Áli
Nú er hér á heimilinu lítill hestur sem dótir mín hefur tekið miklu ástfóstri við. Um daginn sagði ég henni að hún gæti gefið honum nafn. Hún leit á mig spennt og sagðist ætla að skýra hann íslensku nafni. Eftir smá umhugsun birti yfir henni og hún tilkynnti mér hróðug: Hann heitir Áli!Mér finnst þetta svo dularfullt og skrýtið og veit alls ekki hvernig ég á að taka þessu. Ég hef ekki mikið galað yfir börnum mínum um álver og virkjanir. Ákvað snemma að leyfa þeim að vera saklaus og áhyggjulaus eins lengi og ég gæti komið því við. Ég held að þetta hljóti einfaldlega að vera tilviljun en veit þó að einhvers staðar inni í mér er þessi hugsun um að tilviljanir séu ekki til og að líklega sé þetta einhver ábending.
En nú ætla ég að leggjast yfir eina fáránlegustu og áreiðanlega tilgangslausustu þýðingu sem ég hef nokkurn tímann unnið. Ég er sannfærð um að hún verður aldrei lesin, ekki einu sinni af manninum sem bað mig um að gera þetta, hann verður í Hong Kong og kemur heim eftir að þýðingin verður send til Kóreu. Þetta er listi fyrir leikhóp yfir alla búningana sem þau eru að taka með sér í sýningarferð til Kóreu. Já, þeir eru ekki bara að sprengja og hræða, kunna nú líka að njóta lífsins en vilja þó vera fullvissir um að geta lesið af lista á ensku um hvern einasta hlut sem kemur með leikurunum í heimsókn. Sem ég er fullviss um að þeir munu svo ekki gera.
Gleymi því ekki hvað ég var stressuð þegar ég sendi kassana með Eimskipum þegar ég í væmniskasti viðkvæm og brotin eftir erfið sambandsslit lét mömmu gabba mig út í að flytja aftur til Íslands. Ég hafði fyllt skýrslurnar út þannig að fyrstu tveir kassarnir voru nákvæmir en eftir það varð allt miscellanious sem er skemmtilegt orð og notadrjúgt í tollskýrslugerð. Skemmst er frá því að segja að kassarnir komust óopnaðir inn í landið og ég hef dauðséð eftir því alla tíð síðan að hafa ekki smyglað nokkrum rauðvínsflöskum með.
Fyrir tveimur árum tók ég á móti risastórri styttu frá Asíu fyrir eiginmann föðursystur eiginmanns míns. Enskan sem notuð var í fylgiskjölunum var brandari sem ég get því miður ekki endurtekið, það er ekki hægt að muna súrrealískan texta sem maður les yfir einu sinni. Manni tókst að skilja að verið var að lýsa stríðsmanninum krjúpandi sem hann Jean var að flytja inn (og þessi stríðsmaður hefur hrætt bæði skúringakonur og barnabörnin allar götur síðan þar sem hann krýpur með horfið sverð sitt í höndum í borðstofunni í fína húsinu í Bordeaux). Ég á mynd af stríðsmanninum. Hér er hann:
Lifið í friði.
<< Home