17.10.06

Fyrsta hæð

Á fyrstu hæð (sem er eiginlega önnur hæð miðað við fáránlegar íslenskar talningareglur hæða) býr líklega prúðasta fólkið í blokkinni. Annars vegar konan sem var kynnt fyrir okkur í byrjun sem húsfélagi stigagangsins, hún er grönn og spengileg, líklega um fimmtugt-sextugt, stutthærð með gleraugu. Ég hef séð manninn hennar örsjaldan, leyfi mér að efast um að hann búi hér enn, en hún á son sem er um 17 ára gamall, afskaplega kurteis og vel upp alinn eins og ég og svo er mamma hennar mikið hjá þeim, elskuleg kona en heyrnalaus svo mjög erfitt er að skilja hana.
Drengurinn hefur tvisvar sinnum gerst sekur um unglingahegðun, fyrst þegar ég kom að honum í hörkusleik við útidyrnar. Þar eru fjórar tröppur að fara upp og dröslaði ég kerrunni og börnunum tveimur sem voru afar spennt yfir þessari undarlegu athöfn en allan tímann stóð unga parið þarna í sleik og káfaði drengurinn sem óður væri á rassi stúlkunnar. Létu eins og við værum alls ekkert að fara þarna upp og inn með látum og hamagangi. Þetta geta bara unglingar gert.
Svo hélt hann partý núna í haust og væri það ekki í frásögur færandi nema að hljóðin bárust alla leið hingað upp fram eftir nóttu og fóru dálítið í taugarnar á mér vegna þess að allir virtust öskra hver á annan en samt var engin tónlist! Það fannst mér lélegt partý og alls ekki ofan á brauð.

Á móti fyrrverandi húsfélaganum býr svo núverandi húsfélaginn ásamt konu sinni og nýfæddu barni sem ég reyndist ekki þurfa nálgunarbann á. Mér tekst að hemja mig og tilfinningar mínar þegar ég hitti litlu dúlluna. Við kíkjum stundum á þær mæðgur á leiðinni upp eða niður stigann og ég grenja aldrei neitt fyrr en við erum búín að kveðja og komin út úr íbúðinni. Hjónakornin eru óskaplega venjuleg, litlaust par sem velur sér pastelliti á veggina og á föt sín og kaupir húsgögnin í Ikea og eingöngu þar. Sem okkur Ikea aðdáendum með smekk finnst auðvitað svolítið lummó, það verður að vera gamalt í bland við hreinan stílinn þaðan.
Pabbinn er líka hálfheyrnalaus, sem gerir samskipti við hann erfið því vegna heyrnatækisins talar hann óskaplega lágt. En þau eru indælisfólk, næstum óþolandi fyrirmyndarborgarar en það er nú gott að búa í návist slíks fólks, er það ekki?
Hann fer í jakkafötum í vinnuna sem þýðir að hann vinnur annað hvort skrifstofuvinnu eða er sölumaður. Hún er fóstra á dagheimili og sagði mér sögur af börnunum þar löngu áður en hún varð sjálf mamma.

Ég er fyrst núna að gera mér grein fyrir því að heyrnalausir einstaklingar búa í báðum íbúðunum á fyrstu hæð. Ætti ég að hringja í sjónvarpið eða blöðin eða eitthvað?

Lifið í friði.