiska. En kannski fengu þær svo ekki íbúðina eftir allt saman því ég hef ekki séð þeim bregða fyrir aftur.
Það er ekkert grín að vera í íbúðaleit í París og úthverfunum í dag þegar beðið er um staðfestingu á u.þ.b. fjórfaldri leigunni í innkomu. Ónei.

Stundum langar mig ógurlega mikið í einbýlishús. Með garði. En það er nóg fyrir mig að hugsa um viðgerðir á þökum og annað slíkt til að minna mig á að húsfélagið er til margra hluta nytsamlegt þó mér finnist óþarfi að það sjái um dagleg samskipti okkar fólksins í blokkinni.
Maðurinn minn kann ekki að halda á hamri, veit ekki hver er munurinn á nagla og skrúfu, skilur ekki hvers vegna sumir hlutir hanga uppi sjálfir en aðra þurfi að festa o.s.frv. Ég er ekki að kvarta og vil ekki skipta honum út fyrir handy-homme þó stundum sakni ég þess að hafa ekki greiðari aðgang að slíku. Ég er núna í smá framkvæmdum hér heima og hef gaman af. Maðurinn minn dáist svo að árangrinum á kvöldin þó hann skilji kannski ekkert endilega þetta brölt í mér.
En ég myndi ekki vilja þurfa skríða upp á eigið þak til að stoppa leka.

Ég er ágætlega hress í dag, það er mánudagur, klukkan er þrjátíuogsex mínútur gengin í þrjú. Sólin skín og hitinn er 23 stig.
Best að fara niður í bykobúðina að kaupa svolítið til að mubblan hætti að sveigjast til. Krossbönd? Sumt kann ég bara að segja á frönsku því hér varð ég jú fullorðin og lærði að bora, negla, saga og skrúfa.
Næst skal ég segja ykkur frá skrúfvélinni sem ég gaf sjálfri mér síðasta vor og sem ég kyssi í hvert skipti sem ég nota hana.

Lifið í friði.

15.10.06

faðir eða sonur?

Eins og alltaf þegar ég fletti upp í orðabók, skoðaði ég fullt af orðum af handahófi. Yfirleitt rekst ég á eitthvað skemmtilegt á slíku ferðalagi. Hér kemur hápunktur morgunsins úr fransk-ensku orðabókinni:

pantagruélique adj: gargantuan

Lifið í friði.

afmæliskortið

Þetta fékk ég frá Sólrúnu á afmælisdaginn:

afmæliskort

Í pökkunum undir voru DVD-diskar, uppáhalds franska grínmyndin mín Les aventures du Rabbi Jacob og Desperate Housewifes, sería 2. Ég naut þess ágætlega að horfa á DH í fangi mannsins míns. Við eigum eftir að horfa á Rabbi Jacob, sem ég hef séð svo oft að ég hef ekki tölu á því en hlakka samt til að sjá enn einu sinni. Ég held að þetta hljóti að vera stærsti leiksigur Louis de Funès, sem var þó alltaf góður. Svo voru líka miðar í leikhús. Við hjónin förum að sjá Endatafl eftir Samuel Beckett á föstudaginn. Það var mjög skrýtið að ég var búin að sjá auglýsingar og hugsa með mér að mig langaði. Svona leynir kallinn á sér stundum.

En best þykir mér þó kortið. Það trónir hér í draslaralegri billyhillunni í svefnherberginu og í hvert skipti sem ég sé það kremst hjarta mitt örlítið. Ég fer ekki ofan af því: Að eignast börn er hámark sjálfselskunnar. Bévað puð og allt það en samt...

Lifið í friði.

Áli

Nú er hér á heimilinu lítill hestur sem dótir mín hefur tekið miklu ástfóstri við. Um daginn sagði ég henni að hún gæti gefið honum nafn. Hún leit á mig spennt og sagðist ætla að skýra hann íslensku nafni. Eftir smá umhugsun birti yfir henni og hún tilkynnti mér hróðug: Hann heitir Áli!

Mér finnst þetta svo dularfullt og skrýtið og veit alls ekki hvernig ég á að taka þessu. Ég hef ekki mikið galað yfir börnum mínum um álver og virkjanir. Ákvað snemma að leyfa þeim að vera saklaus og áhyggjulaus eins lengi og ég gæti komið því við. Ég held að þetta hljóti einfaldlega að vera tilviljun en veit þó að einhvers staðar inni í mér er þessi hugsun um að tilviljanir séu ekki til og að líklega sé þetta einhver ábending.

En nú ætla ég að leggjast yfir eina fáránlegustu og áreiðanlega tilgangslausustu þýðingu sem ég hef nokkurn tímann unnið. Ég er sannfærð um að hún verður aldrei lesin, ekki einu sinni af manninum sem bað mig um að gera þetta, hann verður í Hong Kong og kemur heim eftir að þýðingin verður send til Kóreu. Þetta er listi fyrir leikhóp yfir alla búningana sem þau eru að taka með sér í sýningarferð til Kóreu. Já, þeir eru ekki bara að sprengja og hræða, kunna nú líka að njóta lífsins en vilja þó vera fullvissir um að geta lesið af lista á ensku um hvern einasta hlut sem kemur með leikurunum í heimsókn. Sem ég er fullviss um að þeir munu svo ekki gera.
Gleymi því ekki hvað ég var stressuð þegar ég sendi kassana með Eimskipum þegar ég í væmniskasti viðkvæm og brotin eftir erfið sambandsslit lét mömmu gabba mig út í að flytja aftur til Íslands. Ég hafði fyllt skýrslurnar út þannig að fyrstu tveir kassarnir voru nákvæmir en eftir það varð allt miscellanious sem er skemmtilegt orð og notadrjúgt í tollskýrslugerð. Skemmst er frá því að segja að kassarnir komust óopnaðir inn í landið og ég hef dauðséð eftir því alla tíð síðan að hafa ekki smyglað nokkrum rauðvínsflöskum með.

Fyrir tveimur árum tók ég á móti risastórri styttu frá Asíu fyrir eiginmann föðursystur eiginmanns míns. Enskan sem notuð var í fylgiskjölunum var brandari sem ég get því miður ekki endurtekið, það er ekki hægt að muna súrrealískan texta sem maður les yfir einu sinni. Manni tókst að skilja að verið var að lýsa stríðsmanninum krjúpandi sem hann Jean var að flytja inn (og þessi stríðsmaður hefur hrætt bæði skúringakonur og barnabörnin allar götur síðan þar sem hann krýpur með horfið sverð sitt í höndum í borðstofunni í fína húsinu í Bordeaux). Ég á mynd af stríðsmanninum. Hér er hann:

IMG_2134

Lifið í friði.

12.10.06

nú hugsa ég og hugsa

Eins gott að ég hugsi ekki hausinn af mér.

Farfugl: Þú getur sungið Piaf á íslensku. Textarnir voru alltaf á síðu þjóðleikhússins og m.a.s. hljóðdæmi líka. Kommon, go girl!
Eða bara tvær úr tungunum og sagt að hin sé þarna í anda!

ÉG er hins vegar farin að láta mig dreyma um að þetta x-factor (hvað í helvítinu þýðir það?) komi til Frakklands líka og þá get ég mætt, nema náttúrulega að þetta verði alvöru samsæri og áheyrnarprófin verði í nóvember. Ég þarf að komast að þessu, dálítið erfitt að fylgjast með svona dóti þegar maður horfir ekki á sjónvarp. Þið Frakklandsbúar sem lesið mig (ég veit að það eru einhverjir) megið láta mig vita. Verst að ég myndi líklega stofna hjónabandi mínu í hættu, en heimsfrægðin hlýtur að krefjast fórna og ég er tilbúin til þess að beygja mig undir það.

Annars er ég bara með höfuðverk og kaffið nær ekki að hrista hann úr mér.

Það má halda áfram að setja tillögur í orðabelginn sem fylgir pistlinum um allt sem ég ætla að gera á Íslandi í nóvember, eða hér við þennan pistil. Ég fer á Thorvaldsen með Farfuglinum, ætli það sé karókíbar? er svoleiðis á Íslandi?
Munið að ég hef einn mánuð og ég á marga vini, enginn þeirra bloggar, fá þeirra setja athugasemdir hér og þá oftast undir dulnefnum eða nafnlaust. Ég er umkringd hóp spéhræddra einstaklinga en þau hlakka samt til að hitta mig og vilja eyða tíma með mér, í raunheimum. Þetta er til þeirra: Er kampavínspartý ákveðið?

Best að koma liðinu í föt, má ekki vera of seinn í skólann.

Lifið í friði.

Færeyjar

Hverjum er ekki sama um einhvern fótboltaleik. Færeyingar eru ekkert verri en Frakkar að öðru leyti.
Fimm núll.

Lifið í friði.

11.10.06

pirr og ferðaplön

Pirrandi að vita af X-factor (hvað sem það nú þýðir) og geta ekki mætt í áheyrnarpróf. Ég kvartaði nefninlega fyrir löngu yfir aldurshámarkinu fasíska í Idolþáttunum og afhjúpaði þá ósk mína og löngun til að verða fræg söngkona á Íslandi. En ég verð fjarri góðu gamni um helgina. Farfuglinn verður að fara og syngja eitthvað dömulegt og tileinka mér lagið. Eða eitthvað.
Reyndar er það nú staðreyndin að ég er með svo mikinn sviðsskrekk að þó ég vissi að ég kæmist alls ekki um helgina, fékk ég samt risahnút í magann við tilhugsunina um að fara í svona próf.
Ég stend og gala yfir fólki sögur um París í hverri viku. Í hvert skipti sem ég fer í vinnuna líður mér eins og ég eigi að stíga á svið, ég er með hjartslátt, get verið mjög uppstökk við manninn minn t.d. og er hreinlega ómöguleg þangað til ég stend skyndilega frammi fyrir fólkinu. Yfirleitt hverfur skrekkurinn á innan við mínútu.

Ég er mjög ánægð með Davíð Þór og auglýsinguna efst á síðunni hans. Vissi t.d. ekki um plötuna Villikettir, er hún skemmtileg? Mig vantar góðar íslenskar barnaplötur. Ætla auðvitað að kaupa Gönguferð á sandi, sólóplötu Kristins Níelssonar, handa sjálfri mér.
Nú fer nefninlega að styttast í Íslandsferð mína (ótrúleg óheppni að áheyrnin fyrir x-factor sé ekki í nóvember) og ég er farin að skipuleggja hitt og þetta:
Komin með dagsetningu á frænkuboð þar sem rifjaðar verða upp Parísarsögur.
Læt mig dreyma um Karíus og Baktus á Akureyri (er ekki Sitji Guðs englar fyrir aðeins eldri börn en mín, 3ja og 41/2?) og allar ábendingar um önnur barna- og fullorðinsleikrit eru vel þegnar.
Bókmenntaveisla með þemanu Einar Áskell.
Mig langar á Næsta bar, helst með vélstýrunni, á Ölstofunna með Björgu, kíkja kannski í einn bleikan kokkteil á 101 ef pabbi vill lána mér jakkaföt og bindi. Mig langar á a.m.k. eitt almennilegt íslenskt djamm.
Ég hlakka til að koma við í Kirsuberjatrénu og hjá Rögnu Fróða. Ætla líka að kíkja á fleiri staði í miðbænum s.s. Nornabúðina.
Ég ætla í sund, vonandi á hverjum degi og þá með börnin með mér.
Ég ætla að borða tvær með öllu og fá mér kókosbollu í eftirmat og leigja vídeóspólu, þetta væri t.d. fínt prógramm daginn eftir íslenska djammið.
Ég ætla einmitt að skoða úrvalið af frönskum myndum á betri leigum borgarinnar, ef þær eru ennþá til.
Ég þarf að fara í bankann minn og breyta blessaða netleyniorðinu sem ég breytti að þeirra skipan á dögunum og man ekki og get ekki fengið breytt nema mæta sjálf.
En mest af öllu hlakka ég til að sitja að morgni með kaffibolla og ristabrauð og RÚV og mömmu og pabba.

Aðal kvíðinn: Ég hef ekki græna glóru um það hvar þau búa. Þau tóku upp á þeim ósóma að flytja úr Norðurmýrinni upp að einhverju vatni sem heitir mannsnafni og ég veit ekki hvar er. Þetta segjast þau hafa gert til að hafa herbergi fyrir mig. Sem er vissulega munur, leiðinlegt að sofa í stofunni en ég hefði heldur viljað stofu í Norðurmýrinni, þó þar séu víst papparassar og annar óþjóðalýður á ferð.

Ég hlakka svo til að koma heim að það skyggir gersamlega á London-ferðina. Eins gott að ég gleymi ekki að fara þangað fyrst.

Annars bíð ég spennt eftir svari frá Andra Snæ út af undarlegri gagnrýni Jóns á Draumalandinu. Hvað í ósköpunum átti þessi gagnrýni sem getur blaðsíðutala en aldrei efnistaka að þýða? Mín ágiskun er að hann hafi fengið manneskju eða hóp til að greina bókina. Það var gert (líklega á kostnað ríkisins) og manneskjan/hópurinn vísar í blaðsíður sem þarf að lesa og treystir ráðherranum til að læra vel þær síður og geta svo þóst hafa lesið bókina. Ráðherrann hafði ekki nennu til þess og lét þetta duga. Hann hefur ekki lesið bókina en hefur skilið á umræðunni að hún er falleg og lætur líka duga að gefa henni það hrós, sem, eins og segir að Fjallabaki, er niðrandi.

Svo er um að gera að Davíð Þór útskýri vandlega metafóru sína um engisprettur. A.m.k. einn virðist ekki alveg hafa skilið hana.

Lifið í friði.

kjarnorkukvíði

Ég er komin með sama hnútinn í magann og ég hafði þegar ég var barn.
Þessi hættulegi leikur hlýtur að enda með ósköpum.

Lifið í friði.

9.10.06

kemur svo sem ekki á óvart

Þegar kona fer að taka til í skápum, hlýtur sú staða að koma upp að IKEA-ferð reynist nauðsyn.

Lifið í friði.

hreingerningar

Mánudagurinn hófst á kaffibolla og svo var tekið til í tenglalistanum, nokkrum enn bætt við blogglistann, óþolandi að þurfa endalaust að vera að uppgötva nýja og góða bloggara, en hvað getur íslensk kona í útlöndum gert annað en að leyfa sér að vera háð þessu samskiptaformi?
Eftir þetta þarfaverk bætti ég við nýjum kafla sem heitir Móðir jörð. Þar eru grænir vefir og friðarvefir. Allar ábendingar vel þegnar. Þetta er gert eftir mikinn þrýsting frá vinkonum sem berjast nú með kjafti og klóm gegn stóriðjustefnu o.s.frv. Ég er dálítið hikandi, þessi síða er jú í nánum tengslum við parisardaman.com og ég er hrædd um að geta misst viðskipti út af þessu. En ég ætla að taka áhættuna.
Ég get bara lofað því að ég hef aldrei hætt að bera virðingu fyrir fólki fyrir skoðanir þess og þoli illa fólk sem er einum of fyllt sjálfbirgingslegri trú á því að það hafi fundið sannleikann og verði nú að snúa öllum öðrum til betri vegar. Fyrir mér er vandlæting versta tilfinningin, mun verri en afbrýðisemin sem þó étur fólk innan frá. Þegar ég finn fyrir vandlætingu tek ég sjálfa mig umsvifalaust í gegn, spái og spekúlera og leyfi mér ekki að sökkva í þann drullupytt.
Kannski má kalla mig hræsnara en það verður þá að hafa það. Ég fann lýsinguna á mér í Um anarkisma (sem ég mæli með að allir lesi) og þar er ég þessi alltumvefjandi væmna týpa sem trúir á allt hið góða og eilífan frið. Ég þarf að lesa bókina aftur með blýant í hönd og þá skal ég birta lýsinguna hérna, ég skellihló þegar ég komst að því hvaða aumingjatýpa ég er í raun og veru.

En nú ætla ég fram í eldhús að fá mér hafragraut og svo verður tekið til í nokkrum skápum. Þetta verður góður dagur.

Lifið í friði.

8.10.06

vandinn

er sá að maður skilur hvað þau meina, maður leiðréttir setninguna í huganum.
En ómögulega orðalagið stendur samt þarna, á skjánum, og greypist að einhverju leyti í hugann. Sjónminni mitt er sterkt.
Þetta er af mbl.is í dag:
"Samkvæmt upplýsingum frá lögreglunni í Reykjavík virðist sem ökumaðurinn hafi fipast við aksturinn, en væntanlega var bifreiðinni ekið of hratt og sveigt oft á milli akreina, þannig að hann rekst utan í annan bíl og kastast í gagnstæða átt, það er fyrir umferð sem ekið er suður Kringlumýrarbraut."

Mér finnst þetta orðið frekar alvarlegt mál og ég veit að ég er ekki ein.
Ég reyni að lifa samkvæmt reglunni að ef ég nenni ekki að gera eitthvað vel, sé betra að sleppa því. Ég glími náttúrulega iðulega við það að finnast ég vera að gera allt til hálfs og ekkert vel, en ég reyni þó alltaf að gera mitt besta. Eru þau að reyna það á þessum vefmiðlum? Ef svo er, vorkenni ég þeim.

Lifið í friði.

7.10.06

ein spurning

Hvaðan kemur þetta: "já þú meinar?"
Ég kippist alltaf við þegar Íslendingar segja þetta við mig, það hefur ekki brugðist núna í tja, mánuð eða meira að allir nota þetta. Hver er það sem hefur svona mikil áhrif? Er þetta úr grínþætti eða er þetta einhver spjallþáttastjóri?

Annars fer þetta ekkert í taugarnar á mér, alls ekki, bara forvitin því mér finnst þetta hafa byrjað svo skarpt og undarlegt að heyra þetta í hvert einasta skipti sem ég geng með hóp.

Lifið í friði.

6.10.06

þeir eru milljón

Ég veit alls ekki hvernig ég á að skilja þetta:

Innlent | mbl.is | 6.10.2006 | 18:34
Hvalfjarðargöngin lokuð í tæpa klukkustund vegna umferðarslyss
Hvalfjarðargöngin hafa verið opnuð á nýjan leik en þeim var lokað í báðar áttir þegar bifreið valt í þeim á sjötta tímanum. Að sögn Vegagerðarinnar var slysið eins alvarlegt og talið var í fyrstu og er ökumaður ómeiddur. Umferð um göngin hefur því aftur verið hleypt á.

Lifið í friði.

5.10.06

Londres

Þá er ég komin með miða til London. Fram og til baka, fimm tímar í lest, hræðilega löng göng sem tekur víst "bara" hálftíma að renna í gegn um, EF lestin stoppar ekkert. Ég ætti kannski að fara til læknis og fá léttróandi töflur? Var ég svona áður? Nei. Þetta er ný tilfinning, ég var kannski smá svona klostró en ekkert í líkingu við það sem ég er í dag.
En til London skal ég komast og verð að fá heimilisfang og nafn á bestu bókabúðinni. Ég verð í tímapressu þar sem ég ætla að gista á sama stað og fótboltakonurnar og það virðist mér vera einhvers staðar á hjara veraldar, langt langt langt frá miðbænum. Borgar sig ekki samt að taka subway alveg á endastöð og svo taxi þaðan?
Ég hlakka til. Það er fáránlega langt síðan ég var þarna síðast og þegar ég var að skoða subway kortið áðan fannst mér þetta svo skemmtilega dulafullt, brennandi eikur og svona. Útlenskt. Frakkland er því miður hætt að vera útlenskt. Eða er orðið kannski framandi? Það er a.m.k. orðið framorðið. Farin að ná í krógana.

Lifið í friði.

4.10.06

fyrst það spurðist út

get ég náttúrulega bara sagt það: Ég á afmæli í dag og er 37 ára.
Næstum jafngömul og þegar mamma mín átti bróður minn, sem mér fannst þá eldgömul.

Gaman að þessu. Lífi.

Ég ákvað að skella í köku og komst að því að ekki voru til egg þegar ég var búin að setja allt hitt í skálina. Við skruppum eftir eggjum, við börnin áðan og kakan verður annað hvort borðuð í desert á eftir chili con carne sem hefur mallað hér í dag, eða bara á morgun eða hinn. Þetta er svona fullorðinsnammikaka sem geymist, þ.e.a.s. ef maður byrjar ekki. Döðlutertan af Maður lifandi vefnum. Algert nammi. Ég setti reyndar einn ofþroskaðan banana með núna. Og set alltaf mun minni sykur, eins og ég geri við næstum allar uppskriftir. Læt ykkur vita hvernig það kom út, með bananann. Sykurinn var sko ekki vandamál síðast, kakan var kláruð í huggulegu kaffiboði, líklega barnaafmæli, engar leifar daginn eftir.
Ég ætla að halda upp á afmælið mitt í kvöld með því að eiga góðan kvöldverð með karli og börnum. Eins og flest kvöld. Mér finnst það langlangbest. Svona yfirleitt.

Lifið í friði.

vespuvandamálið

Einhver prestur hér í Frakklandi líkti mótmælum kirkjunnar á umstanginu og trúgirninni í kringum Da Vinci-lykilinn við vespuvandamálið, því meira sem þú blakar henni frá þér, því árásargjarnari verður hún.

Einhvern veginn finnst mér algerlega ástæðulaust að koma með vef á móti vantrúarfólkinu, finnst það geta orðið jafnvel hættulegt, hætta á að ofstækið nái tökum þar líka.
Eiginlega finnst mér bara trúmál vera jafn persónuleg einkamál og kynlíf. Mér finnst ég ekki geta sagt frá því hér hvenær eða hvernig ég stunda kynlíf. Mér finnst ég ekki heldur geta sagt frá því hérna hvenær og hvernig ég bað síðast til guðsins minnar. Ég get eiginlega ekki útskýrt þetta betur.
A.m.k. ekki núna strax.
En ég endurtek það sem ég sagði í gær: Ég vorkenni sumu af þessu fólki. Get ekki annað. Þau eru flækt í net, föst í vespuárás, full af góðri trú/vantrú en týnd í rifrildum og rökfræðirugli.
Ég styð Davíð Þór algerlega í því að eyða út óviðeigandi athugasemdum, finnst það sjálfsagt mál. En ég mun aldrei leggja nafn mitt við vefsíðuna hans. Ekkert frekar en ég fer aldrei inn á vefsíðuna Vantrú. Hún fór eins og Barnaland og Málefnin, í hóp síðna sem ég bara get alls ekki þolað að lesa. Og þess vegna bara geri ég það ekki. Það pirrar mig engan veginn að þessar síður skuli vera til, að fólk hafi gaman af þessu, það truflar mig frekar að fólk sé að leika sér að því að pirra sjálft sig með því að lesa skilmerkilega vefsíður til þess eins að vera hneykslað eða reitt.
Skoðanafrelsi og tjáningarfrelsi eru falleg og góð orð.
Þegar ráðist er á stærri máttar þarf ekkert að verða reiður, bara þegar ráðist er á minni máttar, er það ekki?

Þetta er skrifað í miklum flýti, getur vel verið að ég stroki þetta út á eftir. Mig langar mest að taka haloscan af, ég nenni ekki að fá eitthvað rökfræðirifrildi hingað inn. Ég ætla nú samt að taka áhættuna.

Lifið í friði.

lesið þetta

Þið verðið að lesa Ástu Svavars, núna. Tengill í tenglalista.

Lifið í friði.

3.10.06

Ég á að vera að vinna í tölvunni og er að því en er alltaf að stelast á bloggin á milli. Ég segi mér það til varnar að ég byrjaði á æsispennandi glæpasögu á sunnudaginn og er rúmlega hálfnuð með hana og hef ekki lesið eina línu í henni í allan morgun. Þetta gæti sem sagt verið verra.

Lifið í friði.

veit ekki

Ég veit ekki hvorum ég vorkenni meira: Þeim trúuðu sem hamast við að rífast um trúmál á netinu eða þeim vantrúuðu sem hamast við sama hlut.
Mér finnst báðir hóparnir vera rjúpur við staura, hvað sem það svo þýðir.

Lifið í friði.

nei

Þessu hér er ég ekki sammála.
Það er rangt að fela sig bak við það að vera meðvitaður um vandamálin. Þau geta samt verið vandamál og oft mjög erfið.

Lifið í friði.

allt til fjandans

Allt sem ég var búin að vinna í morgun var að detta út úr tölvunni. Bara af því ég tók mér smá pásu og opnaði einhvern brandara í powerpoint. Ég sem er næstum hætt að lesa þessa brandara sem berast manni í stríðum straumum.
Og ég sem er alltaf að vista skjölin reglulega, en vissi samt þegar ég neyddist til að slökkva á tölvunni að ég hafði líklega aldrei gert það í morgun.

Sem betur fer var þetta aðallega bróderingavinna, laga setningu hér og þar en ég hafði samt bætt við einum frekar löngum kafla og svo man ég að ég breytti einni setningu töluvert til hins betra en get engan veginn munað hvað það var sem ég gerði.
Gaman að þessu. Eins gott að ég á síríus og möndlur. Nú verður tekið til við tröstespisen.

Lifið í friði.

2.10.06

drekkutíminn

Brauðsneið með osti eða síríus rjómasúkkulaði og mjólk. Valkvíði? Ó nei.

Lifið í friði.

glerhjúpurinn

Ég hef sagt frá því hér áður að til að þola mannmergðina í París nota ég þá aðferð að ímynda mér að ég sé inni í glerhjúp, vitanlega óbrjótandi, og verð ekki fyrir neinum áhrifum af fjöldanum. Svíf bara um á milli fólksins og geri það sem ég þarf að gera án þess að missa mig í pirringi og þreytu sem getur stundum heltekið mann við svona aðstæður.
En þegar maður situr við tölvuna sína, niðursokkinn í verkefni og fær símtal frá fokreiðri manneskju sem öskrar og æpir, sumt af því rétt en annað bara lygi, þá er ekki mikið um varnir. Ég sit hér skjálfandi með grátstafinn í kverkunum. Frekjan ég fékk heldur betur á baukinn núna.
Ég verð að muna að nota sjálf blessaðan viðtengingarháttinn, sem ég ásaka blaðamenn stundum fyrir að nota ekki meira. A.m.k. þegar ég sendi fólki rukkanir fyrir hlutum sem það reyndist svo hafa greitt. Úff, hvað sumir hlutir geta verið erfiðir og flóknir. Púff hvað ég er viðkvæm. Fjúff hvað ég er fegin að nú er ég laus við að þurfa að spyrja mig að því hvort ég eigi að halda áfram samstarfi við ákveðna aðila. Það er víst áreiðanlega búið.

Rignir í París. Jólin byrja í IKEA 12. október. En hjá þér?

Lifið í friði.

1.10.06

London baby

Ég ætla að fara til London í október. Á fótboltaleik.
Ég er ekki plebbi, bara stolt stóra systir.
Hverjir koma með?

Lifið í friði.

taka 2

Sé óvinur þinn ofjarl í lið með honum gakk.


Annars var ég að kveðja bloggarana Hildigunniog Jón Lárus og FÍfu, dóttur þeirra eftir mjög skemmtilega kvöldstund þar sem ég var minnt á að þó að mér finnist allir eiga að þekkja Jaques Brel og Barbara þá er það bara alls ekki þannig.
Sit hér ein með fullt af íslensku súkkulaði, möndlum, lakkrís og ópal og óttast eigin sjálfsstjórn sem á það til að vera engin.

Ein gin.

Lifið í friði.