4.10.06

vespuvandamálið

Einhver prestur hér í Frakklandi líkti mótmælum kirkjunnar á umstanginu og trúgirninni í kringum Da Vinci-lykilinn við vespuvandamálið, því meira sem þú blakar henni frá þér, því árásargjarnari verður hún.

Einhvern veginn finnst mér algerlega ástæðulaust að koma með vef á móti vantrúarfólkinu, finnst það geta orðið jafnvel hættulegt, hætta á að ofstækið nái tökum þar líka.
Eiginlega finnst mér bara trúmál vera jafn persónuleg einkamál og kynlíf. Mér finnst ég ekki geta sagt frá því hér hvenær eða hvernig ég stunda kynlíf. Mér finnst ég ekki heldur geta sagt frá því hérna hvenær og hvernig ég bað síðast til guðsins minnar. Ég get eiginlega ekki útskýrt þetta betur.
A.m.k. ekki núna strax.
En ég endurtek það sem ég sagði í gær: Ég vorkenni sumu af þessu fólki. Get ekki annað. Þau eru flækt í net, föst í vespuárás, full af góðri trú/vantrú en týnd í rifrildum og rökfræðirugli.
Ég styð Davíð Þór algerlega í því að eyða út óviðeigandi athugasemdum, finnst það sjálfsagt mál. En ég mun aldrei leggja nafn mitt við vefsíðuna hans. Ekkert frekar en ég fer aldrei inn á vefsíðuna Vantrú. Hún fór eins og Barnaland og Málefnin, í hóp síðna sem ég bara get alls ekki þolað að lesa. Og þess vegna bara geri ég það ekki. Það pirrar mig engan veginn að þessar síður skuli vera til, að fólk hafi gaman af þessu, það truflar mig frekar að fólk sé að leika sér að því að pirra sjálft sig með því að lesa skilmerkilega vefsíður til þess eins að vera hneykslað eða reitt.
Skoðanafrelsi og tjáningarfrelsi eru falleg og góð orð.
Þegar ráðist er á stærri máttar þarf ekkert að verða reiður, bara þegar ráðist er á minni máttar, er það ekki?

Þetta er skrifað í miklum flýti, getur vel verið að ég stroki þetta út á eftir. Mig langar mest að taka haloscan af, ég nenni ekki að fá eitthvað rökfræðirifrildi hingað inn. Ég ætla nú samt að taka áhættuna.

Lifið í friði.