27.10.06

sól og sumar aftur

Daginn sem litla systir kom með litlu frænku mína, dóttur sína, í heimsókn, fór hitinn upp í 20 stig. Nú skín sólin og því verður áreiðanlega lítið messað yfir ykkur aðdáendum mínum næstu daga. Hver veit hversu dugleg ég verð eftir að til Íslands verður komið, í lok næstu viku? Ekki veit ég það. Alltaf nóg að gera þar.
Næst á dagskrá: Fara með börnin í sirkúsinn. Ekki hægt að leyfa þeim bara að klappa blessuðum skepnunum, þau verða víst líka að fá sýninguna sjálfa þó persónulega finnist mér verðið níðingsskapur. En það er líklega þetta fróma sparnaðarnáttúra mín sem kemur upp í mér þegar ég þarf að spandera peningum í eitthvað sem ég sjálf er kannski ekkert sérlega spennt fyrir. Ekki það að mér finnist ekki gaman í sirkús, bara of stutt síðan síðast og ég vil heldur fullorðinssirkús. Þið spyrjið ykkur kannski hvað það gæti verið, það er ekki neitt dónaldegt, ekki akróbatar hangandi á hreðjum sínum eða neitt slíkt, bara svona raffíneraðra, nútímalegra, meiri "hönnun" og "konsept" og svona fínerí.
En ég er að rugla enda er ég ölvuð af gleði yfir endurkomu sumarsins.
Farin út.
Eigið ykkar erfiðu getraunir og aðrar raunir sjálf.
En umfram allt:
Lifið í friði.