24.10.06

fjórða og síðasta hæð

(og sú fimmta fyrir þau sem ekki byrja að telja á núllinu).
Fimmta hæðin er vitanlega langskemmtilegasta hæðin. Þar býr svalasta liðið, því þó unga prúða parið með nýja barnið á fyrstu hæð sé yngra en við hjónin, þá eru þau bara svo settleg að það mætti segja að þau séu orðin karl og kerling, í það minnsta kona og maður meðan við hjónin berjumst við að vera stelpa og strákur áfram þrátt fyrir mjög breyttan lífsstíl (það er gersamlega búið að skemma þetta orð fyrir manni með leiðindaofnotkun auglýsinga- og markaðsgúrúa á því undanfarið) frá því sem var fyrir tíma barneigna.
Þið þekkið okkur nú svolítið, ég veit satt best að segja ekki hvernig ég á að draga upp mynd af okkur því vissulega er annað sjónarhorn en á hina íbúana sem við höfum aldrei drukkið kaffibolla með, hvað þá meir.
Við erum sem sagt með tvö börn og búum á franskfjórðu hæð án lyftu en þegar við ákváðum að kaupa okkur íbúð var það einmitt til að losna við að búa á fimmtu hæð án lyftu. Þá var ég með væna bumbu og þegar ég kom upp götuna hvæsti ég á manninn minn að við værum sífellt að skoða íbúðir sem kæmu ekki til greina. Svo kom ég másandi og blásandi hingað inn og vissi um leið að þetta væri íbúðin mín. Parket, hvítmálaðir veggir, skemmtilega sveitalegt eldhús með skrautlegum flísum, ágætt baðherbergi og frábært útsýni til tveggja átta. Annars vegar í suðvestur, yfir skógi vaxna hæð og yfir til Parísar (við sjáum glitta í Sacré Cœur þó háhýsi skyggi reyndar á hana) og hins vegar yfir einbýlishúsahverfið hér á bakvið og svo langt í norðaustur sjást viðbjóðsblokkarskógarnir, þar sem allt of margar og allt of háar blokkir hafa verið byggðar á allt of litlu svæði. En að horfa á slíkt úr fjarska heldur manni kannski við efnið, minnir okkur á hvað við höfum það nú gott eftir allt saman þó vitanlega hefðum við heldur viljað kaupa íbúð í París sjálfri á sínum tíma, enda svona 101-týpur í okkur þó ég sé reyndar alin upp í Breiðholtinu.
Við erum alltaf mjög brosmild og gefum okkur tíma í óþarfa spjall við nágrannana. Við gefum húsverðinum og skúringakonunni gott þjórfé um jólin. Við reynum af fremsta megni að sýna tillitssemi, erum meðvituð um parketið og hávaðann sem berst niður (þó að seljandinn hafi reyndar lofað því að hann væri með rokna hljóðdeyfi undir því) og erum dugleg að fara út með börnin á daginn, bæði okkar geðheilsu vegna og hinna íbúanna í blokkinni. Ég er þó farin að spá í mottur, hvort ég eigi að setja eitthvað slíkt á gólfin hérna því ekki léttast börnin og ekki hætta þau að hlaupa hér um, sérstaklega á kvöldin fyrir matartímann. Ég vil alls ekki að fólk þjáist okkar vegna en ég verð að segja að mér vex það í augum að fara að setja stórar mottur á gólfin, það hlýtur að vera vesen fyrir þrifin.
Við völdum fólkinu í hverfinu miklum heilabrotum vegna undarlegrar verkaskiptingar, Arnaud fær oft að heyra það í umhyggjutóni að hann sé svo natinn við börnin, á tímabili var hann hálfhræddur við konuna á framköllunarstofunni, hún var hreinlega að reyna við hann, sannfærð um að hann hlyti að vera ekkill. Þess vegna splæsti ég í digital myndavél. Múahaha.
Ég fæ aldrei að heyra að ég sé natin við börnin mín. Þó að Arnaud fari með þau í skólann flesta dagana er það ég sem sæki þau og er með þau fram að kvöldmatnum sem ég elda um leið og þau eru böðuð. Ég er ekki að kvarta, en það fer samt auðvitað í mínar fínustu femínistataugar að þetta skuli ekki þykja tiltökumál, um leið og að allt sem pabbinn gerir er ofmetið.
Við vinnum bæði frekar óreglulega og erum fullmeðvituð um að allir voru að drepast úr forvitni yfir lífi okkar. Flestir vita þó núna, eftir tvö og hálft ár í hverfinu, hvað við gerum og hafa samþykkt okkur sem nágranna þó að ég sé of stutthærð og gangi stundum um í Afríkukjólum.
Á móti okkur búa tveir drengir. Annar þeirra er nýlegur húseigandi og mamma hans býr í næsta stigagangi. Þeir eru rúmlega tvítugir og í háskóla. Spila mikið tónlist, frekar góða (þunga) og ganga aldrei um öðruvísi en með þræði úr eyrunum. Skemmtilega hirðulausir, ég tók einu sinni mynd af ruslapokunum þeirra sem stóðu heilan dag á stigapallinum eftir tiltekt en ég þori ekki að birta mynd hérna, né hef ég nafngreint fólkið því ég er svo hrædd um að einhver nágrannanna geti gúgglað sig hingað inn. Þetta voru þrír svartir plastpokar, tveir kassar af bjór og þrír, fjórir pizzakassar.
Þeir heilsa okkur alltaf kurteislega og þykjast m.a.s. hafa áhuga á Sólrúnu þegar hún lætur þá dást að kjólnum sínum eða skónum. A.m.k. annar þeirra á kærustu sem er frekar mikið hérna. Þau sofa lengi frameftir og vaka eftir því. Ég heyri þau oft koma heim seint á næturnar með látum, í fyrsta lagi greinilega ofurölvi, einu sinni var m.a.s. blómapotti granna minna á þriðju hæð rutt um koll og lá þar með mold út um allt morguninn eftir, í öðru lagi stendur hurðin hjá þeim á sér og heyrist því vel þegar reynt er að loka og læsa. Ég held að bréfið niðri sé aðallega ætlað þeim, mér skilst að þau eigi það til að spila tónlist frameftir (íbúðirnar eru svo vel hannaðar að svefnherbergin snertast ekki, heldur er það innri stofan okkar sem nær að stofunni þeirra og stundum heyri ég í þeim ef ég fer í tölvuna seint að kveldi en aldrei þannig að það trufli mig, svefnherbergi reffilegu appelsínugulhærðu grönnu þeirra er alls ekki undir stofunni en kannski spila þau tónlist í svefnherbergjunum, unga fólkið). Svo er það nú bara þannig að þessir ungu menn með ofurlíf tóku við af manni sem bjó einn, ljúfum homma sem vann á gufubaðstofu, stundum á næturnar og heyrðist aldrei múkk í. Það er erfitt að koma í staðinn fyrir slíka nágranna, sérstaklega ofan á appelsínugulhært ofurviðkvæmt höfuð.
Við vorum einmitt í sömu aðstöðu, maðurinn sem seldi okkur bjó hér einn, fráskilinn með uppkomin börn, kvikmyndatökumaður sem var oft í burtu. Örugglega ferlega fúlt fyrir þau hér undir okkur að skipta honum út fyrir okkur.

Það er gaman að búa í blokk. Eins og öll sambönd, getur það verið krefjandi en eitthvað fær maður samt til baka líka. Ég skil alveg Íslendinga að vilja heldur búa í húsi, hafa garð og allt þetta pláss, enda er það til staðar.
Ég mæli þó með því að fara við og við í almenningssamgöngum milli staða, þar rekst maður oft á kynlega og skemmtilega kvisti. Og fátt er hollara í lífinu en að átta sig á því hvað það er fjölbreytilegt og skemmtilegt.

Lifið í friði.