pirr og ferðaplön
Pirrandi að vita af X-factor (hvað sem það nú þýðir) og geta ekki mætt í áheyrnarpróf. Ég kvartaði nefninlega fyrir löngu yfir aldurshámarkinu fasíska í Idolþáttunum og afhjúpaði þá ósk mína og löngun til að verða fræg söngkona á Íslandi. En ég verð fjarri góðu gamni um helgina. Farfuglinn verður að fara og syngja eitthvað dömulegt og tileinka mér lagið. Eða eitthvað.Reyndar er það nú staðreyndin að ég er með svo mikinn sviðsskrekk að þó ég vissi að ég kæmist alls ekki um helgina, fékk ég samt risahnút í magann við tilhugsunina um að fara í svona próf.
Ég stend og gala yfir fólki sögur um París í hverri viku. Í hvert skipti sem ég fer í vinnuna líður mér eins og ég eigi að stíga á svið, ég er með hjartslátt, get verið mjög uppstökk við manninn minn t.d. og er hreinlega ómöguleg þangað til ég stend skyndilega frammi fyrir fólkinu. Yfirleitt hverfur skrekkurinn á innan við mínútu.
Ég er mjög ánægð með Davíð Þór og auglýsinguna efst á síðunni hans. Vissi t.d. ekki um plötuna Villikettir, er hún skemmtileg? Mig vantar góðar íslenskar barnaplötur. Ætla auðvitað að kaupa Gönguferð á sandi, sólóplötu Kristins Níelssonar, handa sjálfri mér.
Nú fer nefninlega að styttast í Íslandsferð mína (ótrúleg óheppni að áheyrnin fyrir x-factor sé ekki í nóvember) og ég er farin að skipuleggja hitt og þetta:
Komin með dagsetningu á frænkuboð þar sem rifjaðar verða upp Parísarsögur.
Læt mig dreyma um Karíus og Baktus á Akureyri (er ekki Sitji Guðs englar fyrir aðeins eldri börn en mín, 3ja og 41/2?) og allar ábendingar um önnur barna- og fullorðinsleikrit eru vel þegnar.
Bókmenntaveisla með þemanu Einar Áskell.
Mig langar á Næsta bar, helst með vélstýrunni, á Ölstofunna með Björgu, kíkja kannski í einn bleikan kokkteil á 101 ef pabbi vill lána mér jakkaföt og bindi. Mig langar á a.m.k. eitt almennilegt íslenskt djamm.
Ég hlakka til að koma við í Kirsuberjatrénu og hjá Rögnu Fróða. Ætla líka að kíkja á fleiri staði í miðbænum s.s. Nornabúðina.
Ég ætla í sund, vonandi á hverjum degi og þá með börnin með mér.
Ég ætla að borða tvær með öllu og fá mér kókosbollu í eftirmat og leigja vídeóspólu, þetta væri t.d. fínt prógramm daginn eftir íslenska djammið.
Ég ætla einmitt að skoða úrvalið af frönskum myndum á betri leigum borgarinnar, ef þær eru ennþá til.
Ég þarf að fara í bankann minn og breyta blessaða netleyniorðinu sem ég breytti að þeirra skipan á dögunum og man ekki og get ekki fengið breytt nema mæta sjálf.
En mest af öllu hlakka ég til að sitja að morgni með kaffibolla og ristabrauð og RÚV og mömmu og pabba.
Aðal kvíðinn: Ég hef ekki græna glóru um það hvar þau búa. Þau tóku upp á þeim ósóma að flytja úr Norðurmýrinni upp að einhverju vatni sem heitir mannsnafni og ég veit ekki hvar er. Þetta segjast þau hafa gert til að hafa herbergi fyrir mig. Sem er vissulega munur, leiðinlegt að sofa í stofunni en ég hefði heldur viljað stofu í Norðurmýrinni, þó þar séu víst papparassar og annar óþjóðalýður á ferð.
Ég hlakka svo til að koma heim að það skyggir gersamlega á London-ferðina. Eins gott að ég gleymi ekki að fara þangað fyrst.
Annars bíð ég spennt eftir svari frá Andra Snæ út af undarlegri gagnrýni Jóns á Draumalandinu. Hvað í ósköpunum átti þessi gagnrýni sem getur blaðsíðutala en aldrei efnistaka að þýða? Mín ágiskun er að hann hafi fengið manneskju eða hóp til að greina bókina. Það var gert (líklega á kostnað ríkisins) og manneskjan/hópurinn vísar í blaðsíður sem þarf að lesa og treystir ráðherranum til að læra vel þær síður og geta svo þóst hafa lesið bókina. Ráðherrann hafði ekki nennu til þess og lét þetta duga. Hann hefur ekki lesið bókina en hefur skilið á umræðunni að hún er falleg og lætur líka duga að gefa henni það hrós, sem, eins og segir að Fjallabaki, er niðrandi.
Svo er um að gera að Davíð Þór útskýri vandlega metafóru sína um engisprettur. A.m.k. einn virðist ekki alveg hafa skilið hana.
Lifið í friði.
<< Home