17.10.06

Önnur hæð

Aðra hæð (eða þá þriðju ef við notum íslenska alfína kerfið) mætti eiginlega kalla vesenhæðina. Þar er önnur íbúðin tóm en stendur til að leigja hana út.
Í henni bjuggu hjón með tvo litla drengi. Pabbinn er fríður dökkhærður fertugur töffari á glansandi bíl (að vísu í fjölskyldustærð, ekki sportbíll) en hann tók upp á þeim ósóma fyrir u.þ.b. ári að yfirgefa íturvöxnu ljóskuna með permanentið fyrir aðra aðeins grennri en jafnljóshærða konu sem kemur nú með honum á glansandi bílnum að sækja strákana aðra hvora helgi.
Ljóskan yfirgefna keypti íbúðina á móti, en það er íbúðin sem hýsti áður manninn sem barði dóttur sína og dónalega vin hans ásamt fleirum.
Ljóskan hefur staðið í stórræðum við að koma íbúðinni í stand. Hún er með ljósgula eldhúsinnréttingu, kirsuberjalitt plastparket á stofunni, hvíta veggi og stóra dökka kommóðu sem á stendur ilmkerti og nútímalegt líflegt plastskraut. Fyrir ofan kommóðuna er dularfull landslagsmynd í allt of þykkum og skrautlegum og gylltum ramma, manni dettur helst í hug að hún hafi erft þetta verk eftir sumarvinnu á Grund. Þetta er það eina sem njósnarinn íslenski á efstu hæðinni hefur náð að sjá af íbúðinni.
Ljóskan er mjög indæl, reykir út um gluggann og hélt upp á fertugsafmælið sitt í vor með hörkupartýi á mánudagskvöldi. Þá klæddi hún drengina sína í jakkaföt og lét þá vera með bindi. Hún var með dúndrandi diskó og greinilega heilmikið fjör. Mér var ekki boðið.
Strákarnir eru svo sætir að sá eldri, sem var lengi með sítt hár var talinn vera stúlka af okkur í langan tíma. Þeir eru bestu skinn, stundum heyrist í þeim en það er aldrei neitt til að pirra sig á. Þau eru með lítinn hund, sem var keyptur til að bæta drengjunum föðurmissinn og móðurinni ástmannsmissinn.
Hún svaraði húsfélagsbréfinu um daginn með hörkubréfi um að synir hennar færu daglega í bað og hún bæðist afsökunar á því og að hún ætlaði að strauja á morgun og gæti verið að hún myndi hlusta á tónlist um leið og bæðist hún líka afsökunar á því fyrirfram. Bréfið var horfið daginn eftir enda sagði heyrnalausi húsfélaginn mér að bréfið hefði alls ekki verið sett upp út af henni. Hann sagði mér þó ekki hverjum bréfið var ætlað.
Ég skil vel að hún hafi tekið þetta til sín, því fyrir nokkrum vikum fór hún að syngja ásamt drengjum sínum á laugardagskvöldi um tíuleytið. Það var mjög gott veður og allir með opið út og við hjónin litum einmitt hvort á annað: Partý? Vei! Lagið var Life is life og vakti gamlar minningar í hjarta mínu. En Adam var ekki lengi í Paradís því nágranni ein sem býr á hæðinni fyrir ofan og þið þekkið því ekki enn, sá ástæðu til að stöðva fjörið strax og upp hófust miklar illdeilur, öskur og læti með afskiptum a.m.k. íbúa þriggja íbúða og stóðu lætin yfir í rúman hálftíma. Við hjónin héldum ótrauð áfram í Yatzy enda erum við ekki mikið fyrir að taka þátt í rifrildum annarra. Ég get þó ekki neitað að mér var nokkuð brugðið og tapaði í Yatzy því ég á mjög erfitt með að einbeita mér þegar ég heyri fullorðið fólk öskra hvert á annað.
Við bíðum spennt eftir nýjum nágrönnum á þessa vandamálahæð, kannski örlítill uggur í manni, álög á stöðum leysast ekki svo glatt.

Lifið í friði.