17.10.06

jarðhæð

Á jarðhæðinni búa hjón sem börnin mín kalla mamí og papí sem þýðir amma og afi á frönsku. Þau eru indæl og góð og eiga eina kisu. Stundum er þreytandi að hitta á þau, það verður að spjalla um daginn og veginn og ég er ansi oft á hlaupum enda nútímakona og þarf að flýta mér en ég hef aldrei látið mér detta annað í hug en að gefa þeim þann tíma sem þau þurfa enda er ég kurteis og vel upp alin.
Karlinn var í hernum og umgekkst ameríska og breska hermenn í Þýskalandi í seinni heimsstyrjöldinni. Hann er mjög ánægður með að ég skuli vera útlensk og talar alltaf við mig á ensku líka. Segir: Comment ça va? How do you do? og þegar ég spyr hvernig lyfjameðferðin gangi segir hann að batinn sé hægur, slow, slow. Stundum reynir hann að tala ensku við börnin mín því hann virðist nokkuð sannfærður um að hitt tungumálið þeirra sé enska. Mig grunar reyndar að þó ég hafi sagt honum nokkrum sinnum á viku í tvö ár að ég sé frá Íslandi, þá haldi hann enn að ég komi frá Írlandi.
Hann er búínn að vera nokkuð lengi í meðferð við krabbameini og er orðinn afskaplega tættur. Hann talar mun sjaldnar ensku við mig en áður og er alveg hættur að segja mér sögur af hermönnum, tyggjói og öllu því sem við þekkjum svo vel úr okkar eigin íslensku sögu.
Um daginn kom ég inn og sá stóran blómvönd við dyr þeirra. Mér brá ógurlega og það var einmitt þá sem ég gerði mér grein frir því hvað ég er hrædd um að hann lifi ekki lengi. Ég kvíði því ógurlega að hann deyi, ég veit ekki hvað verður þá um blessaða konuna hans sem lifir fyrir það að hugsa um hann. Þau fara á spítala inni í borginni á tveggja vikna fresti og hann liggur í 3 daga. Þangað fara þau í metró og svo fer hún til hans á hverjum degi. Hvunndagshetjur.
Einhverra hluta vegna eiga þau engin börn og þau virðast afskaplega sæl með það að vera kölluð amma og afi af börnunum mínum og sem betur fer er gott samband á milli þeirra. Enda hafa gömlu hjónin aldrei tekið upp á þeim ósið sem gamalt fólk á stundum til, að vera að reyna að kyssa þau eða klípa í kinnar þeirra. Þau bara beygja sig aðeins niður og spjalla vð þau, dást að fínu skónum og spyrja hvort þau megi eiga þá, svínvirkar á börnin sem eru alltaf jafn glöð að sjá þau.

Hann safnar frímerkjum en því miður fæ ég afskaplega sjaldan bréf frá Íslandi svo ekki græðir hann mikið á því frá mér. Ég geri þó í því að senda manninum mínum kort þegar ég er á Íslandi, aðallega til að skaffa karli ný frímerki í safnið.

Í gær mætti ég umrenningalegu konunni og dætrum hennar tveimur. Þær eru að flytja inn. Þetta verður spennandi.

Lifið í friði.