16.10.06

húsið mitt

Í húsinu mínu eru 10 íbúðir. Tvær þeirra eru tómar eins og er. Í hinum býr fólk. Og nokkur dýr líka.
Einhverjum í húsinu mínu finnst einhverjir aðrir of háværir.
En einhverra hluta vegna þora þau ekki að fara til þeirra háværu og segja þeim það beint út að þeim finnist þau of hávær heldur fóru þau í húsfélagið og nú er bréf niðri um að það eigi að virða rétt okkar allra á kyrrð frá 00:01 til 23:59. Tekin eru nokkur dæmi um hávaðasamar athafnir og eru baðferðir þar nefndar.
Börnin mín fara saman í bað. Þau leika sér þar á ýmsan hátt, toga í tippi, hella vatni út á gólf, skvetta framan í hvort annað og stundum verður hávaðinn mikill, sérstaklega þegar þau fara í öskurkeppni en það var vinsæll baðleikur um tíma.
Ég ákvað því, þegar bréfið birtist, að taka þetta til mín með baðið. Um kvöldið setti ég börnin í baðið eins og vanalega nema að ég kveikti ekki ljósið heldur kom með litlu næturljósin þeirra og kveikti á ilmkerti. Ég átti því miður ekki froðu en þarna sátu þau í rökkrinu með fallega flöktandi og marglita birtu og viti menn, þau hvísluðust á.
Daginn eftir tóku þau ekki í mál að hafa ljósið slökkt og léku sér af sömu hjartans lyst og vanalega. Ég er búin að ákveða að fara eftir því sem maðurinn minn sagði strax. Ef fólk hefur eitthvað við okkur og okkar líf að athuga, vinsamlegast hafið samband beint við okkur.
Það er flókið að búa í fjölbýlishúsi upp á þetta að gera. Samskiptin hafa yfirleitt alltaf verið góð hérna enda prímafólk sem býr hér í húsinu. Einu sinni leigðu nokkrir ungir menn íbúð á 2. hæð og leyfðu svolítið mörgum að búa hjá sér stundum og það varð smá vesen með þá, sérstaklega þegar einn þeirra tók upp á því að angra í tíma og ótíma nágrannakonu í húsinu á móti. Það var svo þegar einn þeirra réðist á dóttur sína sem var oft hjá þeim og hegndi henni hressilega fyrir búðahnupl að lögreglu var sigað á þá og þeir eru nú horfnir úr húsinu.
Nú er víst búið að leigja út íbúðina á jarðhæðinni sem hefur staðið tóm síðan í vor. Ég mætti a.m.k. tveimur konum sem ég hélt að væru umrenningar og þær sögðu mér að þær væru tilvonandi nágrannar mínir. Mér leist ekkert sérlega vel á þær en hef löngu lært að útlitið er ekki allt og kannski eru þetta bestu skinn þó fatasmekkurinn og/eða fjárráðin séu kannski ekki upp á marga fiska. En kannski fengu þær svo ekki íbúðina eftir allt saman því ég hef ekki séð þeim bregða fyrir aftur.
Það er ekkert grín að vera í íbúðaleit í París og úthverfunum í dag þegar beðið er um staðfestingu á u.þ.b. fjórfaldri leigunni í innkomu. Ónei.

Stundum langar mig ógurlega mikið í einbýlishús. Með garði. En það er nóg fyrir mig að hugsa um viðgerðir á þökum og annað slíkt til að minna mig á að húsfélagið er til margra hluta nytsamlegt þó mér finnist óþarfi að það sjái um dagleg samskipti okkar fólksins í blokkinni.
Maðurinn minn kann ekki að halda á hamri, veit ekki hver er munurinn á nagla og skrúfu, skilur ekki hvers vegna sumir hlutir hanga uppi sjálfir en aðra þurfi að festa o.s.frv. Ég er ekki að kvarta og vil ekki skipta honum út fyrir handy-homme þó stundum sakni ég þess að hafa ekki greiðari aðgang að slíku. Ég er núna í smá framkvæmdum hér heima og hef gaman af. Maðurinn minn dáist svo að árangrinum á kvöldin þó hann skilji kannski ekkert endilega þetta brölt í mér.
En ég myndi ekki vilja þurfa skríða upp á eigið þak til að stoppa leka.

Ég er ágætlega hress í dag, það er mánudagur, klukkan er þrjátíuogsex mínútur gengin í þrjú. Sólin skín og hitinn er 23 stig.
Best að fara niður í bykobúðina að kaupa svolítið til að mubblan hætti að sveigjast til. Krossbönd? Sumt kann ég bara að segja á frönsku því hér varð ég jú fullorðin og lærði að bora, negla, saga og skrúfa.
Næst skal ég segja ykkur frá skrúfvélinni sem ég gaf sjálfri mér síðasta vor og sem ég kyssi í hvert skipti sem ég nota hana.

Lifið í friði.