31.8.07

stíf í öxlum

Ég er ekki frá því að ferðastrengir og ökuþreyta sé verra en þynnka. Ekki einu sinni hægt að hugga sig við skemmtilegt fyllerí í slenástandinu.

Það er náttúrulega rugl að eiga mann án bílprófs og aka allri fjölskyldunni rúma 5oo kílómetra í hvora átt fyrir þrjá daga í góðra vina hópi. Rugl. Hvað ætli bílpróf kosti? Kannski ég sé komin með jólagjöfina í ár?
Annars var þetta ferðalag algerlega þess virði. Hvað er betra en góðir vinir, góð vín, góð strönd, stundum gott veður, góð stemning, gott hús, góð sundlaug, gott fólk, gott gott gott. Það er ekkert betra. Mig langar stundum svo mikið að flytja út í sveit. Af hverju er ég ekki forríkur rithöfundur? Eða maðurinn minn? Það gæti nú heldur betur bætt upp bílprófsleysið.

Frísins vegna klikkaði ég á að nýta ferð hingað með bækur af lista bóksölunnar. Ef einhver veit af ferð hingað út á næstu dögum er ég að leita að burðardýri. Ég er komin með feitustu og þyngstu bækurnar, held ég.

Á ég að leyfa orðinu fyllerí að standa þarna fyrir ofan? Er það ekki alveg ferlega sjabbí og ódömulegt? Ætti ekki að standa: Ekki einu sinni hægt að hugga sig við það í slenástandinu að kvöldstundin var góð. Jú það er betra. Þið skiptið þessu út, er það ekki?

Lifið í friði.

25.8.07

elli

Fyrsta persónulega bréfið á háskólapóstfangið mitt gladdi mitt litla hjarta í morgun.
Reyndar var ég búin að fá bréf frá vini áður á þetta póstfang, en það var tilkynning til allra nemenda og minnti mig rækilega á að síðast þegar ég var nemi í HÍ heilsaði ég svo til eingöngu kennurum og starfsfólki á skólalóðinni, vegna þess að ég þekkti bara svoleiðis "gamlingja".

Lifið í friði.

gull í mund

Erfið helgi framundan, alger óþarfi að hefja hana klukkan sex á laugardagsmorgni. Finnst mér. Persónulega.
Sérstaklega þar sem ég þarf að vakna eldsnemma á morgun líka og verð líklega seint á ferðinni í kvöld.

Á mánudaginn ætla ég svo að vinna fyrst og aka síðan með fjölskylduna einhver hundruð kílómetra til að komast í hús með sundlaug og rólum í garðinum og stutt í Atlantshafsströnd.
Og veðrið ætlar víst eitthvað að batna þó ég eigi erfitt með að trúa því að það verði sól og hiti í dag því það var þykk hvít þoka yfir hverfinu mínu þegar ég vaknaði og nú er klukkan að verða níu og enn þoka.
Í gær fór ég í lopapeysu í vinnuna. Þurfti reyndar að hafa hana bundna um mig miðja mestallan daginn, en samt, það er ágúst! Það á að vera gott veður.
Í morgun leið mér skyndilega eins og það væri desember. Jólastemning helltist yfir mig í þokunni.
Ég var næstum því búin að eyða þessu þvaðri en þar sem ég frétti að kvartað væri yfir bloggleti minni í kaffisamsætum á Íslandi leyfi ég þessu að standa með afsökunarbeiðni minni. Ég er andlaus. Hvenær byrjar eiginlega námið mitt? Ekkert að gerast á Uglunni ennþá. Engir bókalistar. Ekkert.

Lifið í friði.

23.8.07

af natturan.is

"gert til að tryggja mannlegan uppruna orðanna"

Sætt.

Lifið í friði.

magnað

Stjörnuspáin í laugardagsmogganum er alveg ótrúleg. Þessi kona veit bara allt um mig!

Lifið í friði.

22.8.07

pæling um það sem er varla er pælandi í

Ég skrifaði í gær um eigin ritskoðun og langar að svara nöfnu minni sem sagðist vara sig á oftúlkunum lesenda:
Það sem ég strokaði út í gær var bara hundleiðinlegt þvaður, eins og svo margt sem ég set hérna inn. Stundum finnst mér þetta hundleiðinlega þvaður virka vel og leyfi því að standa en stundum sé ég að það er einfaldlega algerlega flatt og því læt ég það hverfa.

Ég veit bara til þess að hafa einu sinni sært manneskju sem fannst ég skrifa opinskátt um hennar einkalíf og er það í eina skiptið sem ég hef strokað eitthvað út sem ég var búin að birta. Síðan þá minnist ég svo til aldrei á vini mína. Enginn af mínum góðu vinum bloggar, ein vinkona hefur reynt það en var afskaplega blogglöt. Hún er sú eina sem ég veit til að les ýmis blogg, önnur en mitt. Ég er stundum að vísa í þennan heim, bloggheiminn, í samræðum við vini en þau skilja þetta engan veginn þó nokkrir vinir komi og lesi mig, svona til að fylgjast með mínu lífi.

Líklega hafa einhverjir mistúlkað skrif mín, ég skrifa oft í hæðnistón, geri t.d. ansi oft grín að sjálfri mér með ýkjum og gæti það misskilist sem háalvarleg sjálfsskoðun en mér er í raun alveg sama. Það er mjög erfitt að láta hæðnistóninn skína í gegn í skrifum, það sem stendur ritað er einhverra hluta vegna oft tekið mjög alvarlega. Sjálf tek ég VONANDI fáum hlutum of alvarlega, ég er allt of upptekin við að njóta lífsins til þess. Ég er ekki að meina að ég sætti mig við fordóma, átroðning eða annað slíkt enda hef ég nú einmitt rætt það ég hef t.d. verið ásökuð um að vera bitur vegna þess að ég læt mig "málin varða".

Einu sinni fékk ég mjög sterk viðbrögð, þegar ég játaði að vera ekki hrædd við ofsatrúað fólk heldur finnast það frekar fyndið. Það var í sambandi við fólk sem afneitar þyngdarlögmálinu og trúir því að Guð ýti okkur niður á jörðina. Það var nú bara gaman að fá alls konar reiðiöskur frá lesendum. Var m.a.s. ásökuð um að vera þá sátt við að konur væru umskornar, hm, einmitt það já.
Ég skrifaði svo síðar aftur um trúmál og viðraði þá skoðun mína að trú væri einkamál hvers og eins, líkt og kynlíf og býst við að flestir sem komu inn á athugasemdakerfið hafi ætlað að skamma mig eða hissast á mér en þá vildi svo óheppilega eða skemmtilega til að þetta var á afmælisdaginn minn og fyrsta athugasemdin voru hamingjuóskir svo allir einhvern veginn skrifuðu bara hamingjuóskir. Þennan dag fékk ég næstflestu heimsóknir á bloggferlinum (eitthvað um 130 minnir mig) og hef aldrei vitað hvers vegna. Flestu heimsóknirnar komu daginn sem Anna Vélstýra tengdi á mig, ég man alls ekki lengur á hvað hún var að tengja. Ég veit sem sagt ekki hvort trúmálapistillinn hafi vakið athygli og fengið tengingu frá einhverjum hitamanni, trúar eða vantrúar, eða hvort einfaldlega allir vinir og fjölskylda kíktu inn í tilefni dagsins.

Ég blogga aðallega til að fá útrás fyrir sjálfa mig. Mér finnst ógurlega gaman að fá viðbrögð, ég man alveg hverjir fóru fyrst að skilja eftir athugasemdir og man hvað ég var glöð og hissa að einhver skildi nenna að lesa mig. Ég er í raun ennþá mjög hissa þegar mér er sagt af ókunnugu fólki að það lesi mig, eins og t.d. flugfreyjan sem ég hitti á leiðinni heim eftir sumarfríið.
Ég viðurkenni að ég fer eiginlega hjá mér, fæ sviðsskrekkog allt. Ég er sammála Tobba Tenór sem útskýrði hvers vegna hann yfirgaf moggabloggið og kom aftur yfir á blogspot. Þetta er lítið partý og er skemmtilegt sem slíkt. Ég er samt ósammála honum um að allir eigi að vera mér sammála, ég hef alltaf átt gott með að virða annarra skoðanir, finnst það alltaf ósegjanlega spennandi tilhugsun að vera á öndverðum meiði með ýmsa hluti en finna samt væntumþykjuna, samhygðina eða hvað það er sem tengir fólk hvert við annað. Ég finn bara svona stór og væmin orð, bið forláts. Til dæmis finnst mér Anna Vélstýra (svona fyrst ég var búin að minnast á hana) frábær kona og nauðsynleg lesning, fullt af hlutum sem við erum algerlega sammála um þó að hún sé fylgjandi stíflugerðum og álversbyggingum á Íslandi sem ég er ekki. Ég fæ ekki með nokkru móti séð hvernig ég gæti dæmt fylgjendur stóriðjunnar sem ómarktækt fólk og óviðræðuhæft. Au contraire.

En þó mér finnist þetta allspennandi efni að pæla betur í, verð ég nú að kveðja í bili, kannski röfla ég meira um þetta síðar, kannski aldrei. Kannski hætti ég að blogga í kvöld, kannski verð ég áttræð bloggandi blindfull kerling í Suður-Frakklandi eftir rúm fjörtíu ár. En nú þarf lítill gutti með hita og hálsbólgu á mömmu sinni að halda. Og svona til að gleðja ykkur heima á Fróni: Það rignir eldi og brennisteini hér líka!

Lifið í friði.

21.8.07

ekkert

Ég er búin að skrifa þrjár bloggfærslur um mismunandi efni og stroka þær jafnharðan út. Þið vitið ekki hvað þið eruð heppin að þessi síða skuli hafa svona harða ritstjórn.

Lifið í friði.

20.8.07

meira um Falco en einnig um fangelsi

Maðurinn minn vill að það komi fram að hann man vel eftir Rock me Amadeus. En þar sem hann man ekki eftir Jeannie, er honum vart fyrirgefið af yfirvaldinu hér á bæ. Jeminn eini hvað ég man hvað ég lifði mig inn í það ljóta mál allt saman. Myrt stúlka, móðir sem gerist morðingi morðingja barnsins síns, man ekki nákvæmlega hvað ég var gömul en var akkúrat á þeim aldri að geta velt mér upp úr svona hlutum.

Það er greinilegt að nú er orðið svolítið mikið að gera hjá mér, margt sem þarf að huga að, skólar að hefjast bráðum, börnin heima alla daga (gæsla er í boði en ég afþakkaði hana), ýmislegt í gangi í túristabransanum og í skemmtanalífinu. Þá er einmitt dæmigert fyrir mig að flýja inn í eitthvað allt annað, eins og t.d. Falco karlinn, blessuð sé minning hans.

En nú ætla ég í langferð með börnin upp í 15. hverfi til lögreglunnar að sækja veski sem fannst. Börnunum finnst mjög spennandi tilhugsun að vera að fara til lögreglunnar, þau hafa einmitt mikið verið að spá í löggæslu og fangelsismálum undanfarið, ekki veit ég hvers vegna, í alvöru talað, ég sagði þeim ekki frá Hauki hennar Evu né Steinunni né öllum hinum sem sitja í fangelsi fyrir skoðanir sínar (og ekki snúa út úr, þau sitja, eða hafa þurft að sitja, í fangelsi vegna þess að þau neita að greiða sekt, en sektin er vegna skoðana þeirra og því sitja þau inni vegna skoðana sinna). Úff, þetta er löng setning og eflaust léleg en ég er ekki enn byrjuð í íslenskunáminu. Komin með veflykilinn en varð engu nær inni á Uglu síðast þegar ég leit þangað inn.

Lifið í friði.

19.8.07

Bon Dimanche à vous!


Falco - Der Kommissar
envoyé par hakim93200


Ég trúði því varla þegar ég komst að því í fyrradag að ég bý með, og er gift, manni sem man ekki eftir þessu. Stundum getur tveggja ára aldursmunur myndað kynslóðabil.

Lifið í friði.

18.8.07

bananar eru hollir

Um daginn dreymdi mig að ég var með tvo valinkunna bloggara í gönguferð um París á ljóðrænar slóðir. Þessir tveir bloggarar eiga það til að yrkja. Og ég man að ég var að reyna að útskýra fyrir þeim fegurð alexandrínunnar, sem er tólf atkvæða klassíska franska ljóðlínan. Hvaðan koma svona draumar eiginlega?

Þegar ég fór að gera stórinnkaup um daginn var ég vafrandi um blessaða búðina, týnd að vanda. Ég fann hvorki vöruna sem ég leitaði að, né manninn minn með kerruna. Geng ég þá ekki fram á konu liggjandi í gólfinu, full helvítis búð af fólki og er ég reiðubúin að veðja milljón um að einhver var búinn að sjá hana en ekki nennt/þorað að kanna málið, áreiðanlega ímyndað sér að um dópista væri að ræða. Ég tala af reynslu, hef staðið með manninn minn grænan og bláan í framan, meðvitundarlausan, og fólk tók krók framhjá okkur þar sem ég reyndi að fá það til að hjálpa mér að bera hann upp úr metró. Spyrjið líka Baun, ekki langt síðan hún varð fyrir svona hegðun á Íslandinu góða.
Ég sem sagt rauk að konunni og sá að hún var byrjuð að blána. Ég get svarið það, í smá stund hélt ég að hún væri dáin. Ég strauk á henni handlegginn og fann að hún var heit og sá þá einhvern veginn að hún var ekki dáin, ekki stíf, ekki eitthvað. Þetta er í annað skipti á minni stuttu og afskaplega venjulegu ævi sem ég hef þurft að koma við manneskju án þess að vera viss hvort hún væri á lífi. Það er ekki gaman. Ég hef aðeins einu sinni séð lík, það var í kistulagningu. En nokkrum sinnum séð deyjandi fólk í sjúkrarúmi, ein af þeim manneskjum ofsótti mig í draumum lengi eftir dauða sinn.

Þegar ég var að borga á kassanum sá ég ungu konuna ganga og ræða við sjúkraliðið, mikill léttir. Það er ótrúlegt hvað svona lítil atvik geta slegið mann út af laginu. Lífið hangir á bláþræði og þess vegna erum við skyldug til að vera alltaf glöð og góð. Með góð á ég alls ekki við þæg. Það er tvennt ólíkt.

Lifið í friði.

16.8.07

raunsæ

Í gær las ég fullt af slagorðum og skemmtilegheitum um mótmæli á frönsku:

Verum raunsæ, krefjumst hins ómögulega! hef ég t.d. minnst á fyrr en þetta kemur úr '68-uppreisninni og hef ég heyrt það notað af þeim sem berjast fyrir rétti allra til að hafa þak yfir höfuðið og sá í gær enn fleiri hafa nýtt sér þetta, enda þrælfín setning.

En í dag, í staðinn fyrir að sitja og stúdera mótmælagöngur, lög um slíkt á Íslandi og í Frakklandi og rétt þeirra sem vilja mótmæla eins og mig langaði, er ég búin að vera að taka til í barnaherberginu í allan dag.
Raða öllu upp á nýtt, hengja upp myndir, henda dóti, taka til í fataskápum og skúffum og nú er allt glansandi og fínt og uppraðað. Íbúar herbergisins koma svo heim á miðnætti í nótt og spái ég því að lítil ummerki um erfiði dagsins sjáist eftir klukkan tíu í fyrramálið.
En það er samt þess virði. Ég fann t.d. púslin sem vantaði í púsluspilin og það eitt og sér er nú hressandi fyrir mitt viðkvæma sálartetur. Pabbi minn ól mig upp í því að fara vel með hluti og mamma mín er mikil tiltektarkona, ég er meira eins og pabbi en stundum næ ég smá mömmutöktum og fæ af mér að henda og gefa frá mér dót.

Ég á bæði eftir að fara í gegnum stafla af kortum og myndum sem eiga að fara í albúm og annað slíkt og, það sem verra er, í gegnum risastafla af fötum sem þarf að flokka í það sem má gefa, það sem á að skila og þá hvert og það sem ég ætla að halda. Þetta átti að gerast meðan börnin væru í burtu. Það er nú of seint. Mig verkjar af tilhlökkun að knúsa þau og kjassa. Ég er öll flækt í naflastrengnum. Best að skella sér í ilmandi bað áður en ég fer út að kaupa jógúrt og annað svona matarkyns eitthvað. Ekki meira af veitingahúsum og lebenlífi í bili.

Lifið í friði.

14.8.07

sitt lítið

Umræður um Saving Iceland og mótmæli almennt urðu mun líflegri og umfangsmeiri en orðaskipti mín og Björns Fr. í morgun, hjá Stefáni Pálssyni í gær. Ekki misskilja mig Björn, gaman að ræða þetta við þig.
Hjá Stefáni er m.a. hnýtt í léleg kröfuspjöld og get ég ekki verið meira sammála. Hér sjáið þið slagorð sem er bæði hnyttið og oddhvasst.
Mér finnst að Stefán eigi að taka út fyrsta kommentið hjá sér. Það er moggabloggslegt sem hefur sömu merkingu og orðið ósmekklegt.

Annars varð ég fyrir ógurlega smáborgaralegu áfalli sem snertir matta málningu í stað glansandi, núna í hádeginu.

Ég er búin að fá tvö sms á skömmum tíma, en nenni ekki að leita að farsímanum mínum. Annað smáborgaravandamál. Hvað er eiginlega að mér?

Hvað er svo með hann Hrein Hjartahlý Rafauga Ingólf? Þarf hann að dreifa sér um alnetið eins og krabbamein? Er þetta eitthvað stærðfræðikennarakomplexasyndróm? Svona ó, nei, það má ekki blanda öllu saman, það verður að vera röð og regla. Hvílíkt og annað eins. Þrjár bloggsíður handa einum karlmanni. Kommon. Well, núna fáum við sem sagt einn fyrir þrjá:
a) Rafaugað ljóðræna
b) Heilasull um kennslufræði
c) Pólitík

Lifið í friði.

Félagsmenn athugið

Hvar ég stóð með rúllu og pensil og gerði fyrrverandi hvítan vegg aftur hvítan hlustaði ég á Rás 1, en það var orðið ansi langt síðan síðast.

Ég veit um fullt af fólki sem á hænur en er samt ekki í félaginu.

Það getur verið afskaplega þægilegt að detta inn í spjall við mann sem lifir í allt allt öðrum veruleika en maður gerir sjálfur. Og róandi, fróandi er að heyra í fólki sem gerir hlutina af alvöru áhuga, ég er að leita að íslenskunni fyrir passíon, ástríðu já. Fólk sem nær að vera drifið áfram af ástríðu hlýtur að vera heilbrigðara en hinir.

Í gær hlustaði ég á Rás 1 allan morguninn. Það voru a.m.k. þrír fréttatímar, þar af stóri hádegisfréttatíminn. Ekki minnst orði á stúlku á leið í fangelsi. Gerðist það? Var henni stungið í steininn fyrir að berjast af ástríðu gegn stóriðjustefnunni? Og telst það ekki fréttnæmt? Ég veit hún er ekki sú fyrsta. Ég veit ekki hversu margir hafa setið inni hingað til né hvort það hefur talist frétt að slíkt gerist. Viljum við að heilbrigt ungt fólk sitji í fangelsi fyrir skoðanir sínar?

Ég veit um fullt af fólki sem er náttúruverndarsinnað og er á móti stóriðjustefnu stjórnvalda en er samt ekki í Saving Iceland. Né Framtíðarlandinu.

Veggir í barnaherbergjum geta orðið ótrúlega skítugir. Fótaför og hor voru mest áberandi, þetta var veggurinn sem kojan stendur við.

Lifið í friði.

12.8.07

minning um menn

Jaques Villeret var einn af mínum eftirlætisleikurum. Maðurinn minn gaf mér einu sinni miða í afmælisgjöf á leiksýningu sem skartaði honum í aðalhlutverki. Þegar við mættum á sýninguna voru allir ægilega alvarlegir og miður sín. Sýningin var felld niður vegna veikinda Mr. Villeret. Við fréttum síðar að hann hefði verið lagður inn á spítala vegna ofneyslu áfengis og lyfja. Og einhverju síðar var hann bara dáinn. Sisona.

Ég er með ofnæmi fyrir Bergman, því miður. Maðurinn minn hefur verið að reyna að fá mig til að horfa á svo sem eins og eina mynd í minningu hans, en ég hef enn ekki látið undan. Hann er nú dáinn. Sisona.

Hér getið þið séð Villeret taka Bergman, ég hef ekki hugmynd um það hver konan er:
Lifið í friði.

11.8.07

Gleðiganga og reiðifundur

Helginni er hægt að skipta í tvennt í Reykjavík:

GLEÐI OG GAMAN
Gleðiganga með hommum, lellum, trönsum og öllum hinum sem taka þátt og nú vil ég biðja fólk um að hætta að röfla um hræsnina, mætið og verið glöð, það skiptir máli hvort sem alla hina dagana þú sýnir þessu málefni áhuga eða ekki. Þessi leiðindaómur um hræsnina gerir ekkert annað en að hefta baráttu hinsegin fólksins fyrir eðlilegum mannréttindum.
Gangan hefst klukkan tvö í dag, laugardag, á Hlemmi og fer niður Laugaveginn.

FRUSSANDI REIÐI (fundið að Fjallabaki):

Tónleikar, bíó og baráttufundur

Steinunn Gunnlaugsdóttir er 24 ára listamaður og róttæklingur. Hún var sakfelld fyrir mótmæli gegn stóriðju á Íslandi í desember 2006 og mun hún hefja afplánun dómsins 13. ágúst næstkomandi.

Sunnudagskvöldið 12. ágúst verður haldið baráttukvöld henni til stuðnings. Þar verður forsýnd heimildamyndin Viðfangið litla a sem byggir á ævi Steinunnar og verkum.

Að myndinni lokinni verða haldnir tónleikar þar sem koma fram hljómsveitirnar Morðingjarnir, Johnny and the rest og Retron og tónlistarmennirnir Pakku og The Diversion Sessions.

Atvinnumótmælendur verða á staðnum, halda uppi fjörinu og bjóða upp á veitingar. Ýmsir listamenn, pólitíkusar, merkilegt og hugsandi fólk hefur þegar boðað komu sína. Tónlist, óvæntir gjörningar er tengjast því fréttnæmasta í sumar og bíó. Ádeila og andóf er stuð!

Allt ókeypis málstaðnum til stuðnings.

Skemmtileg framtak sem vert er að veita athygli.

Dagskrá kvöldsins

20.30 Húsið opnar. Paku spilar, veitingar.
21.00 Forsýning á heimildamyndinni Viðfangið litla a
22.30 Tónleikar. Morðingjarnir, Johnny and the rest, Skátar og Retron.

http://www.myspace.com/frelsum_steinunni

Lifið í friði.

10.8.07

enn

Mér er ennþá óglatt.
En kannski vegna þess að ég hef ekkert borðað utan smá skammt af hrísgrjónum fyrr í dag.
En ég get ekki borðað því mér er svo óglatt.

Það sést best hvað ég var lasin áðan á því að ég gleymdi galdraformúlunni í lokin. Það hefur, að ég held, ekki gerst fyrr.

Lifið í friði.

hringt sig inn veika

Það hlaut að koma að því: Mígrenikast á vinnudegi.
Þetta er í fyrsta sinn sem ég svík fólk um göngutúr. Ferlega sárt. Næstum verra en höfuðverkurinn og uppköstin.
Muna héðan í frá: Ekki fara í matarboð eftir dag í Versölum, ég er einfaldlega örþreytt eftir slíka daga og ligg yfirleitt heima eins og slytti og fer snemma að sofa. Mig langaði ekki vitund en þetta var frænka karlsins míns sem ég hef svikið nokkrum sinnum á þessu ári, bara þorði það ekki í gær.

Sem betur fer náði ég í alla, tvær alnöfnur á fengu undarlegt símtal: Góðan daginn, Kristín heiti ég, ekki ert þú stödd í París? Ha nei, ég er í Vesturbænum. Ha nei, ekki núna í augnablikinu alla veganna (ég held hún hafi vonast eftir að hafa unnið ferð).
Lenti á þeirri réttu í þriðju tilraun.

Ég er eiginlega alveg hætt að fá mígreniköst. Þau koma út frá vöðvabólgu og mér tekst að halda þessu niðri með reglulegum tímum hjá osteópata-sjúkraþjálfara-hnykkjaranum mínum. Hann var farinn í frí þegar ég kom frá Íslandi og ég hef verið ómöguleg og skökk eftir tjaldferðir og töskuburð. Heit böð, teygjur og æfingar hafa ekki nóg að segja.

8.8.07

Martröð

í morgun vaknaði ég upp með andfælum.
Mig dreymdi að ég skildi börnin eftir í bílnum og fór eitthvert. Kom svo til baka og þá sat afi minn heitinn með bók í aftursætinu í stað Kára í bílstólnum sínum, ég hrökk illilega við og lét mig vakna meðan ég var samt að reyna að kíkja betur inn í bílinn til að sjá hvort börnin væru þar líka eða hvort þau væru horfin.

Og allur dagurinn er búinn að vera hálfskrýtinn, ferlega sakna ég barnanna og ferlega er ég hrædd um þau.

Svo er ég eitthvað lost í sambandi við allt þetta helvítis dæmi.

Ég er í fýlu.

Það er rigning.

Lifið í friði.

busi

í spaslvinnu morgunsins rann upp fyrir mér að ég er háskólanemi á ný og líklega fer önnin bráðum að hefjast. Allt í einu helltist yfir mig kvíði. Ég veit ekkert, hef ekki græna glóru um það hvernig þetta mun fara fram, hvort ég get þetta yfirleitt, né hvað ég á að gera.
Verður haft samband við mig eða á ég að hafa samband og þá hvert?
Og auðvitað, þegar ég fór að athuga hvort eitthvað kæmi fram á síðunni minni hjá Uglu, get ég ómögulega munað hvaða blessaða notendanafn þau gáfu mér þegar ég skráði mig þar inn.
Mér líður eins og busa.

Lifið í friði.

ferðadagur

Dagurinn í gær var fínn. Nú VERÐ ég að koma almennilega til Brussel, sá ekki einu sinni litla pissandi drenginn, það var réttsvo tími til að koma hópnum niður á Miklatorg í hádegismat.
Franskar kartöflur eru upprunnar í Belgíu, við vorum á svo mikilli túristabúllu að þær voru ekki einu sinni neitt spes. En þær voru bornar fram með majónesi. Í Frakklandi eru þær bornar fram einar og sér en sumir vilja sinnep, örfáir fá sér majónes. Íslendingarnir heimtuðu tómatsósu og engar refjar og var það auðsótt mál. Hamborgararnir komu brauðlausir, ég þarf að rannsaka það mál nánar.
Grande Place er sannarlega fallegt torg, kannski það fegursta í heiminum?

Eindoven er ekta hollensk borg, en ég sá enn minna af henni en Brussel. Sniðugir undirgangar, bæði fyrir hjólandi og gangandi, breiðir og notendavænir. Mollið sem ég villtist óvart inn í á leiðinni á lestarstöðina er eins og moll eru út um allt.
Lestarstöðin eins og lestarstöðvar, fólk að fara, fólk að koma, fólk að týna veskinu sínu, fólk að kaupa sér nesti, fólk að kyssast dramatískum blautum kossum, Kristín grúfir sig yfir Sudoku og þykist ekkert sjá eða heyra en er með öll loftnet úti af forvitni. Engin tala bættist í þrautina alla ferðina.

Lestin var frábær, búið að taka THALYS hraðlestirnar milli Parísar, Brussel, Rotterdam og Amsterdam í gegn og annað farrými jafnast alveg á við það fyrsta.
Ég hleraði tvo unga og sérlega fríða drengi í næsta bás. Þeir gáfu ekki mikið fyrir nám á borð við listasögu eða bókmenntafræði. Fínt til að kúltívera sig upp fyrir kaffihúsaferðir en til að lifa af, no way!
Ég hleraði ýmislegt fleira en man ekkert sérstakt í augnablikinu. Saurugar hugsanir skutu upp í kolli mínum, hvernig ætli það sé, fyrir konu eins og mig, komin þó á þennan aldur (nota bene, mér finnst alls ekki farið að slá í mig, er bara ekki lengur tvítug), að vera í ástarsambandi við einn tvítugan? Væri það ekki bara kynferðislegt, gæti ég virkilega náð einhverju öðru úr sambandinu? Ég hló með mér og huggaði mig við að ég á minn karl sem er nú alveg bara hreint ágætur og uppfyllir þarfir mínar á ýmsum sviðum.

Það er mjög kósí að sitja í hraðlest að kvöldi, einhver dumbungsleg stemning, ljósin þjóta hjá eins og strik. Gott ég var með aukapeysu, hefði alveg þegið lopapeysuna. Dottaði stundum og las þess á milli úr Lesbókinni. Er ekki greinin um þýska (ungur og fríður, hné hné hné) innflytjendarithöfundinn eitthvað hroðvirknislega skrifuð?

Lifið í friði.

6.8.07

faraldsfótur

Á morgun vakna ég í París, borða hádegismat í Brussel, fæ kaffi í Eindoven og sofna svo aftur í örmum mannsins míns í París. Starfið getur stundum falið í sér ferðalög annað en um stræti Parísar. Þetta gæti hljómað spennandi en verður aðallega: hossast í rútu klukkutímum saman og sitja svo í lest heim.
Það er að hefjast Heimsmeistaramót íslenska hestsins í Hollandi. Vissuð þið að það væri til? Ekki vissi ég það fyrr en í gær.

Lifið í friði.

5.8.07

opið

Þrammaði um Mýrina í rúmum 30 stigum og brennandi sól, það var stoppað og drukkin ein svöl rósavín og borðaðir ostar og ávextir með.
Svo skildi ég við túristana mína og horfði um stund á hina túristana sem troðfylla borgina, ég held það hljóti að stefna í metár í bransanum, af hverju hringir þá enginn aldrei í mig? Ég er með síma!
Túristarnir þurfa að drekka mikið þegar hitinn rýkur svona upp og allar tunnur voru troðfullar af tómum plastflöskum. Sums staðar er búið að setja upp tvennar tunnur, aðra fyrir ruslahaugana og hina fyrir endurvinnsluna. Mikið vantar þó ennþá upp á þetta og gekk ég með minn tóma vatnsbrúsa langa leið áður en hann rataði í endurvinnslutunnu.
Ég ákvað að taka strætó áleiðis heim, svona í góða veðrinu en varð fyrir kynferðislegu áreiti frá áttræðum manni í skýlinu og forðaði mér ofan í metró. Mun öruggara fyrir fagra konu að ferðast í margmenninu þar.
Þegar heim var komið tók ég eftir því að ég var með opna buxnaklauf. Spurningin er þá bara, hvenær í andsk. gerðist það? Er ég virkilega búin að vera svona í allan dag? Var það út af þessu sem gamli fauskurinn taldi mig álitlega til samræðis?
Það skal tekið fram að í svona hita eru klósettferðir síður en svo tíðar og aldrei var farið á slíkt apparat í þessari bæjarferð.

Annars verð ég að fara að koma hingað inn upplýsingum um Rock en Seine, tónlistarútihátíð í úthverfi Parísar í lok ágúst sem ég hef persónulega aldrei nennt á. Þetta árið er Björk aðalnúmerið, skilst mér.

Lifið í friði.

bara las mbl

Ég ætlaði að lesa um hrakfarir ferðalanga um Verslunarmannahelgina á mbl en þar er ekkert djúsí um fulla unglinga, bara hjólhýsi sem fauk. Jú, reyndar fannst LSD, halló, er það ekki rosalega síðasta öld eitthvað?

Ég hef ekki lagt í að setja upp hjá mér forrit sem útiloka bloggin og auglýsingarnar á fjölmiðlasíðunum, ég bara legg ekki í að lenda í einvherjum vandræðum og eyðileggja netið í tölvunni minni. Þess vegna rakst ég á þessa færslu og langaði að deila henni með ykkur. Franskur ferðamálafulltrúi ræddi einmitt m.a. mengunarvandamál túristabransans á ráðstefnu á Íslandi í vor.
Við náttúruverndarsinnar verðum auðvitað að taka þessa hluti með í reikninginn, það er ekki nóg að biðja um "eitthvað annað en álver", við verðum líka að segja hvað og hvernig og hverjar afleiðingarnar af því eru til langs tíma. Því miður getum við ekki ætlast til þess að allir breytist í nægjusama tófúétandi jógameistara þó líklega sé það það eina sem getur stöðvað bráðnun klakans.

En dularfyllst er fréttin af manninum með áverkana í Hraunbergi sem, eins og fréttatilkynningin segir réttilega, er nálægt Austurbergi. Ég ímyndaði mér miðbæjarrottuna súpa á latte-inu og hugsa: Ha? Austurberg?

Lifið í friði.

4.8.07

feita konan

Þar sem ég kom örþreytt heim eftir sólríkan og heitan dag í bænum, lagðist ég í sófann og kveikti á sjónvarpinu eins og versti plebbi.
Ég lenti inn á einhverjum deco-þætti, sem er stjórnað af konu sem er ekki mjög mjó! Það eitt dugði til að fanga athygli mína, ung, hásrödduð, feitlagin og ofurhress kelling óð þarna um íbúð einstæðu móðurinnar sem hafði unnið þann lottóvinning að fá sjónvarpið til að endurdecorera íbúðina sína fyrir sig og drengina sína tvo. Hún óð þarna um og tók í pensla, skrúfvélar og gerði ýmislegt, a.m.k. þegar myndavélin var í gangi. Mér duttu allar dauðar lýs úr höfði, svo ólík er þessa kona þeim stereótýpum af undirgefnu barbítýpunni sem vaninn er að skreyta allt sjónvarpsefni með.
Í þáttalok kemur móðirin gangandi með lokuð augun inn í íbúðina ásamt drengjunum sínum og hnellna sjónvarpskonan telur upp að þremur. Í bakgrunninn ómar einhver svartur blússöngur sem allir þekkja en ég kann ekki að nefna. Konan og drengirnir opna augun og taka andköf og gráta og faðma sjónvarpsfólkið að sér.
Skyndilega skiptir útlit þáttastjórnanda nákvæmlega engu máli lengur. Hún er, þrátt fyrir "ögrandi" vaxtarlag og framkomu, bara ósköp venjulegur hlekkur í keðju væmninnar og pathetíkurinnar sem ráða ríkjum á öllum sjónvarpsstöðvum og er einmitt ástæðan fyrir því að afar sjaldan hendi ég mér í sófann með fjarstýringuna.

Réttu mér gubbufötuna, er ekki kominn tími á drykk elskan? Laugardagskvöld og börnin á KOS.

Lifið í friði.

3.8.07

viljiði vorkenna mér, bara smá?

Ég er að brjóta heilann um það hvort ég eigi að halda áfram að búa í þessari 70m2 íbúð með engum svölum, á 5. hæð án lyftu.
Mig langar svo að hafa skrifstofu sem getur verið gestaherbergi þegar slíka ber að garði og svo langar mig ógurlega mikið að hafa svalir fullar af plöntum og stólum og borði sem hægt er að borða við. Ekki myndi skemma að börnin hefðu sitt hvort herbergið (er þetta rétt? sitthvort eða sitt hvort?).
Annað er ég þokkalega sátt við þessa íbúð, eldhúsið er lítið og innréttingin hrákasmíð en úr því væri hægt að bæta. Reyndar hefur komið upp sú hugmynd að færa eldhúsið fram í stofu og breyta eldhúsinu í 3. herbergið sem myndi þá leysa annað hvort skrifstofu/gestaherbergis vandamálið eða skortinn á barnaherbergi nr. 2.
OG það er víst möguleiki að búa til svalir hérna þar sem við erum á efstu hæð, hefur víst verið gert hér aðeins neðar í götunni. En þá þurfum við að skera burt hluta af fermetrunum okkar sem eru alls ekki of margir, við erum jú fjögurra manna fjölskylda.

Önnur hugmynd væri að í staðinn fyrir svalir hér gætum við keypt okkur garð annars staðar. Sumarbústaðalóð, helst með eldgömlum hlöðnu húsi sem mætti alveg vera óuppgert og ég gæti dúllað mér við að gera upp og á meðan byggjum við í tjaldi á lóðinni. Ég sé mig alveg í anda í litla sveitahúsinu mínu. Með stóra skemmu fyrir vinnuaðstöðu. Ég get alveg séð það fyrir mér já.

En fyrst vantar okkkur peninginn. Átt þú svoleiðis?

Lifið í friði.

2.8.07

nýr lífsstíl

hakkaði sneiddi og skar nýupptekið grænmeti sem mallaði í ólífuolíu ásamt kryddblöndu

rjómalufsu hent útí

þorskflökin liggja glansandi á disk

ofninn fer bráðum að hitna

grænmetið sósan og flökin verða bökuð

fullkomna eiginkonan bíður með kaldan bjór í glasi handa manninum, sjálf ætlar hún að fá sér pastís
(í þessari setningu er sumt hluti af nýja lífsstílnum, sumt gömul tugga)

börnin fóru með afa og ömmu í dag, tvö ein bara við í tvær vikur

tepokablogg eða einkalífsblogg? jahá bæði og stend við það alla leið!

Lifið í friði.

faðir bloggsins

Í kunningjahópnum mínum eru hjón sem mér þykir ógurlega vænt um og er alltaf gaman að hitta. Þau heita Bragi og María. Það var einmitt Bragi sem sagði mér frá því að það væri auðvelt að opna bloggsíðu, væru fullt af svæðum til, til dæmis blogspot. Ég hafði þá heyrt óljósar sögur af þessu fyrirbrigði.
Ég fór eftir fyrirmælum mannsins sem mætti því segja að væri faðir bloggsins míns.

En Bragi og María eru fjölhæf og troðfull af góðum hugmyndum jafnframt því að vera dugleg. Áður en þið ælið skal ég bara koma að kjarnanum: þau eru búin að opna aftur búðina sína RANIMOSK á besta stað í bænum við hliðina á bæði Dressmann og Café Oliver. Búðin verður opin til jóla. Um að gera að hlaupa og kaupa sér bol eða eitthvað annað skemmtilegt hjá þeim.
Og berið þeim kveðju mína í leiðinni. Allt allt of langt síðan ég hef séð þau.

Lifið í friði.

1.8.07

eldi

Mér dettur ekki í hug að ala börnin mín upp í samviskubiti yfir svöngu börnunum í Afríku enda sannfærð um að samviskubit er letjandi á aðgerðir frekar en hitt. Ég fyrirgef foreldrum mínum þó fyrir að hafa ógnað mér með þessu þegar ég vildi ekki klára af disknum mínum, þau gerðu það í góðri trú.

Hins vegar er ég með átak í gangi sem ég hef kosið að nefna Ávöxturinn kláraður áður en beðið er um nýjan.
Já, ég veit það, hvorki stutt né laggott og alls ekki vænlegt til sölu og gróða enda ætla ég að gefa ykkur þetta hérna alveg ókeypis:
Ef barnið hefur þann leiða ósið að vilja ekki naga allt kjötið af eplakjarnanum, heldur bara djúsí miðjuna og heimtar svo nýtt epli til að seðja hungur sitt með hálfétið eplið fyrir framan sig, er komið fínt tækifæri til að leiða það í sannleikann um sóun og áhrif hennar á náttúruna.
Þó að barnið skilji kannski ekki orðin alveg strax, getur það lært setningar á borð við: Sóun er vanvirðing við náttúruna. Svo má bæta við eftir nokkra daga eða vikur: og náttúran er undirstaða lífsins á jörðinni.
Það getur ekki verið nema gott fyrir börnin að læra svona slagorð, smátt og smátt skilja þau hvað þetta þýðir í raun og veru og þá er líklegra að þau trúi setningunni en að þau mótmæli henni, þannig var það a.m.k. með mig og Ísland úr Nató, herinn burt möntruna sem amma mín kenndi mér.

NB: þetta má yfirfæra á brauðið og skorpuna, kremið og kexið, kjötið og grænmetið og hvað annað sem ykkur dettur í hug.

Að lokum langar mig að þakka öllum aktívistunum sem tóku þátt í beinum aðgerðum á Íslandi í júlí meðan ég sjálf var í mínu sjálfhverfa fjölskyldustússi langt frá fréttatímum og bloggsíðum. Ég lýsi yfir undrun minni á góðu fólki sem telur nauðsynlegt að láta það koma fram að það sé ekki sammála þessum aðferðum, ástandið er svo slæmt, yfirgangurinn svo mikill, að það er í raun furða að ekki hafi verið barist af meiri hörku.

Lifið í friði.