2.10.06

glerhjúpurinn

Ég hef sagt frá því hér áður að til að þola mannmergðina í París nota ég þá aðferð að ímynda mér að ég sé inni í glerhjúp, vitanlega óbrjótandi, og verð ekki fyrir neinum áhrifum af fjöldanum. Svíf bara um á milli fólksins og geri það sem ég þarf að gera án þess að missa mig í pirringi og þreytu sem getur stundum heltekið mann við svona aðstæður.
En þegar maður situr við tölvuna sína, niðursokkinn í verkefni og fær símtal frá fokreiðri manneskju sem öskrar og æpir, sumt af því rétt en annað bara lygi, þá er ekki mikið um varnir. Ég sit hér skjálfandi með grátstafinn í kverkunum. Frekjan ég fékk heldur betur á baukinn núna.
Ég verð að muna að nota sjálf blessaðan viðtengingarháttinn, sem ég ásaka blaðamenn stundum fyrir að nota ekki meira. A.m.k. þegar ég sendi fólki rukkanir fyrir hlutum sem það reyndist svo hafa greitt. Úff, hvað sumir hlutir geta verið erfiðir og flóknir. Púff hvað ég er viðkvæm. Fjúff hvað ég er fegin að nú er ég laus við að þurfa að spyrja mig að því hvort ég eigi að halda áfram samstarfi við ákveðna aðila. Það er víst áreiðanlega búið.

Rignir í París. Jólin byrja í IKEA 12. október. En hjá þér?

Lifið í friði.