hreingerningar
Mánudagurinn hófst á kaffibolla og svo var tekið til í tenglalistanum, nokkrum enn bætt við blogglistann, óþolandi að þurfa endalaust að vera að uppgötva nýja og góða bloggara, en hvað getur íslensk kona í útlöndum gert annað en að leyfa sér að vera háð þessu samskiptaformi?Eftir þetta þarfaverk bætti ég við nýjum kafla sem heitir Móðir jörð. Þar eru grænir vefir og friðarvefir. Allar ábendingar vel þegnar. Þetta er gert eftir mikinn þrýsting frá vinkonum sem berjast nú með kjafti og klóm gegn stóriðjustefnu o.s.frv. Ég er dálítið hikandi, þessi síða er jú í nánum tengslum við parisardaman.com og ég er hrædd um að geta misst viðskipti út af þessu. En ég ætla að taka áhættuna.
Ég get bara lofað því að ég hef aldrei hætt að bera virðingu fyrir fólki fyrir skoðanir þess og þoli illa fólk sem er einum of fyllt sjálfbirgingslegri trú á því að það hafi fundið sannleikann og verði nú að snúa öllum öðrum til betri vegar. Fyrir mér er vandlæting versta tilfinningin, mun verri en afbrýðisemin sem þó étur fólk innan frá. Þegar ég finn fyrir vandlætingu tek ég sjálfa mig umsvifalaust í gegn, spái og spekúlera og leyfi mér ekki að sökkva í þann drullupytt.
Kannski má kalla mig hræsnara en það verður þá að hafa það. Ég fann lýsinguna á mér í Um anarkisma (sem ég mæli með að allir lesi) og þar er ég þessi alltumvefjandi væmna týpa sem trúir á allt hið góða og eilífan frið. Ég þarf að lesa bókina aftur með blýant í hönd og þá skal ég birta lýsinguna hérna, ég skellihló þegar ég komst að því hvaða aumingjatýpa ég er í raun og veru.
En nú ætla ég fram í eldhús að fá mér hafragraut og svo verður tekið til í nokkrum skápum. Þetta verður góður dagur.
Lifið í friði.
<< Home