4.10.06

fyrst það spurðist út

get ég náttúrulega bara sagt það: Ég á afmæli í dag og er 37 ára.
Næstum jafngömul og þegar mamma mín átti bróður minn, sem mér fannst þá eldgömul.

Gaman að þessu. Lífi.

Ég ákvað að skella í köku og komst að því að ekki voru til egg þegar ég var búin að setja allt hitt í skálina. Við skruppum eftir eggjum, við börnin áðan og kakan verður annað hvort borðuð í desert á eftir chili con carne sem hefur mallað hér í dag, eða bara á morgun eða hinn. Þetta er svona fullorðinsnammikaka sem geymist, þ.e.a.s. ef maður byrjar ekki. Döðlutertan af Maður lifandi vefnum. Algert nammi. Ég setti reyndar einn ofþroskaðan banana með núna. Og set alltaf mun minni sykur, eins og ég geri við næstum allar uppskriftir. Læt ykkur vita hvernig það kom út, með bananann. Sykurinn var sko ekki vandamál síðast, kakan var kláruð í huggulegu kaffiboði, líklega barnaafmæli, engar leifar daginn eftir.
Ég ætla að halda upp á afmælið mitt í kvöld með því að eiga góðan kvöldverð með karli og börnum. Eins og flest kvöld. Mér finnst það langlangbest. Svona yfirleitt.

Lifið í friði.